Fara í efni
Mannlíf

Tómas á Borgum II – Erindi til Akureyrar

Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum (1769 - 1843). Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar eru nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net í vetur.
_ _ _

Tómas var í ýmsu sýsli eins og menn voru á þessum tíma. Eitt sinn var hann til dæmis hreppstjóri í Grímsey, þrátt fyrir að vera alls ómenntaður og ekki einu sinni læs. Sögur komust á kreik um að hann hefði gert sér ferð til Akureyrar eitt sinn, með þrjá hreppsómaga með sér. Hann óskaði eftir fundi með Gunnlaugi Briem, þáverandi sýslumanni á staðnum. Tómas kvaðst þurfa að færa Gunnlaugi ómagana, vegna þess að hann skorti heimildir til þess að skera þá. Ekki fylgir sögu hvort vesalings mennirnir hafi fengið inni á Akureyri, en var orð manna að þarna hefði Tómas sýnt löghlýðni sína með ótvíræðum hætti.

  • Sögurnar af Tómasi eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.