Fara í efni
Menning

Aulos Flute Ensemble með tónleika í Hofi

Aulos Flute Ensemble með tónleika í Hofi

Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir flaututónleikum í Hömrum í Hofi á morgun, sunnudag, undir yfirskriftinni Litróf. Það eru félagar úr Aulos Flute Ensemble sem sækja Akureyri heim, en hópinn skipa að þessu sinni Petrea Óskarsdóttir, sem er heimamönnum að góðu kunn, Karen Karólínudóttir og Pamela de Sensi.

Tónlistarunnendum á Akureyri gefst kostur á að hlýða á frumflutning tveggja nýrra verka, eftir Olvier Kentish og Harald V. Sveinbjörnsson. Auk þess verða leikin verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, Kolbein Bjarnason og Steingrím Þórhallson sem skrifuð voru fyrir Aulos. Einnig verður leikin ein af perlum flautusamspils, Flutes en vacances, Flautur á ferðalagi, eftir franska tónskáldið J. Castéréde.

Markmið hópsins, sem stofnaður var árið 2019, er að stuðla að nýsköpun í tónlist fyrir djúpar flautur. Hópurinn hefur komið fram á öllum helstu tónlistarhátíðum á Íslandi svo sem Myrkum músíkdögum, Sumartónleikum í Skálholti, Listahátíð í Reykjavík og Tectonics. Þær hafa einnig leikið saman í Bandaríkjunum og á Ítalíu.

Aulos vinnur nú að útgáfu geisladisks með tónlist sem samin hefur verið fyrir hópinn.

Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00 á morgun. Miðaverð er 3000 krónur og 20% afsláttur fyrir félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar og námsmenn. Vegna samkomutakmarkana eru aðeins um 30 miðar í boði. Miða er hægt að kaupa í afgreiðslu Hofs, á mak.is og tix.is. Menningarfélag Akureyrar og Rannís styrkja þennan viðburð.