Veigar lék frábært golf með landsliðinu

Evrópumót landsliða í golfi hófust í gær og Golfklúbbur Akureyrar á þrjá fulltrúa í landsliðshópunum.
Veigar Heiðarsson lék frábært golf á fyrsta keppnisdegi með karlalandsliðinu í gær, endaði á 67 höggum eða fimm höggum undir pari vallarins. Hann var meðal efstu manna eftir fyrsta keppnisdag, aðeins tveimur höggum frá toppsætinu.
Karlalandsliðið keppir með 16 sterkustu þjóðum Evrópu í efstu deild og fer mótið fram á Killarney golfvellinum á Írlandi. Keppni á öðrum keppnisdegi hófst kl. 9 í morgun og hægt er að fylgjast með skori keppenda hér.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir, til vinstri, og Bryndís Eva Ágústsdóttir
Andrea Ýr Ásmundsdóttir keppir með kvennalandsliðinu í Frakklandi og lék á 75 höggum á fyrsta keppnisdegi í gær, fimm höggum yfir pari. Keppni er hafin á öðrum degi og var Andrea á parinu eftir fyrri 9 holurnar. Hægt er að fylgjast með gengi kvennalandsliðsins hér.
Loks er Bryndís Eva Ágústsdóttir á Englandi að keppa með stúlknalandsliðinu. Hún lék fyrsta keppnisdaginn á 78 höggum, fjórum höggum yfir pari, og var með næstbesta skorið af íslensku stúlkunum. Eins og með hin landsliðin þá er annar keppnisdagurinn hafinn og hægt að fylgjast með gangi mála hér.