Fara í efni
Mannlíf

„Veisla án skrauts er bara fundur!“

Íbúar Partýlands! Frá vinstri, María Kristín Davíðsdóttir, Dídí Jónasdóttir, Davíð Rúnar Gunnarsson og Halldór Kristinn Harðarson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Landakort Akureyringa tók breytingum fyrir sléttri viku þegar Partýland var stofnað: verslun sem selur alls kyns skraut fyrir veislur og hátíðir,  land þar sem að auki er hægt að leigja margskonar tól og tæki fyrir slíkar samkomur.

Þar með rættist gamall draumur landstjóranna fjögurra. „Við gerðum viðskiptaáætlun veturinn 2019 til 20 en svo kom Covid og þá var áætlunin sett upp í hillu,“ segir ein fjórmenninganna, Dídí Jónasdóttir, við Akureyri.net. Hún er eigandi verslunarinnar ásamt eiginmanni sínum, Davíð Rúnari Gunnarssyni, og parinu Maríu Kristínu Davíðsdóttur og Halldóri Kristni Harðarsyni.

Snemma síðasta árs, strax og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir tilkynnti að ekki yrði um frekari samkomutakmarkanir að ræða vegna heimsfaraldursins, segir Dídí þau hafa farið að leita húsnæðis fyrir verslunina. „Ég held það hafi verið í lok nóvember að við gáfumst upp og opnuðum í staðinn vefverslun, þar sem fólk gat pantað vörur og sótt.“

Blöðrubarinn í Partýlandi – gamall namnibar sem gengið hefur í endurnýjum lífdaga.

Leit að húsnæði hélt þó áfram „og að því kom að við duttum niður á þetta húsnæði – þennan frábæra stað,“ segir Dídí, þegar Akureyri.net ferðaðist til Partýlands í gær. Þeim, sem kaupa blöðru eða annað dót fyrir sextugsafmælið, flýgur gamli, góði Iðnaðarbankinn líklega í hug. Aðrir nefna hugsanlega kosningaskrifstofu einhvers framboðsins síðustu ár. Partýland er sem sagt á jarðhæð Sjallans, þar sem Glerárgata og Gránufélagsgata blasa við út um stóra gluggana.

„Viðtökur hafa verið framar vonum. Hér er tóm gleði og hamingja; allir sem koma eru svo glaðir yfir því að loksins sé búið að opna svona búð á Akureyri. Ég held að hún sé sú eina utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Dídí.

Eitt af því sem vekur athygli er blöðrubar; gamall nammibar sem nýttur er í öðrum og hollari tilgangi en gleðja Karíus og Baktus. „Blöðrubarinn hefur slegið í gegn, hann vekur miklu meiri athygli en ég átti von á. Mér fannst svo augljóst að fólk þyrfti að geta valið sér blöðrur á auðveldan hátt, en það hefur reyndar varla verið hægt að kaupa sér einlitar blöðrur hér í bæ.“

Þau hafa lengi tekið að sér að skreyta sali fyrir árshátíðir, vinnustaðahóf og ýmsa viðburði, og leigja sölutjöld, myndakassa, poppvélar og fleira í þeim dúr. „Við höfum selt litla helíumkúta svo fólk geti blásið upp blöðrurnar sínar, en hér blásum við í blöðrurnar fyrir fólk. Ég held að það hafi aldrei verið hægt íbúð á Akureyri.“

Dídí segir að endingu að slagorð verslunarinnar hafi vakið mikla lukku: „Veisla án skrauts er bara fundur.“ Í því felist mikil sannindi!