Fara í efni
Menning

Aldrei viðlíka aðsókn á þessum árstíma

Ragnar Kjartansson laugardaginn þegar sýningin Gestirnir/The Visitors var opnuð í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 4. febrúar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Aðsókn að Listasafninu á Akureyri hefur aldrei verið jafn mikil í febrúar og mars og á þessu ári.

„Aðal aðdráttaraflið er auðvitað sýning Ragnars Kjartanssonar, Gestirnir / The Visitors þó að margir séu einnig að koma á Sköpun bernskunnar 2023 sem opnaði fyrir skemmstu,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins við Akureyri.net.

Vel á þriðja þúsund manns

„Það hefur verið rífandi aðsókn að Listasafninu í febrúar og það sem af er mars. Við höfum aldrei áður séð viðlíka aðsóknartölur í þessum mánuðum. Íslendingar eru í mikum meirihluta gesta og tilfinning mín að það séu bæði innlendir ferðamenn og Akureyringar sem flykkjast í safnið.“

Í febrúar og það sem af er mars hafa rúmlega 2.000 gestir komið á safnið – „og það er fyrir utan hópa; úr grunnskólum, leikskólum, framhaldsskólum og háskólum, auk starfsmannahópa og annarra sem einnig hefur fjölgað, en ég er ekki með nákvæma samantekt á því ennþá. Það eru þó sennilega nokkur hundruð manns til viðbótar,“ segir Hlynur.

Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, og Ragnar Kjartansson við opnun sýningarinnar Gestirnir / The Visitors. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta er um það bil þreföldun frá 2022 og 2021, sem voru vissulega Covid-ár en einnig þreföldun á aðsókn miðað við 2020 en það var einmitt í mars það ár sem Covid skall á okkur.“

Hann nefnir að 2019 hafi „reyndar verið frábært ár enda stærra og endurbætt Listasafn nýopnað og erlendir vetrargestir fjölmennir, en samt er aðsóknin nú meiri en þá.“

Heillar alla upp úr skónum

Hlynur tekur þannig til orða að sýning Ragnars Kjartanssonar, Gestirnir / The Visitors, heilli alla upp úr skónum og algengt sé að fólk komi aftur og aftur. „Ég hef hitt konu sem var að koma í fimmta sinn, alltaf með nýja áhugasama vini með sér. Árskort hafa selst vel og sérstaklega árskort + 1 þar sem einmitt er hægt að bjóða gesti með sér á safnið. Börn jafnt sem fullorðnir eru heillaðir af þessari sýningu og félagar mínir í heita pottinum í morgunsárið hafa einnig farið afar lofsamlegum orðum um sýninguna og þá er nú mikið sagt því þau eru oftast ekki að spara gagnrýninina sem á reyndar stundum fullkomlega rétt á sér!“ segir safnstjórinn.

„Það er eitthvað töfrandi við þetta verk Ragnars sem nær til allra og fólk tengir við og vill koma aftur og deila upplifun sinni með öðrum. Við hér á safninu erum í skýjunum yfir viðtökum og þessari góðu aðsókn.“