Fara í efni
Menning

ÁLFkonur sýna í 12. skipti í Lystigarðinum

ÁLFkonur bjóða nú í 12. skipti, í samvinnu við Lystigarðinn á Akureyri og veitingahúsið LYST,  uppá ljósmyndasýningu við útsvæðið og veitingasöluna í garðinum. Hópurinn opnar sýninguna á laugardagsmorgun klukkan 9.00.
 
ÁLFkonur – ÁhugaLjósmyndaraFélag fyrir konur – er hópur kvenna með ljósmyndun að áhugamáli og hefur starfað saman sem hópur frá árinu 2010. Hópurinn hefur haldið fjölmargar ljósmyndasýningar víða um Akureyri, Eyjafjörð, á Húsavík og í Edinborg Skotlandi.
 
Að þessu sinni takast þær á við vetrarríki, -birtu og form sem fanga augað yfir köldustu mánuðina. Sýning hefst um sjómannadagshelgina og ÁLFkonur tileinka sýninguna íslenskum sjómönnum sem öðrum fremur kljást við vetrarstorma og veðrabrigði í störfum sínum,“ segir í tilkynningu.

Að þessu sinni eru þátttakendur á sýningunni, Agnes Heiða Skúladóttir, Berglind H. Helgadóttir, Guðný Pálína Sæmundsdóttir, Hafdís G. Pálsdóttir, Halla S. Gunnlaugsdóttir, Helga H. Gunnlaugsdóttir, Helga Haraldsdóttir, Hrefna Harðardóttir, Inga Dagný Eydal, Kristjana Agnarsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Linda Ólafsdóttir og Margrét Elfa Jónsdóttir.