Fara í efni
Mannlíf

Tveir Þórsleikir í Höllinni í dag!

Arnór Þorri Þorsteinsson og Ragnar Ágústsson verða í eldlínunni í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímss…
Arnór Þorri Þorsteinsson og Ragnar Ágústsson verða í eldlínunni í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Tvö Þórslið leika í Íþróttahöllinni í dag; handboltalið félagsins tekur á móti ungmennaliði Aftureldingar klukkan 17.30 og klukkan 20.15 hefst leikur Þórs og Stjörnunnar á Íslandsmótinu í körfubolta.

Handboltaleikurinn er í næst efstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni. Þórsarar hafa unnið tvo leiki í deildinni en tapað tveimur en gestir dagsins hafa aðeins lokið tveimur leikjum og unnið báða.

Körfuboltalið Þórs er enn án sigurs í efstu deild Íslandsmótsins, Subway deildinni, eftir þrjár umferðir. Stjarnan hefur unnið einn leik en tapað tveimur. Þórsarar hafa orðið fyrir þeirri blóðtöku að tveir erlendu leikmannanna, Jordan Connors og Jonathan Lawton eru meiddir og á förum, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.

Dúi Þór Jónsson, hinn tvítugi leikstjórnandi Þórs, er í láni frá Stjörnunni og hlakkar til að mæta félögum sínum þar. „Ég lít á þennan leik eins og hvern annan leik, það er alveg sama fyrir mig hvort það er Stjarnan eða annað lið. Við erum bara í brekku núna og þurfum á sigurleik að halda og það væri geggjað að byrja á fyrsta sigurleik gegn Stjörnunni,“ segir Dúi á heimasíðu Þórs.

Heimasíða Þórs