Fara í efni
Mannlíf

Von á jólasveinum úr Dimmuborgum

Jólasveinar ku gera víðreist þessa dagana. Til dæmis er von á þeim í heimsókn á Minjasafnið á Akureyri á morgun, laugardag.

„Jólin í Innbænum vekja verðskuldaða athygli þessa dagana. Hróður safnsins berst víða jafnvel til fjalla. Heyrst hefur að jólasveinarnir úr Dimmuborgum í Mývatnssveit ætli einhverjir að líta við á Minjasafninu á laugardaginn bæði til að líta á sýningarnar og syngja,“ segir á vef Minjasafnsins.

„Nonnahús hefur verið fært í jólabúning og mun Þórgunnur Þórsdóttir, safnkennari, leiða fjölskyldustund í Nonnahúsi. Þangað hafa streymt börn síðustu vikurnar úr leik- og grunnskólum. Kannski að þau vilji líta í heimsókn með foreldra sína? Á Minjasafninu eru nokkrir óþekktir jólasveinar og jólafjallið sem hægt er að gæjast inn í og skoða heimili Grýlu og Leppalúða og barnanna þeirra fjölmörgu.“

Aðalsýning safnsins er Tónlistarbærinn Akureyri og þar mun Eik Haraldsdóttir leiða söngstund á morgun áður en jólasveinarnir birtast. Fjölskyldustundin í Nonnahúsi hefst klukkan 13, söngstundin kl. 13:45 og jólasveinarnir líta við í kjölfarið. Ekkert kostar inn á viðburðina sem Uppbyggingarsjóður SSNE styrkir, að því er fram kemur í tilkynningu.

Jólasýningin í Nonnahúsi og á Minjasafninu eru opnar daglega frá klukkan 13 til 16 en lokað 24. og 25. desember. Ókeypis er fyrir fullorðna í fylgd með börnum! Annars er miðinn á 1000 krónur og gildir út árið. Árskortið gildir að sjálfsögðu.