Fara í efni
Menning

230 hljóðfæraleikarar á skynditónleikum

Ljósmyndir: Sverrir Páll

Það voru eins konar skynditónleikar í Hofi í gær. Reyndar var þetta landsmót C-sveita, hópar frá 13 blásarasveitum víðs vegar um landið, sem héldu mót hér á Akureyri. Mótið hafði snubbóttari enda en til stóð, hófst á föstudag en átti að ljúka með tónleikum á sunnudag. Rauðar veðurviðvaranir ollu því að ákveðið var að sleppa sunnudeginum, æfa af fullum krafti á föstudagskvöld og laugardag og slá upp konsert á laugardagskvöldið.

Þátttakendur í þessu mikla blásaramóti voru nálægt 250 og skiptust strax í þrjá flokka, einn sem átti að fást við kvikmyndatónlist, annar sem glímdi við klassík og sá þriðji sem kynnti sér djassskotna tónlist.

Tónleikarnir voru að sjálfsögðu bráðskemmtilegir og ys og þys í salnum þegar hljómsveitirnar skiptu inn á sviðið, þetta var eins og risahringekja, en gekk allt eftir áætlun.

Í fyrsta lið stýrði Karen Sturlaugsson kvikmyndatónlistarsveitinni sem var kraftmikil og fín. Bjarni Frímann Bjarnason tók svo við næstu sveit, klassísku sveitinni, sem spilaði undravel, og að lokum smellti Eiríkur Rafn Stefánsson djass/swing/fönksveitinni af stað og endaði tónleikana með stæl. Allir þrettán forystumenn þessara blásarasveita fengu að viðurkenningu mynd í ramma og að loknum tónleikum pökkuðu ungu listamennirnir niður hljóðfærum sínum, komu þeim fyrir í rútum og skelltu sér á tiltölulega stutt diskó með MC Gauta áður en blása þurfti til heimferðar til að komast á undan veðrinu.

Afar skemmtilegir tónleikar og þarna voru margir framtíðarvirtúósar. Enginn vafi á því.