Fara í efni
Mannlíf

Woo meiddur og verður ekki meira með Þór

Je-wook Woo fagnar jöfnunarmarki sínu undir lok leiksins við Grindavík á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Suður-kóreski framherjinn Je-wook Woo spilar ekki meira með Þórsliðinu í knattspyrnu í sumar. Hann er farinn til síns heima; er meiddur og auk þess að verða faðir. Þetta kemur fram á fótbolta.net í dag.

„Hann meiddist í mars á rifbeinum og þau meiðsli hafa verið að koma og fara, erfitt að eiga við þau meiðsli. Hann er síðan að verða pabbi og kærasta hans er úti í Kóreu. Við komumst að samkomulagi, stjórnin og hann, að hann myndi fara heim. Hann er búinn að spila sinn síðasta leik fyrir okkur og er meiddur eins og staðan er núna,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, í frétt fotbolta.net.

Ætla að bæta við sóknarmanni

Þorlákur er spurður hvort Þórsarar ætli að bæta sóknarmanni við leikmannahópinn í ljósi þess að Woo sé farinn.

„Já, við vorum í rauninni búnir að ákveða það. Við misstum Fannar [Malmquist] með slitið krossband í fyrsta leik og ef við spólum til baka missti Þór þá Alvaro, Jóhann Helga, Sölva Sverrisson og Jakob Snæ síðasta sumar og í haust. Þetta eru margir sóknarmenn á einu bretti.“

Þór er með fimm stig eftir sex leiki en þjálfarinn segir þó mikilvægt að fara í gegnum erfiðleikana með þann hóp leikmanna sem er hjá félaginu, að viðbættum einum sóknarmanni, því verið sé að byggja upp nýtt lið og félagið vilji treysta á eigin leikmenn.

Nánar hér á fotbolti.net