Fara í efni
Mannlíf

Viðamikið safn með alþýðuhandverki

Faldbúningur Jennýar er á sýningunni á Safnasafninu. Jenný saumaði búninginn með leiðsögn Oddnýjar Kristjánsdóttur hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og er munstrið fengið þaðan. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Jenný Karlsdóttir afhenti Safnasafninu á Svalbarðsströnd ævistarf sitt formlega í gær, safn með alls 2500 textílverkum. Við sama tækifæri var Jennýjarstofa opnuð í Safnasafninu en þar verða munir úr safni Jennýjar til sýnis.

„Þetta er eins og að sjötta barnið mitt sé að að hleypa heimdraganum. Ég er mjög ánægð með að Safnasafnið, sem er stórkostlegt safn, falaðist eftir þessu hjá mér,“ segir Jenný í viðtali við Akureyri.net. Hún hefur safnað handverki og munstrum alla sína tíð og lagt áherslu á alþýðuhandverk frá síðustu öld, muni sem fólk notaði til nytja og prýði á sínum heimilum.

Jenný Karlsdóttir á Safnasafninu á Svalbarðsströnd í gær. 

Bláókunnugir komið til hennar gersemum

„Mikið af þessu var unnið í húsmæðraskólum landsins. Ég hef aðallega keypt þessa muni á nytjamörkuðum. Ég fór til að mynda mikið í Kolaportið hér áður fyrr og Rauði Krossinn hefur verið mjög gjöfull. Svo hefur fólk verið að koma með allskonar handverk til mín í gegnum tíðina, oft bráðókunnugt fólk, fólk sem er að minnka við sig og veit ekki hvað það á að gera við ýmislegt sem er því mikils virði en veit að því verður bara hent þegar það fellur frá,“ segir Jenný og heldur áfram: „Ég hef alla tíð lagt mikla vinnu í að láta þetta handverk líta vel út. Ég hef þvegið heilmikið og straujað heil ósköp. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ungt fólk fái áhuga á mórauðri tusku sem er þó kannski dýrgripur hvað snertir handverk. Því hef ég lagt mig fram við að ganga fallega frá þessu, hvað svo sem forverðir segja um það.“

Með því að færa Safnasafninu textílsafn sitt að gjöf segir Jenný að hún sé hætt að safna hannyrðum. Jenný hefur auk þess um árabil safnað munstrum og gefið út í handhægum heftum undir heitinu Munstur og menning. Tilgangurinn með útgáfunni hefur verið að gefa fólki kost á að sækja sér á aðgengilegan og ódýran hátt hugmyndir til nýsköpunar í handverki. Þessi munstur eiga líka að fara á Safnasafnið og þar koma þau til með að verða aðgengileg í framtíðinni.

Jennýju eru margt til lista lagt. Hún hefur m.a fengist við jurtalitun á útsaumsgarni. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Stærsta skráða textílsafn landsins

Jenný, sem verður 84 ára í ár, ólst upp við handverk og listir á Akureyri og hefur í gegnum tíðina sinnt fjölbreyttu handverki samhliða heimilis- og kennslustörfum. Hún segist í upphafi alls ekki hafa séð fyrir sér að safn hennar yrði svona stórt. „Bryndís Símonardóttir vinkona mín skrásetti safnið samkvæmt leiðbeiningum frá Minjasafninu á Akureyri og ég myndaði alla munina. Ég er Bryndísi mjög þakklát fyrir hennar óeigingjarna starf og það var líka hún sem átti hugmyndina að skráningunni og þannig varð þetta að formlegu safni. Það er góð tilfinning að geta afhent safnið þannig.“

Þó taugarnar til Akureyrar séu sterkar segir Jenný að það hafi aldrei komið til greina að bjóða Akureyrarbæ safnið til eignar enda segir hún að bærinn eigi fullt í fangi með þau söfn sem hann á nú þegar. Segist hún telja að safn hennar hafi ekki getað lent á betri stað en á Safnasafninu. „Það er yndislegt að það skuli vera til svona söfn eins og Safnasafnið sem getur hugsað sér að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að halda þessu gamla handverki og verkþekkingu á lofti. Það hefur alltaf verið draumur minn að einhverjir munir úr safninu mínu yrðu aðgengilegir þannig að fólk fengi að koma við þá og skoða, ekki bara með hvítum hönskum. Ég vona að það þróist þannig í Safnasafninu.“ Bryndís Símonardóttir er einnig búin að skrá textílmuni Magnhildar Sigurðardóttur, sem á og rekur Safnasafnið með manni sínum Níelsi Hafstein, og munu þessi tvö söfn samanlagt verða eitt stærsta skráða textílsafn landsins.

