Fara í efni
Menning

Akureyringar eignast loks krimmahöfund!

Mynd af Kára: Sigurjón Ragnar.

Það brakar í stólnum þegar ég stend upp. Byssuhlaupið er svarthol sem sogar athygli allra að nálarauga dauðans. Í myrkrinu ríkir algjör þögn.

Nú stjórna ég.

Spennusagnahöfundurinn Kári Valtýsson er nýbúinn að gefa út sína fjórðu bók, Hyldýpi, hjá Drápu útgáfu. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri, nánar tiltekið á Brekkunni, en býr í Reykjavík með fjölskyldu sína. Kári er lögmaður auk þess að skrifa skáldsögur, rekur hann sína eigin lögmannsstofu. „Í upphafi bókarinnar erum við stödd í lögmannssal, þar sem óþekkt persóna tekur stjórnina með haglabyssu að vopni,“ segir Kári í samtali við blaðamann Akureyri.net. Línurnar í uppafi fréttarinnar eru úr innganginum.

Fléttar saman þrjá söguþræði

„Ég er að segja sögur nokkurra sögupersóna,“ segir Kári, um söguþráðinn í bókinni. „Dögg er ungur læknir og starfar í Súdan fyrir Lækna án landamæra. Hún er þarna með vinkonu sinni frá New York og þær búa saman í flóttamannabúðum og svo er smá rómantík í þessu, þar sem Dögg fer að dragast að yfirlækninum í búðunum. Þessi þrjú fara svo í sendiferð til borgar sem heitir Nyala og sú ferð hefur mjög slæmar afleiðingar í för með sér.“

„Svo er klippt yfir í allt aðra sögu, en þá kemur Kristján lögmaður til sögunnar, sem ég viðurkenni alveg að er lauslega byggður á sjálfum mér,“ segir Kári. „Hann er nýbúinn að opna sína eigin stofu í Reykjavík og er alveg að drepast úr afkomuótta. Hann fær svo loksins til sín tvö mjög athyglisverð mál í einu, en það er frekar klassískt í þessum bransa - að ýmist er ekkert að gera eða allt of mikið.“ 

„Þriðji söguþráðurinn hverfist svo um Pawel, sem er að gera góða hluti á Íslandi og er kominn með kærustu og barn á leiðinni, þegar hræðileg fortíð hans í Póllandi nær í skottið á honum,“ segir Kári. „Þá elta hann uppi glæpasamtök sem hann starfaði fyrir í fyrndinni, alveg á versta tíma, og draga hann inn í atburðarrás sem hann getur ekki tekist á við.“

„Eins ólíkir og þessir þræðir kunna að hljóma, þá læt ég þá fléttast saman og ná hámarki með upphafsatriði bókarinnar - þar sem ónefnd persóna heldur heilum dómssal í gíslingu með haglabyssu,“ segir Kári, en hann nýtir sér þarna klassískt spennubókatrikk, þar sem hámarki sögunnar er lýst á óræðan hátt í upphafi, og lesandinn rekur svo upp þræðina með höfundinum í gegn um bókina, til þess að sjá hver er að verki, og hvernig sagan endar. Haldið í heljargreipum.

 

Elín Ragnarsdóttir, Arndís Lilja Guðmundsdóttir, Kári Valtýsson og Ásmundur Helgason.

Frá útgáfuhófi Kára á Gráa Kettinum: F.v. Elín Ragnarsdóttir, Arndís Lilja Guðmundsdóttir, Kári Valtýsson og Ásmundur Helgason. Ljósmynd/Elvar Baxter

Alltaf verið hrifinn af spennubókum

Hyldýpi er fjórða bók Kára. Fyrstu bækurnar sem hann gaf út hétu Hefnd og Heift, gefnar út af Sögum útgáfu. Þessar tvær eru í raun sería, og eru eiginlega vestrar,“ segir Kári. „Svo kom smá hlé á skrifum, en árið 2022 gaf ég út bókina Kverkatak hjá Hringaná útgáfu. Síðan tók ég mér aftur dágott hlé á skrifum þar til núna, þegar ég gef út Hyldýpi hjá Drápu útgáfu“.

