Fara í efni
Mannlíf

Mögnuð saga Mundínu, Finns og barnanna 20

Mundína og Finnur með sextán börn sín sem komust til fullorðinsára. Aftasta röð frá vinstri: Bjarni …
Mundína og Finnur með sextán börn sín sem komust til fullorðinsára. Aftasta röð frá vinstri: Bjarni Sigurður, Gunnar Konráð, Guðmundur Sigurjón, Anton Baldvin, Jón Albert, Héðinn Kristinn og Aðalgeir Gísli. Þriðja röð frá vinstri: Birna Kristín , Kristrún Anna, Stefanía Gunnlaug, Laufey Haflína og Eva. Önnur röð frá vinstri: Fjóla Bára, Mundína Freydís, Sigurbjörn Finnur og Sólrún Guðrún. Fremstu eru Óskar Þráinn (til vinstri) og Bragi.

Saga hjónanna Mundínu Þorláksdóttur og Finns Björnssonar á Ytri-Á í Ólafsfirði er stórmerkileg. Þau eignuðust 20 börn á 28 árum, frá 1917 til 1945 og afkomendur þeirra eru um 400. Lífið á Ytri-Á (Ytri-Gunnólfsá, eins og bærinn hét í raun) á Kleifunum snerist árum saman um komast af dag frá degi; að brauðfæða fjölskylduna og fóðra skepnurnar, eins og einn afkomendanna, Jón Birgir Guðmundsson, orðar það.

Óskar Þór Halldórsson, blaðamaður, hefur ritað sögu hjónanna og barnanna sextán sem komust til fullorðinsára, en fjögur dóu í æsku. Bók Óskars er mikil að vöxtum og ríkulega myndskreytt.

Ekki gaman af börnum?

Mundína sagði í viðtali við Akureyrarblaðið Dag árið 1951, þá búin að eignast öll börnin 20, að hún hefði aldrei verið „sérlega gefin fyrir börn“ og mikla athygli vakti þegar þetta var rifjað upp í viðtali sem Sigrún Stefánsdóttir átti við hana í Ríkissjónvarpinu árið 1980. Mörgum fannst það undarleg yfirlýsing.

Óskar Þór telur að fólk hafi alla tíð misskilið Mundínu, þótt enginn viti reyndar með vissu hvað hún átti við. „Systkinin segja að minnsta kosti fjarstæðukennt að Mundína hafi meint að hún hafi aldrei haft gaman af börnum, enda voru þau öll sammála um að barnelskari konu viti þau varla um. Þau telja að sennilega hafi hún verið að meina að hún hafi, áður en hún fór að eiga börn sjálf, ekki endilega haft mjög gaman af börnum.“

Verkefnið, sem endaði sem bók, er hugarfóstur Guðmundar Finns Guðmundssonar, eins barnabarns Mundínu og Finns. „Guðmundur bróðir minn hafði gengið með það lengi í maganum að taka þyrfti saman upplýsingar um ömmu og afa og setja inn í einhvers konar gagnagrunn. Þannig kemur Óskar upphaflega til sögunnar,“ segir Jón Birgir Guðmundsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Akureyri. „Við Páll hoppuðum á vagninn fyrir fjórum árum þegar ákveðið var að einhenda sér í það verk að gefa út bók,“ bætir hann við og vísar til Páls Sigurþórs Jónssonar, athafnamanns á Akureyri, annars afabarns gömlu hjónanna.

 

  • „Skólaspjaldið“ að ofan hékk á heimili allra barna Mundínu og Finns - þar sem eru myndir af þeim og börnunum 16 sem komust til fullorðinsára. „Stundum þegar einhver kom heim með mér var spurt í hvaða skóla foreldrar mínir hefðu verið,“ segir Jón Birgir og hlær. Fólk rak í rogastans þegar upplýst var að þetta væru systkini og foreldrar þeirra.

 

„Upphaflega tók ég mynd- og hljóðviðtöl við nokkur barna Mundínu og Finns þegar þau voru stödd á Ytri-Á,“ segir Óskar Þór Halldórsson þegar Akureyri.net spjallaði við þremenningana. „Guðmundur spurði mig hvort ég gæti tekið viðtöl við fólkið, ég hafði verið í sjónvarpi svo hann þekkti mig, ég er líka hálfur Ólafsfirðingur og einhver systkinanna þekktu mitt fólk. Þeim fannst ekki verra að ég hafði einhverjar tengingar við hópinn.“

Eftir að Óskar ræddi við systkinin liðu nokkur ár þar til boltinn fór að rúlla á ný. „Guðmund Finn langaði að gera meira úr þessu, við sáum ýmsa möguleika og úr varð að gera þetta í bókarformi. Ég hélt því áfram að safna efni, tók fjölmörg viðtöl, safnaði saman öllum rituðum heimildum sem ég gat grafið upp og safnaði saman ógrynni af ljósmyndum frá þessu fólki; myndir voru í kössum hér og þar eða í albúmum, myndir sem margir höfðu ekki séð í áratugi og sumir aldrei.“

Páll: Gríðarleg ánægja í fjölskyldunni

Óskar segist hafa lagt mikið upp úr því að bókin yrði mjög myndrík. „Við erum ekki síst að skrifa þetta fyrir unga fólkið og vitum að það stoppar ekki mikið við langan texta. Það les frekar ef það hefur myndir til stuðnings.“

Verkið varð mun viðameira en hugmyndin var á sínum tíma. „Upphaflega átti þetta að vera um ömmu og afa og  búskaparhættina á Ytri-Á en svo þótti okkur nauðsynlegt að gera líka skil systkinunum 16 sem komust á legg,“ segir Jón Birgir. „Þegar bókin fóru í prentun í febrúar voru afkomendur ömmu og afa 389, eins og kemur fram í bókinni, en nú eru þeir orðnir um 400. Við vorum því nokkuð vissir um að bókin gæti selst í þónokkru upplagi!“ segir hann.

