Fara í efni
Mannlíf

Trén frá Hvammi nýtt til ýmiskonar smíða

Hörður Snorrason í Hvammi við hluta timbursins sem sent var austur á Hérað þar sem Skógarafurðir framleiða m.a. borðvið og klæðningu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Í sumar og haust hefur staðið yfir grisjun í nytjaskógi á jörðinni Hvammi í Eyjafjarðasveit. Hluti þess sem fellt er fer til Skógarafurða í Fljótsdal, þar sem til að mynda er framleiddur borðviður, klæðningar og panill. Annað fer í kísilmálmverksmiðjuna á Bakka við Húsavík, þar sem það er brennt.

Gróðursetning nytjaskóga hófst í Eyjafjarðarsveit vorið 1983 á um 20 jörðum og er nytjaskógurinn í Hvammi 20 til 40 ára. Á jörðinni hefur verið plantað um það bil 500.000 plöntum, innan og utan skipulagðrar skógræktar.

Samvinna við Skógræktina

Hvammur er í eigu hjónanna Harðar Snorrasonar og Helgu Hallgrímsdóttur. Fyrstu árin gróðursetti heimilisfólkið í Hvammi plönturnar en síðan þróuðust mál þannig að Páll Snorrason, bróðir Harðar sá um gróðursetningu.

Við grisjunina var að þessu sinni notuð sérstök trjáfellingavél, átta hjóla tæki með 11 metra armi. Vélin kom úr Dalasýslu og er í eigu verktakafyrirtækisins Jenna ehf.

Í samtali við Akureyri.net sagði Hörður að slík vél geti afkastað álíka miklu á einni klukkustund og einn maður á einum og hálfum degi. Aðstæður geta þó sett strik í reikninginn. Margstofna tré eru erfið viðureignar og ekki alltaf auðvelt að komast að trjám sem á að höggva, að sögn Harðar. Grisjun er undirbúin í samvinnu við Skógræktina. Um það segir Hörður að „starfsmenn skógræktarinnar komi og mæli upp reitina áður en farið er að grisja. Þeir mæla heildar rúmmetramagn í hverjum reit fyrir sig og segja fyrir um hvað má þá taka mikið út.“

Þurfti að gjörfella tvo reiti

Auk hefðbundinnar grisjunar þurfti að gjörfella tvo reiti. Að sögn Harðar voru trén þar af lélegu kvæmi, stofninn var ekki góður, trén kræklótt og engin framtíðarviðarvöxtur. Í þessa reiti verður sennilega plantað grenitrjám.

Hörður bætir við: „Í einhverjum tilfellum er verið að fara of seint í að grisja, trén eru orðin hávaxin og tiltölulega grönn. Þegar búið er að grisja þá þola þau verr vond veður og leggjast á hliðina.“

En hvenær þarf að byrja að grisja skóg? Fyrsta grisjun er milli „fermingaraldurs og tvítugs“ eins og Hörður orðar það. „Þá fella menn lélegustu trén en þau ekki notuð í neitt nema kannski girðingarstaura og kurluð í undirburð.“

Grisjun

Misjafnt er hvað mikið er grisjað í hvert sinn. Við fyrstu grisjun í skógi með 2.500 til 4.000 trjám á hektara er þéttleikinn minnkaður niður í um 1.500 tré á hektara. Þá fá þau tré sem skilin eru eftir betra rými til að vaxa. Þau tré sem eru nýtileg eru hirt. Greinar og ónýtanlegir bolir eru látnir liggja í skóginum og rotna. Það er gott fyrir skóginn, lífið í skóginum og eykur um leið náttúrulega hringrás næringarefnanna, segir Hörður.