Fara í efni
Mannlíf

Tonnatak í úrslitum jólalagakeppninnar

Félagarnir í Tonnataki, frá vinstri: Haukur Pálmason, Kristján Pétur Sigurðsson, Þorsteinn Gíslason …
Félagarnir í Tonnataki, frá vinstri: Haukur Pálmason, Kristján Pétur Sigurðsson, Þorsteinn Gíslason og Daníel Starrason.

Akureyrska hljómsveitin Tonnatak er í úrslitum hinnar árlegu jólalagakeppni Rásar 2 með lagið Ég er ekki jólasveinn. Kosning stendur yfir á vef RUV, henni lýkur miðvikudaginn 8. desember og úrslitin verða tilkynnt í Popplandi á Rás 2 daginn eftir.

Jólalagakeppni Rásar 2 er fastur liður í jólaundirbúningi RÚV og er nú haldin í 19. sinn. Um 50 frumsamin lög bárust í keppnina að þessu sinni og sérstök dómnefnd valdi sex þeirra til úrslita.

Tonnatak er „hljómsveit fullorðinna manna sem eru ungir í anda og hafa gaman af hráu rokki,“ svo vitnað sé beint í lýsingu hópsins á sjálfum sér. Kristján Pétur Sigurðsson syngur og leikur á gítar, Daníel Starrason er einnig gítarleikari, Þorsteinn Gíslason spilar á bassa og Haukur Pálmason situr við trommusettið.

Löng hefð er fyrir því að Tonnatak gefi út jólalag á aðventunni. „Í fyrra sendum við lagið Feit jól í jólalagakeppni Rásar 2 en það komst ekki í úrslit. Við sármóðguðumst en þegar fór að vetra aftur í ár var það gleymt og við ákváðum að skella í nýtt jólalag – og senda það í keppnisferð suður!“ segir Daníel Starrason við Akureyri.net.

„Lagið er spunnið í kringum bassalínu Þorsteins, á nokkrum æfingum þróaðist í því diskó-kafli og metal-kafli á víxl en eftir stúdíóvinnu varð til nýbylgjupönkslagari með jólabjöllum sem við erum afar stoltir af. Textinn er úr smiðju Kristjáns Péturs en þar má heyra skírskotanir í klassísk jólalög ásamt nokkrum skotum á talningamann sem hefur verið í fréttum undanfarið,“ segir Daníel.

Að venju er til mikils að vinna, segir á vef RÚV: „Lagið sem verður fyrir valinu fær útnefninguna jólalag Rásar 2 árið 2021 og hlýtur sigurvegarinn vegleg verðlaun. Auk þess sem lagið verður flutt á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar.“

Smellið hér til að hlusta á lögin sex og kjósa.