Fara í efni
Mannlíf

Fjallakyrrð og ró við bæjardyrnar

Sigurður Baldursson á sleða sínum í kyrrðinni við Súlur um miðjan dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Veðrið hefur leikið við Akureyringa og nærsveitunga í dag; verður líklega aldrei fallegra á þessum árstíma, glampandi sól, stafalogn og á að giska eins stigs frost. Marga dreymir um fjallaferð við þessar aðstæður, enda vörðu margir deginum á skíðum í Hlíðarfjalli, en Sigurður Baldursson, fjallageit og ævintýramaður, var á sínum slóðum við Súlur þar sem hann hefur boðið áhugasömum upp á vélsleðaferðir um nágrennið í mörg ár. Töluverður fjöldi Akureyringa settist á bak vélknúnum beltafákum sínum og hvarf inn á Glerárdal en Akureyri.net naut lífsins með Sigga undir fjallinu fagra, þar sem sleðinn rann eftir glænýrri mjöll frá því í nótt og kyrrðin ríkti um leið og drepið var á sleðanum.

Sögustund við Súlur. Sigurður Baldursson segir frá.