Fara í efni
Mannlíf

Ýmiss konar hryllingur og hrekkir á hrekkjavöku

Hrekkjavökunni verður fagnað á Akureyri með ýmsum viðburðum. Mynd: Unsplash/Szabó János

Hátt í 100 heimili á Akureyri ætla að taka á móti börnum í „grikk eða gott“ á hrekkjavökunni á föstudag. Enn er ekki of seint að skrá sig til leiks.

Síðan 2022 hafa áhugasamir foreldrar um hrekkjavökuna haldið úti Facebookhópnum Hrekkjavaka á Akureyri og tekið þar saman lista yfir þau heimili í bænum sem krakkar í hrekkjavökubúningum geta heimsótt þann 31. október. Heimili sem vilja taka á móti börnum í „grikk eða gott“ milli kl. 17 og 20 þennan dag eru hvött til þess að skrá sig á listann. Nú þegar hafa nærri 100 heimili skráð sig til leiks, flest staðsett í Nausta-, Haga-, Holta- og Hlíðahverfi.

  • HVAÐ ER HREKKJAVAKA?
    Trick or treat, segja börn í Bandaríkjunum þegar þau banka uppá hjá fólki: Grikk eða gott.
    Börn klæða sig upp i búninga eins og á öskudagurinn, og banka upp á í heimahúsum, en þurfa ekki að syngja til þess að fá nammi. Í Bandaríkjunum er hefðin sú að ef börnin fái ekki nammi þá gera þau fólki grikk, henda eggjum í húsið eða kasta klósettpappír í garðinn, svo dæmi séu tekin.
    _ _ _ _ _ 

Hrekkjavökuganga í Kjarnaskógi

Fleiri hrekkjavökutengdir viðburðir verða í boði í bænum þessa vikuna. Á fimmtudagskvöldið 30. október milli klukkan 19 og 22 verður hægt að föndra hrekkjavökuskraut úr gömlum bókum og horfa á klassísku 80's ræmuna Gremlins, á Amtsbókasafninu. Þar er einnig í gangi skiptimarkaður þessa vikuna á hrekkjavökutengdum búningum og skrauti.

Í tilefni af hrekkjavöku verður Ferðafélag Akureyrar með hrekkjavökuviðburð í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga. Ákveðnum göngustíg í Kjarnaskógi verður breytt í hrekkjavökustíg laugardaginn 1. nóvember. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í búningi en gönguslóðin verður opin í eina klukkustund, milli kl. 17:30 og 18:30. Frjáls mæting er innan þessa klukkutíma og hver og einn gengur á sínum hraða. Gestir eru hvattir til þess að klæða sig vel og koma með vasaljós.

Dæmi um hrekkjavökuskreytingu á heimili á Akureyri. Mynd: Facebooksíðan Hrekkjavaka  á Akureyri.

Leikrænn miðilsfundur án miðils

Þá verður fornbókaverslunin Svartar bækur með dularfullan atburð í boði á föstudagskvöldið, svokallaðan leikrænan miðilsfund þar sem gestir fara í ferð inn í leyndardóma hugans. Ólíkt hefðbundnum miðilsfundum verður engin miðill á staðnum og engir andar kallaðir fram heldur verða gestir að sig á eigið innsæi. Viðburðurinn gerist í fornbókabúðinni þar sem gestir umkringja sig sögum og leyndarmálum og línan á milli leikhúss, sálfræði og hins yfirnáttúrulega þokast til, án þess að gestir yfirgefi heim lifenda. Takmarkað pláss.

Þá verður Hrekkjavöku skautadiskó með hryllingshúsi í Skautahöllinni föstudagskvöldið 7. nóvember milli klukkan 19 og 21. Fólk er hvatt til að mæta í búning á ísinn.  

Frá hryllingshúsinu í Skautahöllinni í fyrra. Mynd: facebook.com/listskautadeild SA