Fara í efni
Menning

Ásta Hrönn selur mynd á góðgerðaruppboði

Vögguvísa - verk Ástu Hrannar sem hún býður upp um helgina.
Vögguvísa - verk Ástu Hrannar sem hún býður upp um helgina.

Ásta Hrönn Harðardóttir, myndlistarmaður, stendur fyrir góðgerðaruppboði á málverki sem er á sýningunni Salon des Refusés í Deiglunni. Sýningin var opnuð í dag, laugardag, og stendur uppboðið til klukkan 14.00 á mánudaginn. Verkið heitir Vögguvísa og er olíumálverk á striga, 80 x 80 cm.

Ásta hélt fyrsta uppboðið af þessu tagi í apríl og gekk það vonum framar að hennar sögn. Allur ágóði rennur til góðs málefnis, að þessu sinni er það félagið Einstök börn sem nýtur góðs af, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Kaupandi síðasta verks fékk að velja málefnið og þannig verður haldið áfram koll af kolli; valið er málefni og Ásta túlkar það með nýju verki.

Listamaðurinn segir verkefnið hafa verið hugarfóstur sitt lengi en hafi loks orðið að veruleika nýlega. „Markmið verkefnisins er að gefa og láta gott af sér leiða í gegnum listsköpun. Hugmyndin að verkefninu „karmaART“ kviknaði útfrá áhuga á yoga, mannrækt og löngun til þátttöku í góðgerðarstarfi. Á árinu 2021 er markmiðið að halda sjö góðgerðaruppboð þar sem allur ágóði rennur óskiptur til málefnis sem valið er af síðasta kaupanda verks. Fyrsta uppboðið var í apríl og gekk það vonum framar,“ segir hún.

Ásta segir málverkið innblásið af málefninu. „Það sýnir ungabarn umvafið hlýju, náttúru og fegurð heimsins og fiðrildi sem tákn um frelsi, æðri tengingu og umbreytingu. Myndinni fylgir einnig ljóð eftir Þorstein Marinósson, innblásið af verkinu.“

Lágmarksboð í Vögguvísu er 30.000 krónur. Smellið hér til að fá frekari upplýsingar um uppboðið.