Fara í efni
Mannlíf

„Viðeigandi að enda árið á góðu Kjaftæði“

Vinirnir, Sindri Már Hannesson, Skúli Bragi Geirdal og Elís Orri Guðbjartsson.
Vinirnir, Sindri Már Hannesson, Skúli Bragi Geirdal og Elís Orri Guðbjartsson.

Akureyringarnir og æskuvinirnir, Elís Orri Guðbjartsson, Sindri Már Hannesson og Skúli Bragi Geirdal, hafa verið á miklu skriði undanfarið. Umhverfismálið – kaffimál gert úr endurunnum kaffikorti – sem þeir settu á markað í byrjun október seldist upp á innan við mánuði og nú hafa þeir fylgt því eftir með útgáfu á fjölskyldu- og partýspilinu Kjaftæði sem er meðal söluhæstu spila á jólamarkaðnum í ár.

„Ég held að enginn okkar sé neitt sérstaklega góður í spilum. Þó ég ætti eflaust að vera bestur þar sem ég er bæði með munninn fyrir neðan nefið og mesta kjaftinn af okkur þremur,” segir Sindri Már hlæjandi. „Okkur langaði að búa til borðspil sem kallaði fram hlátrasköll og sameinaði jafnt unga sem aldna. Gáfur, hæfileikar eða útsjónarsemi gagnast þér ekki í þessu spili. Hér gildir það eitt að kunna að lesa til þess að geta verið með í Kjaftæðinu. Þú einfaldlega setur upp í þig góm, dregur spjald og liðsfélaginn reynir að giska á það sem þú ert að reyna að lesa af spjaldinu. Hljómar kannski auðvelt, en bíddu bara!“ segir Elís Orri.

Höfðu trú á teyminu

Draumurinn um að stofna fyrirtæki saman varð til þegar þeir félagar voru að útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri vorið 2012, en þeir voru allir á félagsfræðibraut og saman í bekk. Þótt hugmyndin hafi kannski hljómað eins og kjaftæði á þeim tímapunkti áttu þeir ekki von á því að draumurinn yrði að veruleika með spili sem héti Kjaftæði. „Við höfðum trú á teyminu sem við erum og settum okkur því þetta markmið, að stofna okkar eigið fyrirtæki. Síðan fórum við að vinna í leiðum til þess að láta það markmið verða að veruleika og fórum í gegnum haug af hugmyndum. Til að gera langa sögu stutta þá tókum við þá ákvörðun að gefa út spil þar sem við sáum þar tækifæri til að sameina mismunandi hæfileika okkar í einni vöru,“ segir Skúli Bragi.

Grunnskóladanska með þýskum hreim

Nafn borðspilsins, Kjaftæði, vekur óneitanlega athygli en spilið ber sannarlega nafn með rentu. „Gómarnir láta einföldustu setningar hljóma eins og verstu grunnskóladönsku með þýskum hreim, svo allt sem maður segir verður eiginlega að algjöru kjaftæði. Útkoman er vægast sagt sprenghlægileg. Þótt ég hafi sjálfur aldrei verið mikið fyrir þátttökuverðlaun í yngri flokkum þá gildir það í Kjaftæði að það eitt að reyna er alveg nóg til þess að koma öllum í betra skap. Það má því segja að það hafi aldrei verið skemmtilegra að tapa í spili,“ segir Sindri Már.

Byrjaði sem rissa á servíettu

Spilið fór í almenna sölu í byrjun nóvember og segja strákarnir að þeir hafi rennt blint í sjóinn í gegnum allt ferlið, sem tók rúmt eitt og hálft ár frá því að hugmyndin varð til. „Viðtökurnar frá því að spilið fór í sölu hafa verið framar björtustu vonum. Þetta byrjaði á því að Skúli teiknar fyrstu útgáfu spilsins á servíettu og eftir það varð ekki aftur snúið. Áður en við vissum af vorum við með fullbúið spil í höndunum og komnir inn í allar helstu verslanirnar hér á landi,“ segir Elís Orri.

Viðtökurnar tala sínu máli

„Þetta hefur verið mikið lærdómsferli frá A-Ö. Þrátt fyrir að við höfum haft trú á vörunni frá fyrsta degi þá er ekki sjálfsagt að koma henni að í öllum verslunum. Við þurfum stöðugt að sanna okkur og okkar vöru en það hefur bara styrkt okkur og gert okkur betri. Viðtökurnar tala þó sínu máli og alveg ljóst að þetta verða mikil spilajól í ár. Nú reynir á sem aldrei fyrr að standa saman, sýna ábyrgð og hlýða Víði. Fjölskyldur verða saman heima um jólin og þá er tilvalið að geta gripið í gott Kjaftæði og fyllt fjölskylduboðið um leið af eintómri skemmtun,“ segir Skúli.

Deilir ekki góm frekar en tannbursta

Með spilinu fylgja 400 setningar, átta munngómar og skælbrosandi spilaborð. „Við lögðum áherslu á það að panta inn fleiri góma til þess að hverju spili myndu fylgja átta gómar fyrir átta leikmenn, svo enginn þyrfti að deila. Maður deilir ekki góm frekar en tannburstanum sínum, en gómana má síðan þvo og sótthreinsa að spili loknu. Í heildina voru þetta eitthvað í kringum 3000 setningar sem við sömdum en handvöldum síðan bestu 400 úr þeim bunka. Við vorum því oft heilu og hálfu kvöldin með góminn uppí okkur, slefandi eins og smábörn að hlæja langt frameftir við gerð spilsins,“ segir Sindri Már.

Kjaftæðis ár endar með Kjaftæði

„Þótt sóttvarnir séu ekkert kjaftæði þá er ekkert mál að fylgja þeim í Kjaftæði. Það er meira að segja hægt að vera með grímu fyrir þá sem það kjósa en annars er ekkert mál að halda fjarlægð milli leikmanna,“ segir Elís Orri og bætir við: „það er jafnframt ánægjulegt að sjá hversu vel spilið hefur selst í heimabænum okkar, Akureyri, en verslanir hér eru meðal þeirra söluhæstu á landinu. Líklega má rekja það til þess að Akureyringar vita betur en flestir að það er ekkert meira viðeigandi en að kveðja þetta kjaftæðis ár með góðu Kjaftæði!“