Fara í efni
Mannlíf

Vilja meiri náttúru, sull og tímabundin leiktæki

Karen Lind, höfundur skýrslu um leikskólalóðir á norðurslóðum, hefur undanfarið verið að teikna grenndarleikvelli, deiliskipulag og á næstunni tekur við garðahönnun. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Meiri náttúra, sull og tímabundin leiktæki er það sem leikskólakennarar á Norðurlandi óska helst eftir á leikskólalóðir sínar. Það er meðal annars niðurstaða verkefnis sem Karen Lind Árnadóttir vann í samstarfi við Teiknistofu Norðurlands. Verkefnið, sem ber heitið Leikskólalóðir á norðurslóðum, var eitt af sex sem tilnefnd voru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands nýverið.

„Markmið verkefnisins var að rýna í hönnun leikskólalóða á Norðurlandi og skoða hvaða hönnunarþættir eru mikilvægir fyrir skólastarfið. Leikskólalóðirnar skipta miklu máli í skólastarfi leikskólabarna og oft, sértaklega á veturna, er tíminn sem börnin eyða á leikskólalóðinni eini tíminn sem þau eru úti. Það er því mikilvægt að aðstaðan á lóðinni sé góð því þar efla börnin hreyfi- og félagsþroska,“ segir Karen Lind sem útskrifaðist úr grunnnámi í landslagsarkitektúr frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2022.

Góð hönnun eykur ánægju barnanna

Karen Lind skoðaði 14 ólíkar leikskólalóðir á Norðurlandi í tengslum við verkefnið og ræddi við um 30 leikskólastarfsmenn um nýtingu lóðarinnar á þeirra leikskóla, hvaða leiktæki væru vinsælust, hvað væri að virka og hvað ekki. „Afurð verkefnisins er verkfærakista sem nýtist landslagsarkitektum við hönnun leikskólalóða og sem kennsluefni fyrir nema í landslagsarkitektúr,“segir Karen Lind og bendir á að lítið sé til af rannsóknum á viðfangsefninu miðað við íslenskt umhverfi frá sjónarhorni landslagsarkitekta. „Hönnun leikskólalóða skiptir miklu máli, bæði upp á slysahættu, ánægju barnanna sem og gott starfsumhverfi fyrir starfsfólkið.“

„Þegar verið er að breyta eða endurhanna eldri lóðir þá tel ég mikilvægt að leitað sé til leikskólastarfsfólks þegar verið er að ákveða staðsetningu leiktækja því þau vita hvar mesta snjósöfnunin er og hvar mesta skjólið er að finna,“ segir Karen Lind.

Nauðsynlegt að huga að snjóalögum

Aðspurð hvað þurfi sérstaklega að hafa í huga við hönnun leikskólalóða á norðlægum slóðum nefnir hún nýtingarmöguleika lóðanna að vetrarlagi. „Sumar leikskólalóðir fyllast af snjó og öll leiktæki geta farið á kaf. Til dæmis getur verið ókostur að hafa rennibraut í hól á norðlægum leikskólum, þó jákvæða hliðin við slíkar rennibrautir sé vissulega hversu lítil fallhætta úr þeim, en slíkar rennibrautir fara yfirleitt á kaf á veturna og nýtast þá börnunum ekkert. Krökkunum finnst gaman að renna sér niður hóla og brekkur en oftast minnka brekkurnar á veturna þar sem snjórinn safnast saman fyrir neðan þær en ekki eins mikið á toppnum, svo það er að ýmsu svona að huga.“ Segir hún staðsetningu leiktækja út frá snjóalögum skipta miklu máli en á mörgum lóðanna hafi ekkert verið spáð í slíku sem kemur niður á notkunarmöguleikum. Þá bendir hún á að sumar leikskólalóðir geti hreinlega orðið hættulegar þegar þær breytast með tilkomu snjós og hálku og nefnir dæmi úr skýrslunni um að ljósastaurar og leiktæki við hól og brekku geta verið mjög varasöm og á nokkrum leiksvæðum þarf að hylja staura og tæki með svampi á veturna vegna hættu á að börnin renni á þau þegar mikill snjór er á lóðinni. „Þegar verið er að breyta eða endurhanna eldri lóðir þá tel ég mikilvægt að leitað sé til leikskólastarfsfólks þegar verið er að ákveða staðsetningu leiktækja því þau vita hvar mesta snjósöfnunin er og hvar mesta skjólið er að finna,“ segir Karen Lind.

Börnin órólegri þegar þau komast ekki út

Þó leikskólalóðirnar sem Karen Lind skoðaði hafi verið mjög ólíkar var þar þó ýmislegt sammerkt. Til dæmis voru rólur, sandkassi og kastalar vinsælustu leiktækin á þeim flestum. „Þá voru viðmælendur allir sammála um mikilvægi þess að börnin kæmust út alla daga ársins. Þá daga sem börnin fara ekki út eru þau órólegri og hávaðasamari svo það skiptir miklu máli að lóðin nýtist vel allt árið ,“ segir Karen Lind og heldur áfram: „Áberandi var að flest allir viðmælendur vildu meiri náttúru inn á drauma leikskólalóðina sína. Nefndu þeir óskir um náttúrulegri leiktæki, vatn- og drullusvæði, að börnin hefðu leyfi til að smíða sjálf, tímabundin leiktæki og meira frelsi þegar kemur að leiktækjasköpun.“

Karen Lind þegar hún tók á móti viðurkenningu fyrir verkefnið sitt á Bessastöðum, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Arnar Birgir Ólafsson en hann og Anna Kristín Guðmundsdóttir, bæði landslagsarkitektar FÍLA, voru leiðbeinendur Karenar Lindar í verkefninu.

Þakklát fyrir Nýsköpunarsjóð

Tilnefningin verkefnisins til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands hefur sannarlega vakið athygli á því, en þó verkefnið hafi ekki hlotið nýsköpunarverðlaunin – verkefnið Vélræn endurhæfing í heimahúsi með sýndarveruleika hlaut verðlaunin í ár – er Karen Lind afar sátt með útkomuna en hún hlaut viðurkenninguna fyrir afburða úrlausn og vinnu við verkefnið. Hvað varðar framhaldið segir Karen að hún hafi mikinn áhuga á faginu og íhugi frekari nám í landslags arkitektúr. Næst á dagskrá sé þó að kynna skýrsluna fyrir nemum í landslagsarkitektúr við LBHÍ. „Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir þetta tækifæri sem Nýsköpunarsjóður námsmanna og Teiknistofa Norðurlands veitti mér en það var Teiknistofa Norðurlands sem sótti um styrk fyrir verkefninu og réð mig til að sjá um það. Þetta opnar auðvitað tækifæri bæði fyrir námsmenn að komast inn í sinn geira sem og fyrirtæki til þess að þróa verkefni og auka þannig við þekkingu. Ég hvet öll fyrirtæki og stofnanir til að sækja um styrk í sjóð Nýsköpunarsjóðs námsmanna og ráða til sín nemendur. Eins hvet ég alla nemendur til að sækja um að vinna slík verkefni.“