Fara í efni
Mannlíf

Tómleikar - átta laga plata frá TOR á Spotify

Strákarnir í TOR á tónleikum á Græna hattinum. Þorsteinn Jakob Klemenzson og Þormar Ernir Guðmundsson.

Tónlistarlífið á Norðurlandi er blómlegt og afrek ungra tónlistarmanna ótrúlega mikil. Það er ekki vafi að áhrif tónlistarskólanna í bæjum og sveitum birtast í fjölmörgum tegundum tónlistar, ekki síst í dægurtónlist.

Um áramótin gaf hljómsveitin TOR út átta laga plötu, eins og það er enn kallað, á Spotify. Platan ber nafnið Tómleikar, en listamennirnir eru tveir sextán ára menn, Þorsteinn Jakob Klemenzson úr Svarfaðardal og Þormar Ernir Guðmundsson frá Dalvík. Þótt ungir séu hafa drengirnir um árabil komið víða fram og leikið og sungið á alls kyns hátíðum og viðburðum í heimabyggð, meðal annars á Fiskidegi, en líka látið til sín taka á hátíðum eins og Samfés og Músiktilraunum í Reykjavík, og í september síðastliðnum voru þeir ungliðar ársins í tónlistarveislunni Hauststillu, sem Ivan Mendez tónlistarmaður hefur haldið úti til að gefa ungu, skapandi tónlistarfólki færi á að koma fram, og fór nú fram á Græna hattinum. Þar komu þeir afar sterkir til leiks.

Á plötunni Tómleikum eru sem fyrr segir átta lög. Þorsteinn Jakob er fyrst og fremst í hlutverki tónskálds og hljóðfæraleikara en Þormar Ernir, er söngvarinn og textasmiðurinn og allt er efnið á íslensku. Platan er verk þeirra tveggja en þeir fá þó til liðs við sig Rán Ringsted í einu laganna.

Þorsteinn og Þormar hófu báðir nám í MA nú á nýliðnu hausti en auk þess er Þorsteinn við nám í Tónlistarskólanum á Akureyri. Og Tómleikar er bara upphafið á ferli þeirra, það er nóg efni bæði í skúffunni og í kollinum og nánast öll ævin framundan.