Fara í efni
Menning

„Án tónlistar er ekkert líf“

„Það eru svo margar ástæður fyrir því af hverju ég elska að koma aftur til Akureyrar,“ segir finnski hljómsveitarstjórinn Anna Maria Helsing sem mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikunum Sú fyrsta og sú síðasta sem fram fara í Menningarhúsinu Hofi næstkomandi sunnudag. Þar verða tvö meistaraverk tónlistarsögunnar flutt; fyrsta sinfónía nemendans Beethoven og síðasta sinfónía lærimeistarans Haydn. 

Þriðja sinn í Hof
Þetta er í þriðja sinn sem Helsing mætir í Hof til að stjórna sveitinni. Árið 2019 stjórnaði hún tveimur af mögnuðustu verkum Mozarts bæði í Hofi og Langsholtskirkju í Dymbilvikunni og í fyrra stjórnaði hún þegar óperan La Traviata eftir Verdi flutt var í Hofi og í Eldborg í Hörpu.

„Hof er dásamleg tónleikarhöll, búin allri nýjustu tækninni. Ég vona að þið séuð stolt af þessu húsi, þið ættuð að vera það. Strax við lendingu á flugvellinum tekur Akureyri á móti manni en þessi bær er svo einstakur og fallegur með fjöll allt í kring. Það er alltaf jafn gott að vinna með hljómsveitinni sem hefur náð að gera ótrúlega hluti á stuttum tíma. Hljóðfæraleikarnir eru ávallt í toppformi og til í tuskið. Það er ástæða fyrir því að ég kem alltaf hingað aftur!“

Margt líkt með Íslendingum og Finnum
Anna Maria er frá Finnlandi sem fyrr segir. Hún segir margt líkt með þjóðunum tveimur. „Til að mynda tungan. Báðar þjóðir státa af þessum undarlegu tungumálum sem ég held að geri okkur meðvitaðri um sérstöðu okkar sem þjóð. Litlar þjóðir eiga það líka sameiginlegt að þurfa að ganga í öll störf. Og svo erum við jafn þrjósk. Við komum hlutunum í verk. Náttúran er líka mikilfengleg í báðum löndum þótt íslenska náttúran sé kröfuharðari. Að mínu mati hefur allt þetta áhrif á menninguna, það hvernig bækur eru skrifaðar, tónlist er samin og málverk máluð.“

Atvinnuhljómsveitir á landsbyggðinni mikilvægar
Klassísk tónlist á djúpar rætur í hefð og sögu Finnlands en í landinu eru starfræktar yfir 20 atvinnu sinfóníuhljómsveitir.

Hversu mikilvægt telur Anna Maria að atvinnuhljómsveit starfi utan höfuðborgarsvæðisins á Íslandi?

„Ég held að það sé gífurlega mikilvægt. Í Finnlandi má finna slíkar sveitir um allt land, sumar litlar en aðrar stórar. Án þeirra hefði fólk ekki aðgang að hágæða tónleikahaldi í sínum heimabæ. Þetta er líka ástæða þess að frá Finnlandi koma svo margir hljómsveitarstjórar sem svo starfa víða um heiminn. Við höfum fengið tækifæri til að spila með okkar eigin sveitum sem er mikilvægt fyrir reynslubankann. Það sama á við um tónskáld, söngvara og hljóðfæraleikara. Það græða allir á þessari ríku hefð. Að sjálfsögðu verða Akureyringar að geta sótt tónleika í sínum heimabæ. Það gerir bæinn eftirsóttari að öllu leyti og verður til þess að fleiri vilja búa hér.“

Sálfræði fólgin í að stjórna
Í aldanna rás hefur hljómsveitarstjórn tilheyrt heimi karlmanna en Anna Maria segir það að breytast enda geti konur stjórnað jafnt á við karla. En af hverju varð hljómsveitarstjórn fyrir valinu?

„Ég valdi ekki að stjórna – fagið valdi mig. Ég starfaði sem fiðluleikari og elskaði að spila með hljómsveit og fann að það að leiða átti vel við mig. Í fyrstu leiddi ég sveitina úr stóli konsertmeistara en fann fljótt að ég gæti meira ef ég legði frá mér fiðluna. Eftir að ég komst inn í Sibelius Academy var ekki aftur snúið. Ég varð ástfangin af faginu og hef aldrei litið til baka. Ég elska fólk og það er mikil sálfræði fólgin í því að stjórna. Það er svo hrífandi að sjá fólk gera sitt besta og það er hjartnæmt að sjá 50 manns koma saman til að skapa saman tónlist. Að verða vitni að þessum hæfileikaríka hópi blandast saman og starfa eins og ein lífvera. Að fá að færa heiminum smá fegurð og von – heimi sem er ekki alltaf mjög fallegur. Fyrir mig, að fá að vera partur af þessu ferli, og þessari fallegu tónlist, veitir mér hina fullkomna hamingju.“

Fyrsta og síðasta sinfónían
Á sunnudaginn verða tvö meistaraverk tónlistarsögunnar flutt í Hofi; fyrsta sinfónía nemendans Beethoven og síðasta sinfónía lærimeistarans Haydn. Anna Maria segir bæði verkin afar áhugaverð. „Þau eru samin með nokkurra ára millibili og eru annars vegar síðasta meistaraverk og hinsvegar það fyrsta. Það er ákaflega áhugavert að heyra þau flutt á sömu tónleikunum, að geta borið þau saman. Hversu mikið styður Beeethoven sig við hefðina sem Haydn og Mozart sköpuðu? Og hversu einstakur er hann, strax í sinni fyrstu sinfóníu?“

Ekki nóg að tóra
Hún segir mikilvægi klassískrar tónlistar mikið. „Án tónlistar er ekkert líf. Ég efaðist einu sinni snemma á mínum ferli og sagði lækni mínum frá því. Ég sagði honum að læknar björguðu lífum í sinni vinnu sem væri ansi ólíkt starfi tónlistarmannsins. En læknirinn spurði mig til baka; til hvers að bjarga mannslífum ef engin væri tónlistin? Þetta gaf mér nýja yfirsýn. Í dag veit ég hversu mikilvæg listin er. Það er ekki nóg að tóra bara, við þurfum að lifa.“

Greta Salóme kynnir verkin
Tónleikarnir á sunnudaginn fara fram í Hofi klukkan 16.00 á sunnudag. Á undan verður Greta Salóme, konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, með kynningu á tónskáldunum og verkum þeirra á veitingastaðnum Garún í Hofi. Kynningin hefst klukkustund fyrir tónleikana. Öll velkomin á kynninguna.

Miðasala á tónleikana fer fram á www.mak.is.