Fara í efni
Mannlíf

Úkraínskur matur og jól við kertaljós

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Lesia Moskalenko, úkraínskur blaðamaður til margra ára, kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrr á þessu ár. Hún hefur tekið að sér að skrifa greinar fyrir Akureyri.net og birtist sú fyrsta í dag. Þar fjallar Lesia einkum um úkraínskar matarhefðir og þjóðahátíðina í Amtsbókasafninu um síðustu helgi þar sem fólki bauðst að bragða á mat frá 12 þjóðlöndum.

„Hugmyndin að hátíðinni er einföld og dásamleg, því matur og matarhefðir eru hluti af menningu hvers lands og alltaf góð ástæða fyrir samskiptum og vináttu. Og fyrir okkur Úkraínumenn sem komum til Akureyrar þegar stríðið hófst eru samskipti nú nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr. Við viljum fræðast meira um fólkið sem býr á Akureyri og segja meira frá okkur sjálfum, meðal annars á tungumáli úkraínskrar matargerðar!“ skrifar Lesia.

Hún hafði áður komið til Íslands í frí. Þá dvaldi Lesia meðal annars á Akureyri og þegar leið hennar lá til landsins á ný sem flóttamaður stefndi hugurinn þegar í stað norður í land: „þegar ég var hér sem ferðamaður hreifst ég af staðnum – bænum, náttúrunni og andrúmsloftinu hér fyrir norðan,“ segir Lesia við Akureyri.net.

Fjölskylda Lesiu er enn í Úkraínu og hugur hennar leitar vitaskuld þangað alla daga. Hún skrifar:

„Í fornöld sat úkraínska fjölskyldan við jólaborðið á meðan kertið logaði. Í vetur munu margir Úkraínumenn þurfa að halda jól við kertaljós, ekki til að halda í hefðir heldur vegna stríðsins.

Um jólin munu ættingjar okkar í Úkraínu útbúa kutya sem tákn endurfæðingar og það munum við líka gera hér á Akureyri – og einnig kveikja á kertum!“

Smellið hér til að lesa grein Lesia Moskalenko.