Fara í efni
Mannlíf

„Unga fólkið langar að fá sæti við borðið“

París Anna Bergmann ávarpar ráðstefnu Ungra athafnakvenna í Hörpu. Mynd: Aðsend

Ungar athafnakonur eru félagasamtök á landsvísu sem hafa það að markmiði að stuðla að kynjajafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Eins að vera vettvangur fyrir ungar konur í atvinnulífinu til samvinnu og jafningjastuðnings. Árleg ráðstefna félagsins var haldin í Hörpu þann 11. maí síðastliðinn, en ung Akureyrarmær, París Anna Bergmann, var ein af þeim sem flutti erindi á ráðstefnunni. 

París Anna er 16 ára gömul, en hún er nú þegar með töluverða reynslu af því að láta til sín taka í samfélaginu. „Ég er í fyrsta bekk í MA, en ætti að vera að útskrifast úr 10. bekk úr Oddeyrarskóla núna,“ segir París Anna. „Ég er frá Akureyri og er í Ungmennaráði Akureyrar, en kom fram á ráðstefnunni sem fulltrúi barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.“ París Anna hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og langar til þess að verða lögfræðingur í framtíðinni. Hún er líka í ráðgjafahóp Umboðsmanns barna og Ungmennaráði SOS.

Vel var mætt á ráðstefnu UAK í Norðurljósasal Hörpu, en um 200 konur komu þar saman á 10. afmælisári félagasamtakanna. Mynd: Aðsend

Í erindi sínu á ráðstefnu UAK vakti París Anna athygli á því að hún telur það forréttindi að fá að sinna þessum nefndarstörfum, hún sé í góðri stöðu til þess að hafa áhrif á samfélagið og þar með framtíð komandi kynslóða. „Ég upplifi það að jafnaldrar mínir séu sum illa meðvituð um jafnréttindi yfir höfuð. En hvað getum við gert til þess að breyta því?“

„Allt frá setningu fyrstu jafnréttislaganna árið 1976 hafa lögin kveðið á um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum,“ sagði París Anna á ráðstefnunni. „Á minni 10 ára grunnskólagöngu hef ég aldrei fengið jafnréttisfræðslu í skólanum. Ég talaði við nokkra jafnaldra mína sem búa annars staðar á landinu, en sum þeirra höfðu fengið mjög mikla jafnréttisfræðslu en sumir enga, eins og ég.“

Það virkar ekki að koma með glærukynningu í 15 mínútur og hafa þetta á þriggja ára fresti. Krakkarnir gleyma þessu bara eftir mat

París Anna kallaði eftir meiri áherslu á fræðslu í grunnskólum landsins í erindi sínu. „Það þarf að tryggja öllum jafnréttisfræðslu, kynfræðslu, fordómafræðslu svo meira sé talið,“ sagði París Anna. „Þetta þarf að vera reglulega og það þarf líka að fylgja þessu eftir. Það virkar ekki að koma með glærukynningu í 15 mínútur og hafa þetta á þriggja ára fresti. Krakkarnir gleyma þessu bara eftir mat. Það þarf að hafa krakkana með í fræðslunni, spyrja spurninga, gera verkefni og fleira.“

Okkur unga fólkið langar að fá sæti við borðið, okkur langar að fá að taka þátt í umræðum og ákvarðanatöku sem varðar jafnrétti kynjanna

„Að tala fyrir svona svona félagslegum breytingum fellur oft í sér að lenda í erfiðum aðstæðum,“ sagði París Anna við ráðstefnugesti. „En okkur unga fólkið langar að fá sæti við borðið, okkur langar að fá að taka þátt í umræðum og ákvarðanatöku sem varðar jafnrétti kynjanna, okkur langar að fá að vera með í þessum erfiðum umræðum.“

Áhugasöm um starfsemi Ungra athafnakvenna er bent á að skoða heimasíðu félagsins, www.uak.is 

Aðsendar myndir frá Ráðstefnunni í Hörpu.