Fara í efni
Mannlíf

Um silakeppi og vini glóperunnar

Sigurður Ingi Friðleifsson sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun.

Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun, brennur fyrir hraðari innleiðingu á nýjum lausnum sem geta hjálpað til við að takast á við loftsslagvána, bætt orkunýtni og aukið orkuöryggi. Hann er nýjasti gesturinn í hlaðvarpinu Transformia – Sjálfefling og samfélagsábyrgð, þar sem hann spjallar við Auði H. Ingólfsdóttur, m.a. um rafbíla, silakeppi og vini glóperunnar.

Sigurður segir innleiðingarhlutann oft vera týnda hlekkinn í breytingakeðjunni þegar kemur að því að færa sig yfir í umhverfisvænni tækni. Jafnvel þó að nýjar, hagkvæmar lausnir séu komnar fram á sjónarviðið þá sé ekki hægt að treysta á að innleiðing eigi sér stað sjálfkrafa. „Það þarf að brúa bilið frá lausninni til notkunar” segir hann.

Sigurður er Reykvíkingur en hefur búið í Eyjafirði í rúm tuttugu ár, auk búsetu erlendis. Hann telur synd hvað flæði Íslendinga um landið sé lítið því það geti verið mikið ævintýri að flytja út á land, hvort sem er tímabundið eða til lengri búsetu, og slíkt auki víðsýni. Hann er líffræðingur í grunninn, kennaramenntaður og fór í framhaldsnám til Svíþjóðar þar sem orkumálin voru í forgrunni. Í starfi sínu hjá Orkustofnun leggur hann áherslu á fræðslu, frekar en prédikun, og telur mikilvægt að fólk hafi aðgengi að upplýsingum sem hjálpi því að meta valkosti sjálft.

Framtíðarsýnin fyrir Ísland er hringrásarhagkerfi sem notar eingöngu endurnýjanlega orku í hógværu neysluumhverfi, að mati Auðar. Sigurður telur óumflýjanlegt að breytingar verði gerðar í þá átt en það skipti miklu máli hversu hratt þær eigi sér stað. Þekkingin sé til staðar, sem og hagkvæmar tæknilausnir, en íhaldssemi og ótti við breytingar koma í veg fyrir að þær séu eins hraðar og æskilegt væri.

Smellið hér til að hlusta á spjall Sigurðar og Auðar.