Fara í efni
Mannlíf

Þú verður að finna þér áhugamál, áður en þú ferð á eftirlaun!

Jóhann Sigurjónsson. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Þú verður að finna þér eitthvert áhugamál áður en þú ferð á eftirlaun, sagði þessi gamli Breti við mig þarna. Grafalvarlegur.“

Svona hófst sagan af því hvernig Jóhann Sigurjónsson, fyrrverandi kennari í Menntaskólanum á Akureyri, fór að hugsa sig um og spá í það sem myndi taka við þegar hann hætti að vinna. „Ég kynntist þessum manni fyrir algjöra tilviljun, þegar ég var í námsleyfi á Englandi. Við fórum saman hjónin, veturinn 1991.“ 

Jóhann tekur á móti blaðamanni Akureyri.net í sögufrægu húsi, Eyrarlandsvegi 16, þar sem hann býr ásamt konu sinni, Valgerði Árdísi Franklín. Hann er ötull rennismiður og skapar ótrúlegustu hluti úr viði á heimaverkstæðinu sínu, en það var í námsleyfinu á Englandi sem hann kynntist fyrst viðnum og því sem hann býður upp á. „Við bjuggum í raðhúsi og nágrannar okkar voru eldri hjón,“ rifjar Jóhann upp. „Einn daginn buðu þau okkur í síðdegisdrykk og maðurinn sýndi mér það sem hann dundaði sér við, sem voru risavaxin dúkkuhús úr viði. Ótrúlega fallegt handverk, þar sem hann smíðaði allt, húsgögnin og það var meira að segja rafmagn og rennandi vatn í húsunum. Það tók hann tvö ár að smíða hvert hús.“

Svo bætti hann við að ég yrði að læra hobbíið mitt áður en ég yrði allt of gamall, vegna þess að maður nennir ekkert alltaf að læra nýja hluti þegar ellin hellist yfir

Gamli dúkkuhúsasmiðurinn spurði Jóhann hvaða áhugamál hann hefði, og Jóhann segist hafa hlegið svolítið við og ansað því til að það væri enginn tími til þess að eiga áhugamál á Íslandi. „Honum leist ekkert á þetta, og þarna sagði hann þessa setningu, sem ég vil gjarnan skila áfram til yngra fólks í dag,“ segir Jóhann, en staðan í dag er sú, að fólk er alltaf að verða eldra og því gæti verið mun lengri tími sem fólk hefur á eftirlaunaaldrinum við góða heilsu og á besta aldri. „Þú verður að hafa eitthvað til þess að dunda þér við í ellinni, sagði þessi góði maður. Svo bætti hann við að ég yrði að læra hobbíið mitt áður en ég yrði allt of gamall, vegna þess að maður nennir ekkert alltaf að læra nýja hluti þegar ellin hellist yfir.“

Eitthvað náði maðurinn til Jóhanns með þessum orðum. „Ég tók alltaf lestina til og frá skólanum sem ég sótti fyrirlestra í, og eftir þessi orð mannins fór ég að taka eftir einhverri holu sem var staðsett við gönguleiðina frá lestarstöðinni í skólann, en hún hét 'Middlesex Woodcraft Center',“ segir Jóhann. „Ég kíkti aðeins á gluggana fyrst, svona áður en ég tók skrefið inn, með orð gamla mannsins í huga. Eftir að kynnast aðeins starfseminni, skráði ég mig á námskeið og svo var ekkert aftur snúið!“

Jóhann segir að það hafi tekið nokkra mánuði að koma sér upp aðstöðu eftir að hjónin fóru aftur heim til Akureyrar, en hann fann strax að rennismíðin hentaði honum vel.

Jóhann býður blaðamanni niður í kjallara, þar sem kemur fljótt í ljós að hann hefur aldeilis ekki setið auðum höndum við rennibekkinn síðan hann kom heim frá Englandi. Förum í svolítið ferðalag um kjallarann með Jóhanni! 

 

Jóhann hefur búið til ýmis listaverk, en þetta er svolítið sérstakt. Hér er pípa úr gamla orgelinu úr Akureyrarkirkju. Mynd RH

Það er hreinasta ævintýri að fá leiðsögn um rýmið og skoða listaverkin sem Jóhann hefur búið til. „Ég er að selja eitthvað af þessu, svona hér og þar. Helst framleiði ég hluti fyrir Jólahúsið og það selst ágætlega þar,“ segir Jóhann. „Ég er samt auðvitað ekki að þessu til þess að græða. Kannski næ ég stundum upp í kostnað, en ég vil frekar hafa hlutina á góðu verði. Fólki finnst ég reyndar oft taka of lítið fyrir.“ 

 

Jóhann notar alls konar við, allstaðar að úr heiminum, en hann á lager af mismunandi kubbum og spýtum sem hann hefur viðað að sér í gegnum tíðina. Stundum er viðurinn litaður með sérstökum litum, en oft er viðurinn sjálfur litaður frá náttúrunnar hendi. Þessi rauði fugl, á myndinni fyrir ofan, er til dæmis úr svokölluðum „pink ivory“. „Þessi viður var einkaeign Zulu höfðingjanna í Suður-Afríku og það mátti enginn nota hann nema þeir,“ segir Jóhann. „Ef einhver gerði það lá dauðarefsing við. Ég hef sloppið samt. Þegar aðrar þjóðir fóru að heimsækja svæðið, þá fóru þeir nú að selja hann til landkönnuða, þangað til að það var orðið lítið eftir. Þá var þessi viður friðaður en ég er svo heppinn að ég átti stóran bút úr stofni og á hann ennþá.“

