Fara í efni
Mannlíf

Urðum óþarflega fljótt fullorðin í gamla daga

Stefán Þór á beininu fræga í Meistarastofu MA. Á árum áður tók skólameistari nemendur á beinið, ef m…
Stefán Þór á beininu fræga í Meistarastofu MA. Á árum áður tók skólameistari nemendur á beinið, ef með þurfti en þess gerist víst ekki þörf lengur. Til vinstri, mennskælingur líðandi stundar á Ratatoski, opnum dögum í skólanum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, sendi á dögunum frá sér skáldsöguna Þrítugur 1/3, fyrsta hluta þríleiks, sem í grunninn er ærslasaga, þar sem farið er fram og aftur á þriggja áratuga tímabili, frá því um 1980 fram undir 2010, að sögn hins pennaflinka MA-ings.

„Þegar allir voru hryggir og gæruskinn í upphafi faraldurs fór ég að velta fyrir mér eftirfarandi: Er ekki löngu tímabært að gefa út skáldsögu með Akureyri í brennidepli? Jafnvel fylgjast með stúdentum út í lífið og sjá þá koma aftur sem júbílanta?“ segir Stefán þegar prófa á að rekja úr honum garnirnir í tilefni bókarinnar.

Í ljós kemur að hann hafði ekki látið þarna staðar numið heldur lagt fleiri spurningar fyrir sjálfan sig: „Væri ekki í lagi að hafa smá húmor í þannig bók? Þurfum við alltaf að vera voðalega alvörugefin á svip þegar við handleikum íslenska skáldsögu? Hvernig væri að skemmta sér aðeins yfir lífinu eins og það var hér fyrir daga almennrar netvæðingar og skoða hvað breyttist? Telja Akureyringar enn allt hið illa stafa af utanbæjarmönnum? Hvers vegna förum við út að borða í nesti og fáum matinn gegnum lúgu? Af hverju er mesta umferðin á bílasölum eftir að skyggja tekur?“

Einfalda svarið við spurningaflóðinu er að Stefán ákvað að skrifa ekki bara bók heldur þrjár.

Tilviljun ef einhver kannast við sig ...

„Ég átti ýmislegt í fórum mínum, eins og ríflega 30 ára gömul drög að smásögu um Gunnu stóru og Lalla Lax og sitthvað fleira sem ég dustaði rykið af, endurbætti og samdi svo nýja gaman- og spennusögu í kringum gömlu drögin – eða „drauginn“ í skúffunni! Einnig urðu til ljóð, sem er ekki undarlegt í ljósi þess að ég gaf út ljóðabækurnar Upprisu og Mar á síðustu tveimur árum. Úr þessum hræringi varð eitthvað sem ég held að aldrei hafi verið gert áður. Ég spyr sjálfan mig: Má þetta? Tja, er ekki allt leyfilegt í dag? Alls kyns „remix“, blöndun forma og endurvinnsla, hefur tröllriðið póstmódernískum veruleika,“ segir Stefán Þór.

Akureyri er í brennidepli í þríleiknum, ekki síst Menntaskólinn á Akureyri. „Þótt ég hafi verið viðloðandi skólann í þrjá áratugi sem nemandi og kennari þá er sagan skáldskapur og aðeins tilviljun ef einhver þykist kannast við sjálfan sig í persónulýsingum. Það er líka furðuleg tilviljun að sagan leiti inn á ritstjórnir Dags og Morgunblaðsins og hefur ekkert með það að gera að ég var blaðamaður á Degi í átta ár og blaðamaður og íþróttafréttaritari á Morgunblaðinu í 12 ár. Svona er lífið einkennilegt á köflum,“ segir Stefán Þór og svei mér ef ekki glyttir í bros.

Að reykja, drekka og slást

Stefáni finnst gaman, segir hann, að rifja upp hvernig lífið var „í MA og almennt í samfélaginu áður en tæknirisarnir fóru að breiða út vængi sína og meirihluti fólks flæktist í veraldarvefnum ógurlega. Mér finnst líka fróðlegt að bera saman ungdóminn þá og nú. Strákar af minni kynslóð ólust upp við það að fullorðnast um fermingu og ganga hratt og örugglega inn í heim karlrembu, reykinga, drykkju og jafnvel slagsmála. Við sjáum glitta í þennan heim – en til allrar hamingju hefur mjög margt áunnist í jafnréttismálum og lýðheilsa hefur almennt batnað.“

Stefán segist, sem kennari í MA, vitaskuld sjá stóran mun á nemendum í dag og fyrir meira en þremur áratugum. „Við vorum harðsvíraðri djammarar í þá daga, meira um rokk og ról en líka meira um það að nemendur læsu heimsbókmenntir og fengjust við skriftir og skáldskap. Innan við 10% nemenda komu á bíl í skólann. Símat var lítið í skólanum, einstaka ritgerðir sem þurfti að handskrifa eða pikka á ritvél. Bókasöfn mikið notuð, orðabækur daglegt brauð. Nú er allt aðgengilegt í tölvum og afþreying er bundin skjá en ekki bókum. Við þurftum meira að reka okkur á í gamla daga, ekki endilega alltaf til góðs. Nú er haldið betur og lengur utan um nemendur, þeir eru fróðari og klárari að flestu leyti, reglusamari og efnilegri… en mættu vera seigari og þolnari þegar verkefnin verða krefjandi eða vindar fara að blása á móti.“

Jákvætt að börn fái að vera börn

„Mér finnst jákvætt að börn skuli fá að vera börn lengur en áður. Við urðum óþarflega fljótt fullorðin í gamla daga og ýmis mörk voru ekki skýr og margir unglingar sem upplifðu óæskilega reynslu í samskiptum við fullorðið fólk. Það er svo margt sem var bogið við lífið í mínu ungdæmi en hefur lagast mikið og of langt mál að telja það allt upp hér. Ég blæs að minnsta kosti á frasann um að allt hafi verið betra hér áður fyrr,“ segir Stefán Þór af alvöruþunga.

„Skáldsaga mín einkennist fyrst og fremst af galsa og ærslum en kannski má sjá einhverja undirtóna, ádeilubrodda eða kaldhæðni. Ef saga af þessu tagi væri skrifuð inn í nútímann væri hún tímaskekkja en þessi karlrembuheimur og kerskni sem svífur yfir vötnum eiga auðvitað að endurspegla andrúmsloftið eins og það var fyrir liðlega þremur áratugum. Þetta fyrsta bindi er bara byrjunin en í heild mun ég flakka fram og til baka um árin frá því um og fyrir 1980 og fram undir 2010. Svo er bara að vona að ég verði ekki einn um að hafa gaman af þessum galsa.“

Það er varla að gamall skólabróðir höfundarins hafi kjark til að opna bókina, en hyggst þó láta vaða um leið og hann setur punkt hér á eftir; best að fara með bænirnar sínar og gá hvaða sprell Stefán gerir á síðunum.