Viltu semja tónverk við ljóðabálk Stefáns?
Sjöundi og síðasti pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar í röðinni Lausnin 7x7 birtist í gær á akureyri.net. Pistlarnir, sem komu fyrir sjónir lesenda sjö daga í röð, vöktu mikla athygli og kom ekki á óvart; hér er um að ræða mikinn og magnaðan ljóðabálk um vanlíðan fólks, fíkn og lausnir – sjö erindi voru í hverjum pistli ásamt vangaveltum höfundar.
Vert er að vekja athygli á orðum Stefáns Þór í lok síðasta pistilsins þar sem fram kemur að hann hafi hugsað sér ljóðabálkinn sem texta við tónverk í stíl við þungt og þróað rokk, „heila concept-plötu með áhrifum frá gömlu Genesis, Pink Floyd og jafnvel út í Uriah Heep og Deep Purple,“ eins og hann orðar það.
Stefán bætir svo við: „Þar sem ég spila ekki á hljóðfæri hef ég aðeins samið þetta tónverk í huganum en ef einhver tónlistarmaður skyldi hafa áhuga á að ljá mér lið eða leika sér með textana þá er ég til í slaginn. “
Stefán Þór, sem er framhaldsskólakennari og rithöfundur, hefur skrifað fjölda pistla fyrir akureyri.net síðustu misseri. Með því að smella á nafn hans má sjá alla pistlana: