Fara í efni
Menning

Að anda hér og nú; ljósið kemur í Deigluna

Ragnar Hólm Ragnarsson „úti í náttúrunni“ á vinnustofu sinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Ragnar Hólm Ragnarsson „úti í náttúrunni“ á vinnustofu sinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Um helgina ætlar Ragnar Hólm Ragnarsson að hleypa ljósi í Deigluna í Listagilinu þegar hann heldur einkasýningu í 20. skipti. Sýningin – Ljósið kemur – stendur yfir laugardag og sunnudag.

Ragnar er fæddur á Akureyri 1962 og starfar við markaðsmál fyrir sveitarfélagið. Síðasta rúma áratuginn hefur hann helgað allan sinn frítíma myndlist og meðal annars notið handleiðslu myndlistarmannsins Guðmundar Ármanns og einnig sótt námskeið hjá þekktu myndlistarfólki víða um Evrópu. Vatnslitamyndir Ragnars hafa verið valdar á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrirferðarmeira í list hans.

Þú varst lengi linnulítið á ferðinni með vatnsliti – og Guðmund Ármann – í bílnum! Glímirðu við vatnsskort eða hvers vegna stakkstu þér á kaf í olíuna?

„Vatnslitirnir eru enn á sínum stað en bara ekki á þessari sýningu. Það er ágætt að hvíla þá inn á milli og sleppa sér lausum í glímu við olíulitina. Ég hef stundum sagt að vatnslitir og olía séu eins og ballett og box – vatnslitirnir leikandi léttir og leyfa engin mistök en olían hins vegar þung og sveitt og erfitt að ná þeirri öskrandi þögn sem leggst loks yfir strigann þegar sigur er unninn. Þá falla formin hvert að öðru í einhverjum furðulegum samhljómi. Nú eru akrýllitirnir líka komnir á stjá hjá mér og þeir eru þá kannski eins og bændaglíma andspænis ballettnum og boxinu, og þar kemur inn grasgræn harmonía með blómum, hringrás lífs og dauða, trú og von.“

Náttúran er enn í aðalhlutverki hjá þér en þó með öðrum blæ. Var tilbreyting nauðsynleg eða kannski tilraun til að feta einhverja ókunna slóð?

„Linnulaus iðja fleytir manni langt í myndlist eins og öllu öðru sem maður tekur sér fyrir hendur og vill gera sómasamlega. Maður breytir ekki til meðvitað, heldur þróast áfram í stökkum, svipað og veirur stökkbreytast, maður festist í einhverju en nær síðan upp á næsta plan. Við búum í náttúrunni og náttúran býr í okkur. Það er aldrei hægt að gera eitthvað úr engu eða úr tengslum við þá staðreynd að við lifum hér og nú. Allar mannlegar gjörðir eru afurð náttúrunnar og endurspegla hana. Málverkin mín verða til vegna þess að ég stend við strigann löngum stundum og vegna þess að ég anda hér og nú.“

Ertu þá horfinn frá abstrakt málverkunum?

„Ég held að málverkin mín hafi aldrei verið abstrakt í raun og veru, miklu frekar abstrakt expressjónísk og það er líklega bjartara yfir þeim en verið hefur. Þannig læðist ljósið yfir strigann,“ segir Ragnar Hólm og bætir við að titill sýningarinnar vísi í gamla, góða húsganginn Ljósið kemur langt og mjótt. „Það fallega stef tengist æskuminningum um jólahátíðina og biðinni eftir að sólin fari að hækka aftur á lofti. Skammdegið getur verið þrúgandi en handan við hornið er alltaf betri tíð með blóm í haga. Ég vona að málverkin endurspegli það, svona í felstum tilfellum.“

  • Sýning Ragnars í Deiglunni er opin laugardaginn 11. desember og sunnudaginn 12. desember frá kl. 14.00 til 17.00 báða dagana.

www.ragnarholm.com
https://www.facebook.com/ragnarholm.art/
info@ragnarholm.com