Fara í efni
Menning

Áhersla á nýsköpun á WindWorks í Norðri

Ella Vala Ármannsdóttir hornleikari, tónskáldið Daníel Þorsteinsson og Petrea Óskarsdóttir flautuleikari á æfingu. Þær Ella Vala og Petrea frumflytja verk eftir Daníel á fyrstu tónleikum hátíðarinnar, í Pálshúsi á Ólafsfirði annað kvöld.

Tónlistarhátíðin WindWorks í Norðri verður haldin í annað sinn á Norðurlandi dagana 2. til 12. ágúst. Þessa tíu daga verða haldnir sautján tónleikar víðs vegar um Norðurland, frá Ólafsfirði til Langaness. Viðburðir hátíðarinnar fara að mestu fram í söfnum til að mynda í Pálshúsi á Ólafsfirði, Listasafninu á Akureyri, Sauðaneshúsinu á Langanesi og Sjóminjasafninu á Húsavík.

Þrátt fyrir að WindWorks í Norðri hátíðin sé nú aðeins haldin í annað sinn hefur hún vaxið mjög milli ára og þegar vakið mikla athygli, ekki bara hér heima heldur einnig erlendis, að því er segir í tilkynningu.

  • Í ár hafa þrjú erlend tónskáld óskað eftir því að semja verk fyrir hátíðina en það eru brasilíska tónskáldið Luiz Casteloes, Barbara Kaszuba frá Póllandi og Edoardo Dinelli frá Ítalíu. Þau munu einnig ferðast til landsins og vera viðstödd frumflutning verka sinna.
  • Frumflutningur verka innlendra tónskálda verður einnig áberandi en Daníel Þorsteinsson tónskáld og píanóleikari verður staðartónskáld WindWorks í Norðri 2023 auk þess sem frumflutt verður verk eftir Sunnu Friðjónsdóttur.
  • Eitt af meginmarkmiðum WindWorks er að hvetja til nýsköpunar í tónsmíðum fyrir blásturshljóðfæri, sér í lagi fyrir smærri samsetningar hljóðfæra.
  • „WindWorks í Norðri leggur einnig áherslu á að virkja mannauð heimamanna og skapa tækifæri fyrir norðlenska blásara til að koma fram. Um leið eru góðir gestir boðnir velkomnir sem krydda mannlífið, skapa tengsl og færa okkur strauma og stefnur frá sínum heimaslóðum. Tónskáldin Daníel og Sunna eru bæði heimamenn og búsett hér til margra ára en einnig eru í hópi flytjenda leiðandi norðlenskir hljóðfæraleikarar á sínu sviði.“ Má þar til dæmis nefna Ellu Völu Ármannsdóttur hornleikara og Petreu Óskarsdóttur flautuleikara en þær halda einmitt opnunartónleika hátíðarinnar 2. ágúst kl. 14 í Pálshúsi á Ólafsfirði og frumflytja þar verk eftir Daníel og Sunnu.
  • Á WindWorks í Norðri 2023 koma einnig fram Sóley Björk Einarsdóttir og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson trompettleikarar, Páll Szabo fagottleikari auk fjórtán annarra blásara sem meðal annars koma víða að úr Evrópu.

Nánari upplýsingar á heimasíðu hátíðarinnar windworksfest.com