Fara í efni
Menning

Þráðurinn trosnar en slitnar ekki

Fullorðin - Árni Beinteinn Árnason, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason sem semja verkið og leika.

Það hefur verið líflegra á leiksviði á Akureyri en á þessu undarlega ári. Atvikin hafa hagað því svo að sýningar hafa verið færðar til og þeim frestað. Gripið hefur verið til þess að hafa fámennar sýningar með fáum leikendum og þannig má segja að þráðurinn í leikhúsinu hafi ekki með öllu slitnað, en trosnað hefur hann. En hvernig standa málin? Marta Nordal leikhússtjóri og Vilhjálmur B. Bragason sögðu Akureyri.net frá.

Stærsta verkefni þessa hausts og vetrar átti að vera Skugga-Sveinn, frumsýning átti að vera i nóvember þegar 100 ár voru liðin frá fráfalli Matthíasar Jochumssonar og 185 ár frá fæðingu hans. Sóttvarnaaðgerðir, fjöldatakmarkanir og nándarreglur ollu því að fresta varð þessu verki og það er nú komið á dagskrá haustið 2021 í samvinnu LA og Þjóðleikhússins, það verður frumsýnt hér nyrðra en síðan sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Marta sagði að erfiðastar í sambandi við allt starf Leikfélagsins væru þessar ströngu sóttvarnareglur og þá ekki síst að sífellt væri verið að breyta þeim þannig að nánast engin plön um starfsemi fái staðist.

Ekki hefur þó verið eintóm eyða í leiklistarstarfinu allt haustið. Í samstarfi við Gjörningahátíð var verkið Eyja sýnt um hríð í tengslum við Hríseyjarferjuna og tókst vel og á Hælinu á Kristnesi var sett upp ákaflega áhrifamikil og hrífandi sýning, Tæring, um berklasjúkrahúsið á Kristnesi. Þar gátu 10 grímuklæddir gestir fylgst með leikendum lýsa lífi sjúklinga og starfsfólks. Hætta þurfti þeim sýningum í októberlok, en Marta sagðist vonast til að unnt yrði að taka þær upp að nýju. Þá sagði hún að Leiklistarskóli LA hefði farið af stað en þurft að hætta um sinn, en nú hefði þráðurinn verið tekinn upp þannig að skólanum verði lokið nú um helgina í Hofi og fari að öllum vonum aftur af stað eftir áramótin.

Fullorðin er þriðja fámenna verkefnið sem um ræðir og hefur verið í æfingum undanfarið. Leikendur og höfundar eru þrír, Árni Beinteinn Árnason, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason, sem lýsti því hvernig þessum ærsla- og gamanleik hefur verið ýtt fram eftir árinu, hann sé fullæfður, en nú er fyrirsjáanlegt að ómögulegt verði að frumsýna hann fyrr en í janúar. Að sögn einhverra sem hafa fengið að gjóa auga á æfingar er Fullorðin hamslaust hláturefni.

Þá er í bígerð að Jólavagninn, sem Þjóðleikhúsið hefur sent um borg og bý með söng og skemmtun komi hingað norður í desember og þá munu einhverjir úr hópi leikara og söngvara hér hoppa upp í vagninn með sunnanfólkinu.

Benedikt búálfur er fjölskyldusöngleikur og að sögn Mörtu var ætlunin að hefja æfingar á honum nú í desemberbyrjun en nú hafi því verið slegið á frest fram í janúar, meðal annars vegna fjölda leikara sem koma sumir að sunnan og frumsýning verði samkvæmt nýjustu áætlunum um miðjan mars. Þá mun Samkomuhúsið lifna við í leik og söng.

Þegar sýningum á Benedikt lýkur tekur við verkefni í samvinnu Listaháskóla Íslands, LA og Þjóðleikhússins þar sem Marta stýrir uppsetningu á nýlegu ensku leikverki sem nefnist Krufning á sjálfsmorði og er að hennar sögn verulega beitt samtímaverk, sem verður frumsýnt hér á Akureyri og síðan sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu.

Svo er að vona að þessar nýjustu áætlanir standist.