Jenný og Bryndís Símonardóttir í Jennýarstofu í Safnasafninu í gær. Bryndís skrásetti safn Jennýar samkvæmt leiðbeiningum frá Minjasafninu á Akureyri.

Menningararfur sem kom þjóðinni gegnum harðindi

Talið berst að áhuga fólks almennt á handverki í dag og segir Jenný að sú vakning sem orðið hefur í sambandi við prjónaskap og annað margskonar handverk sé mjög gleðileg. Nefnir hún sem dæmi að í mörg ár hafi hópur fólks hist á Laugalandi í Eyjafirði einu sinni í mánuði til að sinna þjóðbúningasaumi með leiðsögn kennara frá Heimilisiðnarfélagi Íslands.

„Ég hef ekki trú á því að áhugi fólks á handverki verði endurvakinn í sömu mynd og hann var en vonandi þróast handverkið samt sem áður með okkur eins og annað,“ segir Jenný. „Við megum ekki gleyma rótunum og hvaðan verkmenningin kemur. Formæður okkar höfðu þá verkþekkingu sem gerði þeim kleift að koma ull í fat og mjólk í mat, eins og sagt er. Það er sá menningararfur sem fleytti þjóðinni áfram í gegnum harðindi, hungur og drepsóttir. Þess vegna finnst mér að Íslendingar ættu að gera handverki og verkþekkingu hærra undir höfði en hefur verið gert. Mér finnst virkilega gaman að fá tækifæri til að taka þátt í að koma þessum hluta sögu okkar á framfæri, þessum hluta sem konur hafa skapað og lofa honum að skína til að vera metinn að verðleikum.“

Hvað framhaldið varðar þá er ýmislegt á döfinni hjá Jennýju. Hún er t.d. enn að vinna við rannsóknarverkefni í samvinnu við Oddnýju E. Magnúsdóttur um altarisdúka í kirkjum landsins. Lesa má nánar um það inn á heimasíðunni munstur.is sem Jenný heldur úti. „Ég er langt frá því að vera sest í helgan stein enda hef ég ekki fundið hann ennþá,“ segir Jenný sposk á svip.

Jenný Karlsdóttir og Níels Hafstein sem á og rekur Safnasafnið ásamt eiginkonu sinni, Magnhildi Sigurðardóttur. 

Fjölbreytt sumarsýning

Þess má að lokum geta að á sumarsýningu Safnasafnsins, má auk verka úr safni Jennýjar, sjá verk eftir eftirtalda listamenn; Aðalheiði Eysteinsdóttur, Önnu Hallin, B Sóleyju Pétursdóttur, Brynhildi Þorgeirsdóttur, Eggert Magnússon, Guðjón R. Sigurðsson frá Fagurhólsmýri, Guðmund Ármann, Hauk Halldórsson, Helga Valdimarsson, Helga Thorsson, Hildi Maríu Hansdóttur, Hjálmar Stefánsson frá Smyrlabergi, Hjalta Skagfjörð Jósefsson, Huglist, Klemens Hannigan, Nonna Ragnars, Olgu Bergman, Pálma Kristins Arngrímsson , Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi, Sísí Ingólfsdóttur, Stefán Tryggva Og Sigríðarson og börn úr Valsárskóla á Svalbarðsströnd og börn í Leikskólanum Álfaborg. Sýningin stendur fram til 10. september.

Jenný við faldbúninginn sem er á sýningunni í Safnasafninu. Hún saumaði búninginn með leiðsögn Oddnýjar Kristjánsdóttur hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og er munstrið fengið þaðan. Búningurinn er úr svörtu ullarefni, upphlutur, pils og treyja. Jenný jurtalitaði garnið og saumaði út í pilsið með kambgarni frá verksmiðjunni Gefjunni á Akureyri. Boðungar treyjunnar eru með perlulögðum flauelsskurði og knipplingum, þeir eru líka á ermum og orkeruð blúnda eftir Bergdísi Brynjarsdóttur, dótturdóttur höfundar, er framan á ermunum. Stokkabeltið fékk Jenný í fermingargjöf en það er eftir Ásgrím Albertsson gullsmið sem starfaði á Akureyri um og upp úr 1950. Ermahnappa, hálsmen og nælur í höfuðbúnað og hálsklút smíðaði Jenný með aðstoð Júlíu Þrastardóttur gullsmiðs sem bjó til tvo stokka í viðbót við beltið. Búningnum fylgir hvít handlína með svartsaumi. Verkið tók nokkur ár og lauk 2015.