Fara í efni
Mannlíf

Verslunin Partýland opnuð á netinu

Velkomin til Partýlands! Dídí Jónasdóttir og María Kristín Davíðsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Verslunin Partýland hefur verið opnuð á netinu og stefnt er að því að opna verslun á Akureyri sem fyrst. Það eru María Kristín Davíðsdóttir, Dídí Jónasdóttir, Davíð Rúnar Gunnarsson og Halldór Kristinn Harðarson sem eiga Partýland og selja „allt sem þarf í veisluna,“ eins og Dídí orðar það.

Hugmyndin að Partýlandi hefur lengi blundað í hópnum en Dídi gerði fyrst viðskiptaáætlun árið 2019 þegar hún var á skólabekk, í sölu-, rekstar- og markaðsnámi. Það var einmitt lokaverkefnið hennar en þegar Covid faraldurinn skall á var hugmyndin sett í geymslu. Undirbúningur hófst svo á ný þegar aftur tók að birta.

„Það hefur lengi staðið til að bæta þessu við Viðburðastofu Norðurlands sem nú þegar leigir út tæki og tól til veisluhalda og sér um skipulagningu á viðburðum af öllum stærðum og gerðum,“ segir Davíð, en Viðburðastofan er í eigu þeirra hjóna, hans og Dídíar.

Slóðin á heimasíðu Partýlands er https://www.partylandid.is/ og „það hefur verið brjálað að gera síðustu daga við sölu á áramótaskrauti. Vörur sem pantaðar eru fyrir klukkan 16.00 eru keyrðar út samdægurs,“ segir Dídí. Hún bætir við að á gamlársdag verði opið á skrifstofu Partýlands þar sem blásið verði í helíumblöðrur fyrir fólk. Partýland er til húsa á annarri hæð í Glerárgötu 24 – þar sem VÍS er á jarðhæðinni.

Allt sem þarf

Dídí segir Partýland verslun sem bjóði upp á „allt sem þarf í veislu, allt frá blöðrum og skrauti yfir í hoppukastala og hljóðkerfi. Þegar fólk mætir í Partýland á það að geta sett upp veisluna í einni heimsókn; við munum bjóða upp á allskonar skraut, fyrir ferminguna, afmælið, brúðkaupið, halloween partýið, kynjaveisluna og svo framvegis. Einnig munum við geta boðið upp á veislusali, og skreytt salinn fyrir viðkomandi og útvegað plötusnúða, trúbadora og tónlistarfólk ef fólk vill,“ segir Dídí og María Kristín botnar: „Þannig í raun allt sem þú þarft fyrir veisluna þína, við græjum það á einum stað!“