Fara í efni
Mannlíf

Tímahylkið í tíð kórónuveirunnar

Sýningin Tímahylkið í tíð kórónuveirunnar verður opnuð á Safnasafninu á Svalbarðsströnd á morgun, laugardag, klukkan 13.00.

Um er að ræða samstarfsverkefni nemenda og kennara í leikskólanum Álfaborg og grunnskólanum Valsárskóla, starfsmanna Svalbarðsstrandarhrepps og starfsmanna Safnasafnsins.

„Á sýningunni eru verk nemenda sem unnin eru út frá upplifun þeirra á áhrifum COVID-19 á daglegt líf okkar. Nemendur hafa einnig skoðað hvernig fyrri faraldrar hafa leikið þjóðina um leið og þau hafa velt því fyrir sér hvernig við erum að skrásetja og varðveita upplýsingar um upplifun okkar,“ segir í tilkynningu frá Svalbarðsstrandarhreppi. „Við erum hætt að skrifa bréf, notumst við samfélagsmiðla, geymum ljósmyndir á símum og skýjum og skiljum lítið eftir fyrir framtíðar kynslóðir að sækja í. Verkum nemenda og munum sem þau vilja varðveita verður komið fyrir í kassa sem við köllum Tímahylki og geymt verður á Minjasafninu í fimmtíu ár en þá vilja nemendur koma saman með börnum og kannski barnabörnum, opna, skoða og rifja upp.

Sýningin hefur fengið góðan hljómgrunn og hlotið stuðning frá Barnamenningarsjóði, Barnavinafélaginu Sumargjöf, SSNE og svo ætlar GÓA að gefa okkur súkkulaði til að gæða okkur á á opnuninni og til að geyma í Tímahylkinu.“