 

  • Óskar Þór Halldórsson með bókina, Jón Birgir Guðmundsson og Páll Sigurþór Jónsson.

 

Páll segir alla sammála um að afar mikilvægt sé að sagan hafi verið tekin saman. „Já, og það er gríðarleg ánægja með bókina hjá ættingjunum,“ segir hann. „Gamla fólkið er í skýjunum og þeir yngri hafa líka mjög gaman af; þarna eru svo miklar og merkilegar upplýsingar um fyrri tíma. Menn lesa þetta ekki í einum rykk en bókin er frábært uppflettirit; það er gott að hafa hana við hendina og glugga í öðru hverju,“ segir Páll.

Óskar Þór: „Frábær viðbrögð“

Snemma árs stóð til að halda veglegt útgáfuteiti en því var frestað nokkrum sinnum vegna Covid. Loks tókst það um miðjan september, á milli Covid hrina. „Við héldum partí í Tjarnarborg í Ólafsfirði, sex systkinanna mættu og fengu auðvitað fyrstu bækurnar afhentar formlega og maður skynjaði strax hve rosalega þakklát og glöð þau voru með að þetta skyldi hafa orðið að veruleika,“ segir Jón Birgir.

Ekki er að undra að fjölskyldan sé ánægð með glæsilega bók Óskars Þórs en hvað með aðra? „Ég hef fengið frábær viðbrögð, bæði frá fólki sem þekkti til fjölskyldunnar og annarra sem þekktu ekkert til. Það virðist ekki skipta máli; fólk sökkvir sér ofan í bókina, sem ég er auðvitað ánægður með enda tel ég það hafa heppnast að ritið hafi víðari skírskotun en að fjalla bara um fjölskylduna. Ég reyndi að draga fram tíðarandann í samfélaginu og heyri að fólk er ánægt með það.“

  • Fjóla Bára, Sólrún Guðrún og Mundína móðir þeirra.
  • Frændsystkinin Sigvaldi Páll Gunnarsson, Sigurbjörn Finnur Gunnarsson og Ósk Sigríður Jónsdóttir við Ýtri-Ár húsið.

  • Flugfreyjurnar í Hrímfaxa, Hólmfríður Gunnlaugsdóttir (Lúlu) og Jóhanna G. Ólafsdóttir brugðu á leik og bera Finn hér á gullstól. Til vinstri á myndinni er Jóhannes R. Snorrason, flugstjóri.
  • Á leiðinni út hafði Finnur flugmiða til Akureyrar en ekki Kaupmannahafnar, sem hann þurfti þó aldrei að sýna áður en hann fór upp í vélina. Til þess að allt væri samkvæmt settum reglum var útbúinn flugmiði fyrir hann fyrir heimleiðina.
  • Fyrsta fréttin um flugævintýri Finns í dagblaðinu Berlingske tidende.
  • Finnur hæstánægður með Kaupmannahafnarferðina við Hrímfaxa, flugvél Flugfélags Íslands á Kastrupflugvelli. 

 

Ætlaði til Akureyrar - flaug óvart til Kaupmannahafnar

Í bókinni er rifjuð upp sagan af því þegar Finnur hugðist fljúga frá Reykjavík til Akureyrar í mars 1959, eftir að hafa dvalið hjá dætrum sínum og fjölskyldum þeirra í Keflavík um skeið. Ys og þys var á Reykjavíkurflugvelli, verið var að búa tvær vélar Flugfélags Íslands til brottfarar, annars vegar áætlunarvél til Akureyrar, hins vegar Hrímfaxa sem var á leið til Kaupmannahafnar með millilendingu í Glasgow.

Þegar fólk streymir út í vél lítur Finnur á klukkuna og hugsar með sér að Akureyrarvélin sé á áætlun og slæst í hópinn. Þegar flogið hefur verið í drjúga stund þykir honum sérkennileg leið flogin norður því vélin er komin á haf út og eftir samtali við aðra flugfreyjuna kemur í ljós að Kleifabóndinn er alls ekki á leið heim, heldur úr landi! Þegar áhöfnin áttar sig á því hvers kyns var kemur Jóhannes Snorrason, flugstjóri, að máli við Finn og spyr hvort hann vilji að vélinni verði snúið við eða hvort aðstæður leyfi að hann fresti norðurför um sólarhring. Finnur segir ástæðulaust að snúa við því hann hafi nú þegar misst af brottför Akureyrarvélarinnar og auk þess nái hann ekki, úr því sem komið er, póstbátnum frá Akureyri til Ólafsfjarðar! Hann fór því í óvænta sólarhringsferð til Kaupmannahafnar og vakti ævintýrið athygli að vonum. Bæði var fjallað um ferð Finns í dönskum dagblöðum og íslenskum.