Fara í efni
Menning

Menningarhöfuðborg Evrópu - Akureyri?

Menningarhöfuðborg Evrópu - Akureyri?

Formaður stjórnar Menningarfélags Akureyrar og framkvæmdastjóri félagsins vilja að Akureyri verði menningarhöfuðborg Evrópu. Í grein á Akureyri.net í dag  skora Eva Hrund Einarsdóttir og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, fyrir hönd félagsins, á Akureyrarbæ, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og menntamálaráðuneytið að taka í „í samstarfi með okkur stóra stökkið og stefna á að Akureyri verði Menningarhöfuðborg Evrópu.“

Í greininni leggja þær einnig til að fyrirhuguðaðri þjóðaróperu verði fundið heimili í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Borgir eða bæir á evrópska efnahagssvæðinu og í EFTA-löndum geta sótt um titilinn Menningarhöfuðborg Evrópu, en þær eru raunar nokkrar á hverju ári.

Eva og Þuríður segja að á Akureyri hafi orðið til yfirgripsmikil sérfræðiþekking og reynsla í að standa fyrir stórum menningarviðburðum. „Með því að stefna að því að verða Menningarhöfuðborg Evrópu færum við aukinn kraft og framþróun inn í menningarlífið á Akureyri sem nær langt út fyrir bæjarfélagið og í raun um allt land. Ísland og Akureyri fengju aukna innlenda og alþjóðlega athygli og umfjöllun. Markmiðið í sjálfu sér yrði lyftistöng fyrir menningarlífið í landinu, en reynsla annarra borga segir að fjárfestingar á svæðinu aukist í kjölfarið sem og að innviðir styrkist enn frekar. Þetta markmið færir Akureyri og nærsveitum einnig tækifæri til að rýna í sína sögu og menningararf ásamt hlutverki þess í íslensku og erlendu samhengi.“ 

Þjóðaróperan

Síðan segja þær: „Að þessu sögðu er einboðið að finna fyrirhugaðri þjóðaróperu heimili í Menningarhúsinu Hofi. Þannig væri hægt að nýta þekkingu, yfirbyggingu og félag sem þegar er fyrir hendi og láta stærstan hluta fjármagnsins renna beint í listræna framleiðslu. Það yrði hagur fyrir Þjóðaróperuna að hafa aðsetur í Hofi og nýta samlegðaráhrifin af annarri starfsemi Menningarfélags Akureyrar, en sýningar óperunnar færu fram bæði á Akureyri og í Reykjavík í samstarfi við fleiri menningarstofnanir.“

Smellið hér til að lesa grein Þuríðar Helgu og Evu Hrundar.