Fara í efni
Menning

Alexander sér fegurðina í fiskroðinu

Listrænn fisksali. Alexander er sonur Ólafar Ástu í Fisk kompaníínu á Akureyri og Kristjáns Bergs í Fiskikónginum í Reykjavík.

Alexander Örn Kristjánsson hefur lifað og hrærst í kringum fisk allt sitt líf. Fyrst á Siglufirði, svo á Akureyri og nú í Reykjavík. Um helgina sýnir hann fiskroð í nýju ljósi í Núllinu á Laugavegi. Sýningin verður opnuð kl. 18.00 í dag.

„Ég er að handleika, flaka og afgreiða fisk alla daga. Þessi vinna er líklega eins sú ólistrænasta sem finnst, og þó, því fiskroð er ótrúlega fallegt og myndrænt. Ég heillaðist alveg af því. Ekkert roð er eins, hvorki á milli fiska né fisktegunda. Og ef rýnt er í roðið og ímyndundaraflið er notað sjást ýmsar myndir í roðinu. Það minnir að vissu leyti á íslenskt landslag, bæði form og litir,“ segir Alexander sem undanfarin ár hefur verið að mynda fiskroð og stækka myndirnar upp á striga, samhliða starfi sínu sem rekstrarstjóri Fiskikóngsins.

Fiskroð geymir ýmis form og liti sem minnir oft á íslenskt landslag.

Listin finnur sér leið

Alexander er sonur Ólafar Ástu Salmannsdóttur, sem er annar eigandi Fisk kompanísins á Akureyri. Faðir hans er Kristjáns Berg, eigandi Fiskikóngsins í Reykjavík. „Afar mínir og ömmur í báðar ættir voru líka í fiski svo fiskur hefur alltaf verið allt í kringum mig,“ segir Alexander sem er uppalinn á Siglufirði. Þaðan lá leiðin á myndlistarbraut Menntaskólans á Tröllaskaga og síðan á listnáms- og vöruhönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri, en meðfram náminu í VMA vann hann hjá móður sinni í Fisk kompaníinu. „Ég fór svo í klæðskeranám við Iðnskólann í Reykjavík og var að vinna sem verslunarstjóri í Gallerí Sautján í nokkur ár, en fór aftur í fiskinn til að vinna mér inn pening fyrir íbúð. Metnaður minn og áhugi liggur samt í tísku og myndlist og það er eitthvað sem er ekki er hægt að læsa niðri, listin finnur sér alltaf leið,“ segir Alexander sem fór að rýna í roðið með augum listamannsins.

Alexander tekur nærmyndir af fiskiroði og stækkar þær upp á striga. Hann teiknar líka inn á sumar myndirnar.

Skarkolinn fallegastur

Alexander segist ekki mynda hvaða roð sem er, hann leitar eftir áhugaverðum eiginleikum og hann getur þurft að flaka marga fiska til að finna þann rétta. „Stundum líða heilu vikurnar án þess ég myndi neitt hreinlega af því að ég sé ekkert áhugavert,“ segir hann.

Upphaflega fór Alexander að stækka myndirnar upp og prenta á striga því hann vantaði eitthvað á vegginn heima hjá sér. Viðbrögð þeirra sem sáu myndirnar voru afar góð og fólk í kringum hann fór að biðja um myndir. Það hvatti hann áfram. „Þetta eru um 20 myndir sem ég er að sýna á sýningunni um helgina. Þær eru allar mjög mismunandi bæði hvað stærð og myndefni varðar.“ Aðspurður að því hvaða fisktegund sé í uppáhaldi þá stendur ekki á svari. „Það er skarkoli sem við Íslendingar þekkjum reyndar betur undir nafninu rauðspretta. Skarkoli er hins vegar íslenska orðið, rauðspretta er danskt tökuorð,“ segir Alexander sem hefur einmitt valið skarkolann sem sitt listamannsnafn enda vill hann gjarnan gera orðinu hærra undir höfðuð og minna á það svo það gleymist ekki. Verk hans má finna undir þessu nafni bæði á Facebook og Instagram.

Sýning Skarkolans um helgina er opin sem hér segir:

Föstudagskvöld milli kl. 18 og 20, laugardag milli kl. 11 og 20 og sunnudag milli kl.13 og 18.