Fara í efni
Menning

22 ára atvik í MA kveikti hugmynd að bók

Er nokkuð mál að vera skólastjóri? Salvar, 12 ára gamall vandræðagemlingur, kemst fljótt að því. Söguþráðurinn í Skólastjóranum byggist lauslega á atburðum úr Menntaskólanum á Akureyri árið 2003.

Rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson verður á Akureyri í vikunni til að kynna nýjustu bók sína, Skólastjórann, sem vann Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í fyrra. Bókin hefur fengið frábærar viðtökur en hugmyndin að henni byggir lauslega á sönnum atburðum sem áttu sér stað í Menntaskólanum á Akureyri fyrir 22 árum.

„Ég ætla að vera með upplestur, áritanir, gefa plaköt og bókamerki og bara svona almennt húllumhæ í Eymundsson fimmtudaginn 20. nóvember milli kl. 16.30 og 17.30. Það má í raun kalla þetta auka útgáfuboð. Mér fannst við hæfi að koma norður því hugmyndin að bókinni kviknaði á Akureyri fyrir 22 árum,“ segir Ævar þegar blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til hans til þess að forvitnast nánar um nýju bókina og ekki síst tengsl hennar við Akureyri.

Ævar Þór með grís sem tengist bókinni Skólastjórinn. Ein af reglum nýja skólastjórans, hins 12 ára Salvars, er að setja bekkjargrís í hvern bekk.  Mynd: Gunnar Freyr Steinsson

18 ára nemandi í MA vildi verða skólastjóri

Ævar staðfestir að sagan sé byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað í Menntaskólanum á Akureyri fyrir 22 árum síðan, en þá var hann sjálfur nemandi við skólann. „Ég var á þriðja ári í MA þegar Tryggvi Gíslason skólameistari var að hætta eftir rúm þrjátíu ár í starfi. Þegar starfið var auglýst tóku einhverjir eftir því að einn umsækjandinn var 18 ára strákur að nafni Salvar Þór Sigurðarson, en hann var einmitt í sama árgangi og ég. Þá ber að taka það fram að Salvar fékk á endanum ekki starfið. Jón Már Héðinsson var metinn töluvert hæfari,“ rifjar Ævar upp.

Frétt sem birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2003 um skólastjóramálið í MA.

Nemendur geta rekið kennara tvisvar á ári

Ævar segir þennan atburð frá 2003 hafa fest í minninu. „Ég man að mér fannst þetta ofboðslega fyndið og hugmyndin um að þetta gæti hugsanlega verið bók lúrði í mér í mörg ár. Svo fyrir nokkrum árum fattaði ég allt í einu að sagan þyrfti ekki endilega að gerast í menntaskóla. Hvað ef ég yngdi Salvar niður í 12 ára og léti hann fá starfið? Það er söguþráðurinn í bókinni Skólastjórinn.“

Sögupersónan Salvar, sem verður skólastjóri í eigin skóla, tekur að sér að breyta reglum og venjum skólans en allar hugmyndirnar að nýjum skólareglum Salvars eru raunverulegar hugmyndir frá nútíma grunnskólabörnum. „Ég hringdi í alla vini mína sem eiga börn á grunnskólaaldri og bað þau um að spyrja börnin sín: Hverju myndir þú breyta í þínum skóla ef þú réðir öllu?“ segir Ævar. „Það var greinilegt að krakkarnir höfðu allir miklar skoðanir á því hvað mætti betur fara í íslensku skólakerfi og allar þessar hugmyndir rötuðu í bókina. Svo var það mitt að glíma við það hverjar afleiðingarnar af þeim yrðu í sögunni. Hugmyndirnar voru af öllum toga; allt frá því að mæta ekki fyrr en klukkan tíu í skólann á morgnana yfir í aðeins drastískari hugmyndir, eins og til dæmis að nemendur megi tvisvar á ári kjósa og reka
einn kennara.“


Ævar hefur verið afkastamikill rithöfundur en Skólastjórinn er 39. bók hans. Þegar Ævar var á þriðja ári í MA gerðist þar atburður sem festi sig í minni hans og kveikti hugmyndina að hans nýjustu bók um skólastjórann Salvar.

Bókin fjallar meðal annars um vináttu, ábyrgð og erfiðar aðstæður í skólasamfélaginu. „Í bókinni kemur t.d upp stórt eineltismál og 12 ára drengurinn sem er skyndilega orðinn skólastjóri er engan veginn fær um að takast á við það,“ segir Ævar og heldur áfram; „Ef ég hefði skrifað bókina fyrir tíu árum hefði ég kannski sleppt þeim þætti og fókusað bara á stuðið, en mig langaði að reyna að takast á við alvöru málefni í þessum fáránlegu aðstæðum sem Salvar hefur komið sér í,“ segir Ævar. „Til að ögra okkur báðum – höfundinum og aðalpersónunni.“
 

Sterk viðbrögð við bókinni

Skólastjórinn er 39. bók Ævars, og hann segir að hann hafi aldrei fengið jafn mikil og sterk viðbrögð úr ólíkum áttum við neinni bók sem hann hafi skrifað. „Ég hef aldrei fengið þvílíkar móttökur. Það eru bæði börn og fullorðnir sem eru hreinlega stökkvandi á mig úti í búð til að segja hvað þau eru ánægð með bókina. Það er eitthvað óskaplega fallegt við það að margar kynslóðir innan veggja sama heimilis séu að tengja við söguna. Þá verður til tækifæri til samtals um bækur milli foreldra og barna, sem gerist ekkert alltaf,“ segir Ævar og bætir við að bókin nái til breiðs hóps eða eins og hann segir aftan á bókarkápunni að hún sé fyrir alla þá sem hafa nokkurn tímann verið í skóla.

Ævar Þór mun heimsækja nokkra skóla í heimsókn sinni til Akureyrar og verður meðal árshátíð Menntaskólans þar sem hann er heiðursgestur þetta árið. Annars vonast hann til þess að sjá sem flesta aðdáendur sína í Eymundsson fimmtudaginn 20. nóvember. „Ég er svo spenntur að fleiri fái að kynnast Salvari og öllu sem gerist í Skólastjóranum,“ segir hann að lokum. Gaman er að geta þess að Ævar verður aftur á Akureyri í janúar en þá á ferð með einleikinn Kapteinn Frábær sem sýndur verður í Samkomuhúsinu. Meira um það á Akureyri.net síðar.

Skólastjórinn vann Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í fyrra. Elín Elísabet Einarsdóttir myndlýsti bókina.