Fara í efni
Mannlíf

Vaskur hópur tók þátt í „vetrarskátun“

Skíðasamband skáta stendur árlega fyrir dagskrá í „vetrarskátun“ sem endar með 4-5 daga gönguferð á skíðum um páska sem kallast ÍSHÆK. Í ár fóru tíu vaskir skátar í leiðangurinn og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum.

Vetrarskátun er dagskrá fyrir skáta, 14 ára og eldri, þar sem lögð er áhersla á kennslu á gönguskíðum utan brautar og ferðamennsku að vetri. Það eru skátar úr Skátafélaginu Klakki á Akureyri sem halda utan um verkefnið og sjá um skipulagningu undir merkjum Skíðasambands skáta. Dagskráin er í boði fyrir skáta alls staðar að af landinu.

Yfir veturinn eru reglulegar skíðaæfingar þar sem hinar ýmsu listir utanbrautarskíða eru reyndar og þátttakendur æfa sig í að rata. Skátunum gefst einnig kostur á að taka þátt í útilífsnámskeiði yfir helgi þar sem þeir læra það helsta um útivist, svo sem klæðnað, búnað, matarræði, skyndihjálp, skíðabúnað og margt fleira. Þátttakendur gista eina nótt inni, en seinni nóttina í tjaldi. Námskeiðið er að mestu leyti verklegt og fer að stórum hluta fram utandyra.

Þeir skátar sem náð hafa 16 ára aldri, ljúka útilífsnámskeiðinu, tilteknum fjölda skíðaæfinga og standast rötunarpróf eru svo gjaldgengir í lokaþolraunina, ÍSHÆK og bikarmót Skíðasambands skáta.

 

ÍSHÆK 2025

Það voru tíu vaskir skátar sem lögðu af stað í ÍSHÆK laugardaginn 12. apríl og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum. Gengið var frá bílaplaninu neðan Kaldbaks, upp Grenjárdal og niður Trölladal um 14 km leið uns komið var að ferðaskála að Gili þar sem hópurinn hafði bækistöð í ferðinni. Veður var með ágætum en snjóalög frekar slök sökum hitatíðar dagana á undan. Þótt hópurinn þyrfti að ganga með skíðin á bakinu frá Finnastaðatungum miðaði honum vel en skátarnir voru þó hvíldinni fegnir í lok þessa fyrsta dags þegar komið var á áfangastað.

Á Pálmasunnudegi hafði veðrið versnað nokkuð, skátarnir létu það þó ekki á sig fá og var farið í dagsferð frá Gili og gengið upp fjallshlíðina austan við á, upp Illagil og til baka. Byrjað var að blása og kólna og þar sem spáin fyrir mánudaginn var ekki sem best var ákveðið að taka forskot á bikarmót Skíðasambands skáta, sem til stóð að halda daginn eftir. Það reyndist skynsamlegt því á mánudeginum var slagviðri; bálhvasst og úrkoma. Ferðalangarnir héldu sig því mest innandyra þann dag, en luku þeim keppnisgreinum sem eftir voru af bikarmótinu í kringum skálann.

Bikarmótið

Hefð er fyrir því að halda bikarmót Skíðasambands skáta í ferðinni. Keppt er í ýmsum þolraunum s.s. spjótkasti, skíðasvigi, spretthlaupi o.fl. Þá tíðkast, segja skátar í léttum dúr, að múta megi – eða hreinlegi eigi að múta – dómurum til að auka vegferð keppanda að hinum mikla heiðri sem felst í því að fá nafn sitt á forláta farandbikar sem sigurvegarinn hlýtur í verðlaun! Að keppni lokinni var það Anton Dagur Björgvinsson sem bar sigur úr bítum og hefur þannig ritað nafn sitt rækilega í sögu ÍSHÆK.

Á þriðjudeginum var pakkað saman og skíðuðu skátarnir sem leið lá ríflega 16 km suður um Leirdalsheiði uns komið var til byggða. Súlur – Björgunarsveitin á Akureyri – sá um að ferja skátana í sund þar sem ferðarykið var skolað af mannskapnum og tröllasögur úr ferðinni sagðar í pottinum.