„Ég hugsa að það sé vegna þess að ég les sjálfur mest spennubækur,“ segir Kári, aðspurður um efnisvalið fyrir skáldsögur sínar. „Það heillar mig að ímynda mér venjulegt fólk lenda í einhverjum svakalegum aðstæðum og þurfa að klóra sig fram úr því, hvernig á að takast á við það. Þannig byrja eiginlega allar mínar hugmyndir að bókum, Hvað ef einhver lendir í þessu? Hvað gerist þá?“ 

Frásagnargleðin hófst í myndasögum

Kári hefur í rauninni verið sögumaður frá unglingsaldri, þegar hann og vinur hans Barnaskólanum (Brekkuskóli í dag) og Menntaskólanum á Akureyri voru iðnir við að framleiða teiknimyndasögur. „Þetta snerist nú kannski ekkert um að vanda sig eitthvað og ég vona að þessar sögur líti aldrei dagsins ljós,“ rifjar Kári upp, um árdaga sögumennskunnar. „Ætli þetta hafi ekki snúist mest um að teikna eitthvað ofbeldisfullt og fá einhverja útrás þannig. Það var nú samt einhver texti í þessu, og söguuppbygging - upphaf, miðja og endir!“

Ég skrifaði fullt af rusli fyrsta sumarið sem ég fór að fikta við þetta

Næturvaktaskáldið

„Ég var 21 árs, að vinna á sambýli á næturvöktum, þegar mér datt fyrst í hug að fara að skrifa af alvöru,“ segir Kári. „Maður þreif aðeins í byrjun vaktar, skjólstæðingarnir farnir að sofa og svo tóku við sex klukkustundir af engu. Ég hef alltaf lesið mikið sjálfur, og þarna datt mér allt í einu í hug, að kannski gæti ég bara sjálfur skrifað bók til að drepa tímann. Ég skrifaði fullt af rusli fyrsta sumarið sem ég fór að fikta við þetta. Ég kláraði meira að segja bók sem var léleg og fór beint í skúffuna - en það var samt ákveðinn áfangi að klára hana og ég sá að ég gæti þetta alveg.“

„Meira að segja konan mín fékk ekki að lesa þessa fyrstu bók, ég áttaði mig bara fullkomlega á því að þetta væri ekki mönnum bjóðandi,“ segir Kári og hlær. „Ég vildi ekki reyna að gefa eitthvað út sem væri ekki nógu gott, þannig að fólk myndi svo ekkert vilja lesa meira eftir mig.“

Gríðarlega mikilvæg æfing

„Ég gerði þetta vandræðalega lengi, ég skrifaði fullt af bókum sem enginn fékk að lesa og ég var ekki nógu ánægður með,“ segir Kári. „Síðan kom ég loksins inn á bók sem ég sá strax að gæti mögulega orðið eitthvað. Það var í rauninni sagan sem svo var útgefin mörgum árum seinna sem Kverkatak, sem er mín þriðja bók. Ég lét hana liggja mjög lengi og endurskrifaði hana alla áður en hún kom út.“

„Ég sé öll þessi skrif í aðdragandum í rauninni ekki sem tímaeyðslu, þar sem þetta var gríðarlega mikilvæg æfing fyrir mig,“ segir Kári. „Enginn karakter hélt í rauninni lífi úr þessum æfingaskrifum mínum, þau enduðu öll í ruslatunnunni. Þau voru fórnarkostnaður.“

„Hyldýpi er að fá góðar viðtökur, sem er mjög gaman,“ segir Kári að lokum. „Ég finn hellings meðbyr, en það var meðvituð ákvörðun að gefa bókina út svona snemma og forðast jólabókaflóð. Það er yfirleitt ekki von á gagnrýni fyrr en nær dregur jólum, og vonandi verður hún tekin þá og rýnd einhversstaðar.“