Fara í efni
Mannlíf

Ytri-Tjarnir: Glæst hús og í góðri hirðu

Arnór Bliki Hallmundsson heldur áfram för sinni um nágrannasveitir Akureyrar í þættinum Hús dagsins á frábæru bloggi sínu og pistlarnir birtast einnig hér á Akureyri.net. Að þessu sinni liggur leið pistlahöfundar að Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit. Bærinn stendur í hlíðum Staðarbyggðarfjalls, nánar tiltekið Öngulsstaðaaxlar í aflíðandi og ávalri hlíð, sem rís upp af Staðarbyggðarmýrum, eins og Arnór Bliki orðar það.

„Stendur bærinn rétt neðan Eyjafjarðarbrautar eystri, rúmum kílómetra norðan vegamótanna við Miðbraut, sem tengir saman Eyjafjarðarbrautirnar eystri og vestri milli Laugalands og Hrafnagils,“ skrifar Arnór Bliki. „Frá Ytri-Tjörnum eru rúmir 13 kílómetrar í miðbæ Akureyrar. Á Ytri-Tjörnum stendur einkar reisulegt steinhús í nýklassískum stíl, með kvisti sem skartar áletruninni 1927, sem vísar til byggingarársins. Það virðist hafa verið lenska á árunum kringum 1930, að marka kvisti húsa með byggingarárinu (í einhverjum tilfellum hefur áletrunin verið gerð eftir á). Húsið minnir óneitanlega á hús við göturnar Eyrarlandsveg, Brekkugötu og Oddeyrargötu á Akureyri en í Eyjafjarðarsveit, nánar tiltekið á Hvassafelli má finna hús ámóta gerðar.“

Pistill Arnórs Blika: Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið