Fara í efni
Menning

400.000 kr. verður veitt úr Þorgerðarsjóði

Tónlistarskólinn á Akureyri hefur auglýst eftir umsóknum um styrk úr Þorgerðarsjóði í fyrsta skipti í liðlega áratug. Að þessu sinni verður veittur einn 400.000 króna styrkur.

„Sjóðurinn hefur í gegnum árin verið mikil lyftistöng fyrir nemendur á leið í framhaldsnám erlendis eftir að þeir ljúka námi hér við skólann. Það er tilgangur sjóðsins að aðstoða þá nemendur því dýrt er að fara utan í nám,“ segir Hjörleifur Jónsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. „Með tilkomu Listaháskólans í Reykjavík er líka hægt að sækja um styrk vegna náms þar,“ bætir hann við.

Sjóðurinn var stofnaður fyrir hálfri öld í minningu Þorgerðar S. Eiríksdóttur. Þorgerður fæddist 20. janúar 1954, lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri vorið 1971 og þótti mjög efnilegur píanóleikari. Hún var nýkomin til Lundúnaborgar til að hefja framhaldsnám þegar hún lést af slysförum 2. febrúar 1972, aðeins 18 ára að aldri. Ári síðar stofnuðu aðstandendur Þorgerðar minningarsjóð ásamt Tónlistarfélagi Akureyrar, Tónlistarskólanum og kennurum við skólann. Markmið sjóðsins er, sem fyrr segir, að styrkja efnilega nemendur sem lokið hafa burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri til framhaldsnáms.

„Sjóðurinn fór illa út úr Hruninu og við höfum ekki getað úthlutað í nokkur ár,“ segir Hjörleifur. Nú horfi hins vegar til betri vegar.

Megintekjulind sjóðsins er að jafnaði vextir af höfuðstól ásamt tekjum af styrktartónleikum sem nemendur og kennarar Tónlistarskólans halda árlega. Sjóðurinn hefur einnig tekjur af minningarframlögum en minningarkort eru seld í Tónlistarskólanum á Akureyri. 

„Minningartónleikarnir um Þorgerði eru afar glæsilegir en þar koma fram þeir nemendur sem lengst eru komnir í framhaldsnámi í klassískri tónlist við skólann. Með tónleikunum reynum við að standa vörð um klassísku deildina og segja má að þeir séu rós í hnappagat deildarinnar,“ segir Hjörleifur.

Tónleikarnir verða í Hömrum miðvikudaginn 13. mars. Aðgangur er alltaf ókeypis en hægt að styðja sjóðinn með frjálsum framlögum.

Umsóknarfrestur í Þorgerðarsjóð er til 13. febrúar og þurfa umsækjendur að greina frá námsferli og námsáformum í umsókn sinni ásamt rökstuðningi fyrir styrkveitingu. Umsóknum skal skilað í tölvupósti á tonak@tonak.is merkt Þorgerðarsjóður.