Fara í efni
Menning

Verk Alice Sigurðsson sýnd í Deiglunni

Verk Alice Sigurðsson sýnd í Deiglunni

Föstudaginn 13. ágúst verður opnuð í Deiglunni sýning á verkum Alice Sigurðsson.

Alice Julia Sigurðsson var vel þekkt hér á Akureyri. Hún fæddist í Sacramento í Kaliforníu í desember 1921 en lést á Akureyri í ágúst 2011. Hún ólst upp við Lake Tahoe í Sierra Nevada en stundaði listnám við California College of Arts and Crafts í Oakland og lauk þaðan BA-prófi í grafískri hönnun og kennslu í myndlist árið 1944. Eftir árs starf í Bandaríkjunum flutti hún til Íslands. Í ágúst 1945 giftist hún Aðalsteini Sigurðssyni menntaskólakennara.

Alice vann að myndlistarstörfum hérlendis, meðal annars fyrir Prentverk Odds Björnssonar og gerði árum saman jólamerki Kvenfélagsins Framtíðarinnar, en vann auk þess að myndlist, teiknaði, málaði og skar út. Hún unni íslenskri náttúru og þau hjónin undu lengi við hestamennsku og náttúruskoðun. Alice var einstakur snillingur í vatnslitamálun og myndir hennar af ósnortinni náttúru og þó einkum fuglum þykja með ólíkindum vel gerðar. Alice tók þátt í mörgum samsýningum, meðal annars með Listhópnum á Akureyri, meðan hann starfaði. Árið 1996 var henni veitt sérstök heiðursviðurkenning Akureyrarbæjar fyrir margvísleg störf að menningu og listum.

Sýningin á verkum Alice verður opnuð í Deiglunni 13. ágúst og stendur til 22. ágúst. Öll verkin á sýningunni eru til sölu og mun andvirði þeirra renna óskipt til Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri.