Fara í efni
Menning

Áhyggjur í VMA: staða sálfræðings lögð niður

Mynd: Þorgeir Baldursson

Staða sálfræðing við Verkmenntaskólans verður lögð niður fyrir næsta skólaár. „Ástæðan er viðvarandi rekstrarvandi skólans þar sem fjárframlög virðast ekki endurspegla fjölbreytt námsval og hinn fjölbreytta nemendahóp sem skólann sækir, auk endalausra hagræðingarkrafna af hálfu hins opinbera,“ segir í yfirlýsingu frá hópi fólks í VMA; forvarnarfulltrúa skólans, kennarafélaginu, náms- og starfsráðgjöfum og stjórn Þórdunu, nemendafélags VMA.

Þeir sem yfirlýsinguna senda „hafa þungar áhyggjur af afleiðingum þessarar ákvörðunar.“

Yfirlýsingin er svohljóðandi í heild, Akureyri.net bætti inn millifyrirsögnum:

Sálfræðingur tók fyrst til starfa í Verkmenntaskólanum á Akureyri á haustönn 2012, fyrst í 50% stöðugildi í tilraunaskyni en síðan í auknu starfshlutfalli. Hlutverk hans hefur frá upphafi verið að veita nemendum, og jafnvel kennurum, ráðgjöf, standa fyrir fræðslu fyrir nýnema og bjóða þeim sem það hafa þurft upp á einstaklingsviðtöl (Verkmenntaskólinn á Akureyri, 2023). Það hefur því oft fallið í hans hlut að frumgreina vanda nemenda og meta þörf á meðferðarúrræði. Alvarleikinn hefur svo ráðið því hvort nemandanum er vísað í viðeigandi úrræði t.d. hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) eða Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK). Sálfræðingurinn hefur því í senn veitt meðferðarverkfæri, verið tengiliður og tilvísunaraðili fyrir nemendur sem ekki vita hvar eða hvernig þeir leita sér aðstoðar eigi þeir við andlegan, félagslegan eða geðrænan vanda að stríða.

Mikil eftirspurn

Eftirspurn eftir þjónustu sálfræðings hefur frá upphafi verið mikil innan skólans sem endurspeglast í því að starfshlutfall hans hefur farið stækkandi frá því sem var árið 2012, úr 50% í 75% (Verkmenntaskólinn á Akureyri, 2023). Gera má ráð fyrir að þar leiki sýnileiki hans og auðvelt aðgengi nemenda að honum stórt hlutverk. Það er býsna stórt skref að leita sér aðstoðar utan veggja skólans, samanborið við það að líta í gættina í opnum viðtalstímum skólasálfræðingsins. Ætla má að þannig hafi nemendur fengið úrlausn sinna mála sem annars hefðu ekki leitað sér aðstoðar, eða a.m.k. ekki eins fljótt. Snemmtæk íhlutun og stuttur biðtími er lykilatriði þegar kemur að því að mæta nemendum, sem glíma við andlega örðugleika, og fyrirbyggja þannig að vandinn ágerist.

Vaxandi vanlíðan

Nú er sú staða komin upp að samningur við sálfræðing verður ekki endurnýjaður fyrir næsta skólaár og staðan lögð niður. Ástæðan er viðvarandi rekstrarvandi skólans þar sem fjárframlög virðast ekki endurspegla fjölbreytt námsval og hinn fjölbreytta nemendahóp sem skólann sækir, auk endalausra hagræðingarkrafna af hálfu hins opinbera. Nemendaþjónusta VMA, kennarafélagið og stjórn Þórdunu, nemendafélags skólans, hafa þungar áhyggjur af afleiðingum þessarar ákvörðunar. Skimun fyrir einkennum þunglyndis, kvíða og streitu (DASS) meðal nemenda skólans bendir til þess að fjöldi nýnema þurfi á aðstoð að halda og hefur það hlutfall verið svipað síðustu árin. Inn á framhaldsskólastig koma nú nemendur sem glíma við vandamál er þekktust nær ekki fyrir aðeins örfáum árum, skólaforðun er þar ofarlega á blaði en líka vaxandi vanlíðan ungs fólks, ekki síst stúlkna og hinsegin nemenda.[1] Í nýlegri könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfi kemur fram að mikill meirihluti þeirra, eða 74,3%, þykir þægilegast að ræða hinsegin málefni við skólasálfræðing og tveir þriðju vildu helst tala við skólahjúkrunarfræðing (Tótla I. Sæmundsdóttir og Daníel E. Arnarsson, 2020, bls. 30). Enginn hjúkrunarfræðingur hefur verið starfandi í VMA á þessari önn og sálfræðingurinn á förum. Það má því spyrja hvað verður þá um stuðning við þennan nemendahóp. Málið varðar þó ekki aðeins vellíðan stúlkna og hinsegin nemenda.

Sjálfsvígsforvarnir voru meginviðfangsefni nýafstaðins sálfræðiþings og var þar undirstrikað mikilvægi þess að nálgast hópa sem eru í mestri hættu á að falla fyrir eigin hendi, eins og kemur skýrt fram í almenningsfyrirlestri Dr. Tómasar Kristjánssonar (2024) á þinginu. Það hefur lengi legið fyrir að ungir karlmenn eru sérstakur áhættuhópur þegar sjálfsvíg eiga í hlut og þess vegna mikilvægt að nýta menntakerfið til þess að efla forvarnir og fræðslu um málefnið fyrir karla á aldrinum 13-23 ára eins og kemur fram í viðtali við Högna Óskarssonar geðlækni í Læknablaðinu á síðasta ári (Við verðum að sinna forvörnum af fullum þunga, segir Högni Óskarsson geðlæknir, 2023). Greitt aðgengi að sálfræðingi innan veggja framhaldsskóla skiptir því sköpum þegar kemur að því að ná til þessa hóps.

Sálfræðingur mikilvægur

Ekki verður heldur horft fram hjá því að nemendum af erlendum uppruna hefur farið fjölgandi og mun fjölga mun meira á næstu árum ef spár ganga eftir (Hagstofa Íslands, e.d.). Þeir koma úr alls kyns aðstæðum og eru sumir hverjir markaðir af lífsreynslu sem þeir þurfa aðstoð til þess að vinna úr. Þá hefur nemendum á starfsbraut fjölgað mikið undanfarin ár, töluverður fjöldi þeirra glímir við ýmis þroskafrávik sem tilfinninga- og hegðunarvandi getur fylgt. Þjónustuþörf þessara nemenda er oft meiri og flóknari en annarra og það krefst meiri sérfræðiþekkingar, og þá ólíkra fagstétta, til þess að mæta þörfum þeirra. Sálfræðingur gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að styðja þennan nemendahóp, aðstandendur hans og ekki síður starfsfólkið sem vinnur með þeim.

Í lögum um þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021), farsældarlögunum svokölluðu, sem samþykkt voru á Alþingi sumarið 2021 er lögð áhersla á aðgengilega og einstaklingsmiðaða grunnþjónustu fyrir börn og aðstandendur þeirra. Flókinn skóli eins og VMA lendir á 1. og 2. þrepi í stigskiptri þjónustu, eins og henni er lýst á vefsíðunni Farsæld barna (Barna- og fjölskyldustofa, e.d.). Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á snemmtæka íhlutun og samþættingu þjónustu skýtur það því skökku við þegar skólastjórnendur grípa til þess óyndisúrræðis að segja upp lykilstarfsmanni þessarar þjónustu, án þess að nokkuð komi í staðinn. Þessi aðgerð er tæplega í anda þess „að stuðla markvisst að velferð og farsæld barns“ eða því að „fylgjast með velferð og farsæld barns“ og „leitast við að greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt á fullnægjandi hátt og bregðast við þeim“ svo að vitnað sé til 13. og 14. greinar farsældarlaganna.

Fyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er fyrirséð að afleiðingarnar af brotthvarfi sálfræðingsins verða nokkrar, ekki aðeins á nemendur, heldur líka starfsfólk og nærsamfélagið allt. Álag mun þannig aukast á náms- og starfsráðgjafa, sem við skólann eru tveir í stöðugildinu 1,8. Verkefni þeirra eru ærin fyrir sem má m.a. sjá á því að fjöldi þeirra er ekki í samræmi við áherslur Kennarasambands Íslands og aðildarfélaga þess um að nemendafjöldi að baki hverju 100% stöðugildi námsráðgjafa sé að hámarki 250 (Kennarasamband Íslands, 2022). Í VMA eru nú um 900 nemendur. Hvorki námsráðgjafar né aðrir tengiliðir vegna farsældarlaganna eru jafn vel í stakk búnir og skólasálfræðingur þegar kemur að því að sinna nemendum sem eiga í andlegum erfiðleikum.

Óttast aukið brotthvarf

Þau sem þetta rita gera sér grein fyrir að sálfræðingur er ekki lögbundið starfsheiti í framhaldsskólum en vegna þess hve mikilvægt er að aðgengi að slíkri þjónustu sé gott og gjaldfrjálst væri nær að hið opinbera setti sér þá stefnu að fjölga sálfræðingum í framhaldsskólum landsins til þess að koma til móts við þau fjölþættu vandamál sem þar blasa við og munu gera á næstu árum. Samkvæmt viðmiðum Samtaka bandarískra skólasálfræðinga (e. National Association of School Psychologists) ætti fjöldi nemenda á hvern sálfræðing að vera á bilinu 500-700 (Eklund o.fl, 2017, Eklund o.fl, 2020 og NASP, e.d.). Gera má ráð fyrir að þörfin fyrir þjónustu sálfræðinga sé ekki minni í skólum hérlendis. Það er því ljóst að sálfræðingur í 75% stöðugildi nær ekki að anna þeim 900 nemendum sem nú sækja nám í VMA, þótt hann sé vissulega betri en enginn.

Nemendur og starfsmenn VMA hafa miklar áhyggjur af því að niðurskurður á stöðugildi sálfræðings muni hafa í för með sér aukið brotthvarf nemenda úr námi, vaxandi vanlíðan og aukið álag á stofnanir og félagasamtök sem sinna geðheilbrigðisþjónustu í bænum, með tilheyrandi bið eftir úrræðum og uppsöfnuðum vanda. Nú er lag fyrir hið opinbera að lögbinda geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri hvort sem hún er veitt á vegum HSN eða skólanna sjálfra.

Forvarnarfulltrúi VMA

Kennarafélag VMA

Náms- og starfsráðgjafar VMA

Stjórn Þórdunu, nemendafélags VMA

Heimildir:

Barna- og fjölskyldustofa. (e.d.). Stigskipting þjónustu. Farsæld barna. https://www.farsaeldbarna.is/is/stigskipting-thjonustu

Bergsteinn Sigurðsson. (2024, 20. febrúar). Vansæld ungmenna birtingarmynd samfélags sem leggur meiri áherslu á samkeppni en samkennd. RÚV. https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2024-02-20-vansaeld-ungmenna-birtingarmynd-samfelags-sem-leggur-meiri-aherslu-a-samkeppni-en-samkennd-405407

Eklund, K., Meyer, L., Way, S. og Mclean, D. (2017). School psychologists as mental health providers: The impact of staffing ratios and Medicaid on service provisions. Psychology in the Schools, 54, 279–293. https://doi.org/10.1002/pits.21996

Eklund, K., DeMarchena, S. L., Rossen, E., Izumi, J. T., Vaillancourt, K. og Rader Kelly, S. (2020). Examining the role of school psychologists as providers of mental and behavioral health services. Psychology in the Schools, 57, 489–501. https://doi.org/10.1002/pits.22323

Hagstofa Íslands. (e.d.). Mannfjöldaspá. https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/mannfjoldaspa/mannfjoldaspa/

Júlía Aradóttir. (2024, 20. febrúar). „Svo ótrulega langir biðlistar að þegar fólk þarf hjálp fær það ekki hjálp“. RÚV. https://nyr.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-02-20-svo-otrulega-langir-bidlistar-ad-thegar-folk-tharf-hjalp-faer-thad-ekki-hjalp-405410

Kennarasamband Íslands. (2022). Kjarastefna KÍ 2022-2026. https://www.ki.is/um-ki/stefna-ki/kjarastefna/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTAAAR16V8Yf-bzW83LXWrXTcnd93FaqFGq118XInL00fwD0HDQVfMH5bKjCPQ8_aem_Ae8YwAt5AptRZnHW66CUt9o9g38c_6er5QU0_Wkzz-HSCivXcplI516uunlK1kdICbLW_N5HxMMdk3KqGFgufp1Y

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.

Margrét Einarsdóttir og Ásta Snorradóttir. (2020). Geðræn líðan íslenskra ungmenna: Tengsl við vinnu með skóla? Læknablaðið, 106(11). doi: 10.17992/lbl.2020.11.605

NASP. (e.d.). Shortage of School Psychologists. https://www.nasponline.org/about-school-psychology/media-room/press-releases/nasp-applauds-report-calling-for-increased-access-to-school-psychologists

Tótla I. Sæmundsdóttir og Daníel E. Arnarsson. (2020). Könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfi. Samtökin ʻ78. https://samtokin78.is/wp-content/uploads/2020/08/Skolakonnun_GLSEN_FINAL.pdf

Tómas Kristjánsson. (2024). Vekjum von – samtal um sjálfsvíg. Sálfræðingafélag Íslands. https://salfraedithing.is/dagskra-salfraedithing

Verkmenntaskólinn á Akureyri. (2023, 16. ágúst). Sálfræðingur: Ársskýrslur. https://www.vma.is/is/thjonusta/namsradgjof/arsskyrslur-salfraedings-vma#eldri-arsskyrslur

Við verðum að sinna forvörnum gegn sjálfsvígum af fullum þunga, segir Högni Óskarsson geðlæknir. (2023). Læknablaðið 109(1). https://www.laeknabladid.is/tolublod/2023/01/nr/8201

 

[1] Um vanlíðan ungs fólks má t.d. lesa hjá Bergsteini Sigurðssyni, 2024, Júlíu Aradóttur, 2024 og Margréti Einarsdóttur og Ástu Snorradóttur, 2020).