Fara í efni
Mannlíf

Zontakonur sendu bylgju friðar í austur

Þingfulltrúar enduðu daginn í gær á því að bregða sér út fyrir Hof, takast í hendur og senda bylgju friðar út í heiminn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Zontakonur frá Íslandi, Danmörku, Noregi og Litháen þinga um helgina í Hofi. Aðalþemað er Konur og sjálfbær framtíð og fjallað um það út frá loftslagsbreytingum í gær og svo áfram meira um félagslegan hluta loftslagsbreytinga í dag.

Þingfulltrúar enduðu daginn í gær á því að bregða sér út fyrir Hof, takast í hendur og senda bylgju friðar út í heiminn. Við ákváðum að taka höndum saman við Hof og senda bylgju friðar út í heiminn,” segir Sigríður Sía Jónsdóttir frá Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu. Við snérum okkur sérstaklega í austur, okkur þykir mjög mikil ástæða til þess. Eitt af því sem Zontasamtökin standa fyrir er að segja nei við öllu ofbeldi og þar af leiðandi segjum við nei við stríði og átökum líka. Þannig að við viljum auðvitað vinna gegn því, segir Sigríður Sía.

Sigríður Sía Jónsdóttir, til vinstri, frá Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu og Auður H. Ingólfsdóttir, sem er í Zontaklúbbi Akureyrar.

Zontasamtökin eru alþjóðleg hreyfing sem sem á sér rætur í Chicago í Bandaríkjunum og nær sagan aftur til 1919. Grunnhugmyndin er alltaf að vinna að því að styrkja stöðu og bæta líf kvenna. Við erum ennþá að vinna að því út um allan heim,segir Sigríður Sía.

Í gær hófst í Hofi umdæmisþing fyrir umdæmi 13, en því umdæmi tilheyra Ísland, Danmörk, Noregur og Litháen. Umdæmisþingin eru haldin annað hvert ár og svo alheimsþing þess á milli.

Konur og sjálfbær framtíð

Auður H. Ingólfsdóttir er í Zontaklúbbi Akureyrar, en hún var einnig á þinginu í gær sem fyrirlesari. Hún segir þingið annars vegar snúast almennt um starfsemina, hvert eigi að stefna, en hins vegar er einnig unnið út frá ákveðnu þema hverju sinni. Heildarþema þingsins var Konur og sjálfbær framtíð, sjálfbærnihugtakið. Undir því í dag vorum við að tala sérstaklega um loftslagsbreytingar og hvernig þau mál tengjast kynjajafnrétti,” segir Auður. Hún var ein þriggja kvenna sem fluttu fyrirlestra um þetta málefni.

Auður rifjar upp að á umdæmisþingi fyrir 12 árum hafi hún einnig verið fengin til að tala um þetta sama málefni. Þá var þetta málefni rétt að byrja, en nú er þetta orðið mun miðlægara stef í umræðum um loftslagsbreytingar, að við verðum að horfa á jafnréttismálin sem hluta af því. Af því að það loftslagsbreytingar geta haft ólík áhrif á konur og karla, ekki síst í þróunarlöndum. Við höfum ólík áhrif á hversu mikið við mengum. Það eru alls konar svona fletir sem tengja þessi málefni saman.”

Hugað að framtíð Zontasamtakanna

Umdæmisþing og alheimsþing hafa auðvitað ákveðinn tilgang, fyrir utan það að hittast, styrkja tengslanetið og styðja og styrkja konur. Við erum að leggja okkar á vogarskálina um framtíð Zontasamtakanna, hvert á að stefna. Við vorum einmitt að koma frá því að ræða framtíðarstefnu Zonta,segir Sigríður Sía.

Sigríður Sía Jónsdóttir: Búið að vera sérstakt átak hjá alþjóðasamtökunum um að fjölga klúbbum og fjölga fólki í klúbbunum. 

Þriðja vaktin hefur áhrif á starfsemi Zonta því hún lendir enn sem komið meira á konum en körlum, það er að sinna heimilinu og fjölskyldunni til viðbótar við að stunda fulla vinnu. Það er því ekki algengt að mjög ungar konur starfi í Zontaklúbbum, frekar að þær gangi í klúbbana þegar börnin vaxa úr grasi.

Það er ákveðið jafnvægi,segir Sigríður Sía, spurð um endurnýjun klúbbanna og hvernig gangi að fá inn nýtt fólk. En núna er búið að gera sérstakt átak hjá alþjóðasamtökunum um að fjölga klúbbum og fjölga fólki í klúbbunum. Það eru komnir klúbbar sem eru bara rafrænir og það er verið að leita leiða. Það er auðvitað alltaf togstreita um tíma fólks og við förum ekki varhluta af því,segir Sigríður Sía.

Hjá svona félagasamtökum sem byggja á tengslanetum þarf alltaf að vera meðvitund um að vera líka með opinn faðm, svo þeir sem eru fyrir utan sjái þetta ekki bara sem lokaðan vinkvennaklúbb og hugsi: Það er ekkert pláss fyrir mig. Maður þarf bara alltaf að vera að opna faðminn og minna á sig,” segir Auður.

„Hjá svona félagasamtökum sem byggja á tengslanetum þarf alltaf að vera meðvitund um að vera líka með opinn faðm, svo þeir sem eru fyrir utan sjái þetta ekki bara sem lokaðan vinkvennaklúbb og hugsi: Það er ekkert pláss fyrir mig,” segir Auður H. Ingólfsdóttir, sem er lengst til vinstri á myndinni.

Tveir af sex klúbbum landsins á Akureyri

Sex Zontaklúbbar eru starfandi hér á landi, þrír á höfuðborgarsvæðinu, einn sem teygir sig yfir Borgarfjörð og Akranes og svo tveir á Akureyri. Á sínum tíma voru ákveðnar reglur um hámarksfjölda sem mátti vera í Zontaklúbbi og er það ástæða þess að hér eru tveir klúbbar. Þegar konurnar í Zontaklúbbi Akureyrar voru orðnar ákveðið margar gripu þær til þess ráðs að stofna Zontaklúbbinn Þórunni hyrnu og nú starfa báðir þessir klúbbar.

Zontaklúbbur Akureyrar tók Nonnahús á sínum tíma í fóstur, en klúbburinn afhenti Akureyrarbæ húsið að gjöf í desember 2007. Klúbburinn á hins vegar húsið sem stendur framan við Nonnahús og Nonni sjálfur, eða stytta Jóns Sveinssonar, stendur þar framan við og passar upp á húsin.

Þekktar fyrir laufabrauðið

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna á hins vegar ekki fastan samastað og ýmsir staðir notaðir til fundahalda. Stundum fá þær húsið lánað hjá hinum klúbbnum, stundum eru þær á veitingastöðum eða í heimahúsum, stundum í sölum hjá Rotary eða Lions.

Eflaust kannast margir Akureyringar við laufabrauðin frá Þórunni hyrnu, en klúbburinn er líklega stærsti seljandi laufabrauða fyrir utan stóru bakaríin og fyrirtækin. Sala laufabrauða er nefnilega stærsta fjáröflunarverkefni klúbbsins á hverju ári og eru þau svo vinsæl að þær ná aldrei að anna eftirspurn. Þriðjungur afrakstursins fer til alþjóðasamtakanna, en tveir þriðju fara í verkefni sem klúbburinn sinnir hér heima.