Fara í efni
Mannlíf

Tónlistarsmiðja: Ungir semja raftónlist

Tónlistarsmiðja: Ungir semja raftónlist

Í aprílmánuði verður Barnamenningarhátíð á Akureyri. Markmið hátíðarinnar er að hvetja börn og ungmenni til að taka virkan þátt í menningarstarfi og sköpun.

Tónlistarsmiðja fyrir fólk á aldrinum 14-18 ára er einn af dagskrárliðum Barnamenningarhátíðar. Þá mun tónlistarmaðurinn Stefán Elí kenna þátttakendum grunnatriðin í að semja tónlist, þar fjallar hann um lagasmíðina sjálfa, um skapandi tjáningu, hljóðhönnum og fleira sem felst í því að búa til tónlist í tölvum.

Námskeiðið er í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og verður haldið þar tvo laugadagsmorgna, 2. og 9. apríl klukkan 11.00 - 13.00.

Stefán Elí hefur verið afar virkur sem tónskáld, hljóðfæraleikari og söngvari á undanförnum árum og gefið út 3 fullskipaðar plötur auk þess að senda fjölda stakra laga á streymisveitur. Hann hefur meðal annars sótt innblástur í menningu austur í Thailand og vestur í Guatemala. Stefán hefur áður annast hliðstæða kennslu í raftónlistarsköpun og miðlað af reynslu sinni í Tónlistarskólanum á Akureyri, þar sem hann lauk jafnframt prófi á braut skapandi tónlistar.

Þeir sem eru á aldrinum 14-18 ára og hafa áhuga á að kynnast raftónlistarsköpun ættu að fara inn á viðburðinn Raftónlistarsmiðja fyrir 14-18 ára á Facebook, en þar er tengill á skráningu á námskeiðin.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar. Fleiri viðburði á dagskránni má sjá á www.barnamenning.is