35 ár síðan Stjórnin bað um „Eitt lag enn“

Stjórnin hefur fylgt landanum nær óslitið og af miklum metnaði síðan hún kom fram á sjónarsviðið með látum árið 1990. Þá keppti hljómsveitin fyrir Íslands hönd í Eurovision í Zagreb í Júgóslavíu (já, það er svona langt síðan, í dag er Zagreb í Króatíu, og Júgóslavía er ekki til) með laginu „Eitt lag enn“ og náði glæsilegum árangri með 4. sætinu. Núna, 35 árum seinna, ætlar sveitin í afmælistúr og er væntanleg í Hof 4. október næstkomandi. Grétar Örvarsson, söngvari og hljómborðsleikari sveitarinnar, lofar góðri nostalgíuferð aftur í gullöld sveitaballanna í Sjallanum.
„Í framhaldi af Eurovision ævintýrinu fórum við að spila á böllum um allt land og mjög reglulega í Sjallanum sumrin 1990-1996,“ rifjar Grétar upp. „Við vorum með blandað ball-prógramm á þessum tíma og spiluðum mörg þekkt cover-lög, sem voru í miklu uppáhaldi hjá ballgestum. Lög eins og Fire, Crazy little thing called love og Paradise by the Dashboard Light, en það síðastnefnda var alltaf síðasta lagið á ballinu.“
„Stemningin var engu lík á þessum árum og böllin í Sjallanum voru í miklu uppáhaldi. Sveitaböllin voru auðvitað einstök, hvert á sinn hátt, en alltaf fannst okkur skemmtilegast að koma og spila á Akureyri,“ bætir Grétar við og Sigga Beinteins tekur í sama streng; „Það var eitthvað alveg sérstakt við að spila í Sjallanum, stemning var einstök og öðruvísi en annars staðar. Sjallinn á alltaf stað í mínu hjarta“ segir Sigga.
T.v. Sigga og Grétar í stíl - en Stjórnin er og verður töff hljómsveit. T.h. Ef til vill leit bandið sirka svona út á sviðinu í Sjallanum. Myndir: aðsendar
Byrjuðu Akureyrargiggin í ljósabekknum
Hljómsveitin á margar skemmtilegar minningar frá Sjallaböllunum. „Það kom fyrir að ballgestir báðu um að fá að koma upp á svið og bera upp bónorð og eins eru þær óteljandi kveðjurnar sem við lásum upp“, segir Grétar. „Þarna urðu ástarsambönd til og mörg þeirra án efa leitt til hjónabanda.“
„Það var ákveðin rútína sem við fylgdum þegar við komum norður. Við byrjuðum á að fara í ljós í Stjörnusól. Í þá daga var maður ekkert að spá í útfjólubláa geisla! Úr ljósum fórum við eldrauð inn í Sjalla í hljóðprufu og síðan á Bautann eða Greifann.“
Pylsa með öllu var punkturinn yfir i-ið
„Stundum spiluðum við á balli á öðrum stað á föstudagskvöldinu þegar við vorum á leið norður til að spila í Sjallanum á laugardagskvöldi. Þá höfðum við það fyrir reglu að keyra til Akureyrar strax um nóttina svo við gætum notið laugardagsins fyrir norðan. Það var alltaf sport að skella sér á sæþotu á Pollinum og eins voru sumarnæturnar eftir böllin ógleymanlegar. Eftir ball fórum við á Ráðhústorgið og fengum okkur pylsu með öllu, að viðbættu rauðkáli og kokteilsósu. Það þekktist ekki fyrir sunnan! Oftast gistum við á Hótel Norðurlandi, sem var við hliðina á Sjallanum,“ rifjar Grétar upp.
25 ára afmælishátíð Stjórnarinnar. Glöggir lesendur sjá kannski að fötin eru annað hvort þau sömu og á síðustu mynd, eða nauðalík. Mynd: aðsend
Hætt komin í hljómsveitarrútunni
Ein ferð er hljómsveitarmeðlimum eftirminnilegri en aðrar, en á þessum tíma ferðaðist hljómsveitin alltaf í sérstakri hljómsveitarrútu. Eftir að spila á skólaballi í Miðgarði á föstudagskvöldi, var brennt af stað yfir Öxnadalsheiðina til þess að ná að njóta laugardagsins fyrir Sjallaball á Akureyri. „Þegar rútan kom að brúnni og brekkunni innst í Norðurárdalnum var útlitið ekki gott,“ segir Grétar. „Það var snjókoma og fljúgandi hálka á veginum. Bílstjórinn ákvað að setja ekki keðjur á dekkin heldur taka sjensinn á að komast leiðar sinnar. Í miðri brekku stoppaði rútan og byrjaði að renna stjórnlaust afturábak í átt að brúnni yfir Norðurá. Sigga var „á vaktinni“ og hrópaði: ALLIR ÚT! Við rifum okkur upp og stukkum út úr rútunni á fleygiferð ... og rútan endaði utanvegar. Þarna mátti litlu muna að það yrði stórslys og við Sigga vorum sammála um að þetta yrði síðasta rútuferðin.“
Þarna var fólkið náttúrulega ekki komið í Eyjafjörðinn, þar sem við vitum að er alltaf gott veður. Grétar hlær að því og segir að í þau fáu skipti sem ekki var blíðskaparveður á Akureyri og þau hafi ætlað að rukka heimamenn um sólina, hafi ekki staðið á svari: „Þú hefðir átt vera hér í gær, brakandi blíða!“
Ætla að fylla Hamraborg af Sjallastemningu
Tónleikarnir, sem Stjórnin blæs til í Hofi 4. október næstkomandi, eru bara aðrir tónleikar þeirra í menningarhúsinu á Akureyri. „Í fyrra fengum við einstakt tækifæri til að koma fram með SinfoNord og spila valin Stjórnarlög,“ segir Grétar, en hann er bjartsýnn á að ná að fylla Hamraborg af Sjallastemningu. „Við vonumst til að sjá fullan sal af Akureyringum og nærsveitarmönnum til að taka þátt í stuðinu með okkur,“ segir hann að lokum.
Sigga og Grétar hafa verið eitt glæsilegasta „ekki-par“ Íslands í 35 ár. Það verður gaman að sjá hvort að þau verði í stíl í Hofi. Myndir: aðsendar.