 

Eitt er víst, að öll þurfum við að fara ofan í jörðina á einhverjum tímapunkti. Sumum er það mikilvægt að gera það með umhverfisvænum hætti, en Jóhann er með skemmtilega lausn. „Mig langaði einu sinni að reka áróður fyrir því að duftker væru úr íslenskum viði,“ segir hann. „Ég tók þátt í samkeppni fyrir sunnan um smíði duftkers og fékk viðurkenningu fyrir þetta ker úr íslensku birki. Málið er reyndar að það er ekkert auðvelt að fá birki sem er nógu svert fyrir svona ker. Það er eitthvað við það samt, að vita að þegar tíminn líður, þá samlagast þetta jörðinni sem það spratt upp úr áður.“

 

Þessar dömur eru holar að innan, en Jóhann segir frá því að hann hafi fengið sérpöntun frá konu sem ætlaði að taka á móti erlendum gestum. „Ég gerði minnir mig einhver tuttugu stykki af þessum styttum, en inn í þær setti ég litla flösku af íslensku brennivíni. Þetta sló í gegn.“

 

Stundum kemur karakter viðsins fram á ólíklegustu stöðum, en á þessum jólasveini sem ætlaður var til sölu í Jólahúsinu kom þessi skemmtilegi kvistur fram. „Ég tímdi ekki að láta þennan, mér fannst þetta svo skemmtilegt,“ segir Jóhann. „Þessi fær að vera hérna hjá mér, jólasveinn með valbrá.“

 

„Konan mín er dugleg að hvetja mig áfram í þessu áhugamáli mínu, og tekur stundum þátt í þessu með mér,“ segir Jóhann. „Oft eru hlutirnir með borðum eða textíl af öðru tagi, og þá sér hún alveg um það. Til dæmis eru þessar jólabjöllur samvinnuverkefni okkar, en þær fara einmitt í Jólahúsið líka.“

 

„Stundum er hringt í mig og einhver býður mér drumb,“ segir Jóhann. „Ég þigg það nú oftast og ég byrja yfirleitt á því að kljúfa hann í tvennt. Svo fer hann í skúrinn minn út og ég tek hann svo út og lofta um hann nokkrum sinnum yfir sumarið. Það getur alveg tekið svona fimm ár frá því að ég fæ íslenskan við úr náttúrunni í hendurnar og þangað til að ég klára til dæmis skál úr honum.“ Jóhann á mikið af fallegum skálum úr íslenskri ösp og reynivið sem hafa farið í gegnum ansi margar viðranir og nostur í skúrnum hans áður en þær voru kláraðar á rennibekknum. 

 

Þessi vasi er litaður með sérstökum lit fyrir við. „Ég er í Breska trérennismiðafélaginu, enda eru rætur mínar sem rennismiður náttúrulega þar í landi. Fyrst voru nánast bara karlar í þessu félagi en svo fóru að tínast inn konur. Þær komu með hugmyndina um að reyna að lita viðinn. Fyrst fórum við að lita þetta með fatalitum, en svo fóru að koma á markaðinn sérstakir litir fyrir viðinn,“ segir Jóhann. 

 

„Í hverju svona, eru átján einingar,“ segir Jóhann. „Og það sem meira er um vert, er að eggin eru hol að innan eins og bjöllurnar. Ég hef fengið óskir um að gera svona egg með einhverju innan í, eins og barnatönnum. Þá setti ég tennurnar inn í áður en ég límdi allar einingarnar saman og svo þegar eggið er tilbúið, þá eru barnatennurnar vel geymdar á góðum stað!“ 

 

Hér má sjá svona hlut úr átjan einingum, í þessu tilfelli bjalla, bæði fyrir og eftir að rennismiðurinn hefur lokið verkinu. Jóhann undirbýr sig með því að líma saman mismunandi tegundir af viði og þegar límið er þornað getur hann skapað bjölluna eða eggið. „Það sagði við mig smiður að ég þyrfti að selja þetta á svona fimmþúsund kall miðað við efni og tíma. En ég er að selja þetta á tvöþúsund krónur,“ segir Jóhann og blaðamanni finnst kaupendur sleppa heldur billega, en eins og áður sagði er smiðurinn ekki á höttunum eftir gróða, heldur vill hann geta fjármagnað áhugamálið sitt að einhverju leyti og skapað fallega hluti sem fólk hefur efni á að eignast. 

„Ég er búinn að gera ansi margar svona, sem eru til sölu í Jólahúsinu og jólasveinninn segir mér að það séu aðallega útlendingar sem kaupa þetta.“

 

„Við erum áttatíu og tveggja ára,“ segir Jóhann um þau hjónin. „Við göngum 7,6 kílómetra á hverjum einasta degi. Það eru bara stórrigningardagar og stormur kannski sem geta komið í veg fyrir það. Síðan höfum við eitthvað að gera, eitthvað áhugamál. Og þetta tvennt, hreyfing og hugðarefni, gerir það að verkum að okkur líður mjög vel þrátt fyrir að vera svona gömul og séum hérna í þrjúhundruð fermetrum að skrölta bara tvö.“