Fara í efni
Mannlíf

„Þú ferð ekkert suður“ – Rætt við Steina Villa

Skipstjórinn í brúnni á Kaldbak árið 1979. Ljósmynd: Hörður Geirsson
Skipstjórinn í brúnni á Kaldbak árið 1979. Ljósmynd: Hörður Geirsson

Jón Hjaltason, ritstjóri Sjómannablaðsins Víkings, ræddi í nýjasta hefti blaðsins við Akureyringinn Þorstein Vilhelmsson, Steina Villa, um árin hans hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Hann stofnaði síðar Samherja ásamt Kristjáni bróður sínum og Þorsteini Má, en þeir eru bræðrasynir. Jón veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta viðtalið og meðfylgjandi myndir.

_ _ _

„Ég fæddist inn í ÚA,“ segir viðmælandi okkar, Þorsteinn Vilhelmsson eða Steini Villa. „Ég var ekki nema fimm ára gamall þegar ég byrjaði að fara túra með pabba á gamla Harðbak.“

Fyrstu launin

„Já þetta var helvíti ungt. Rétt fimm ára. Og kannski hálft sumarið um borð í síðutogara. Svo fékk Kristján bróðir líka að byrja fimm ára, það varð ekki hjá því komist. Ég hafði brotið ísinn. Löngu seinna sagðist mamma ekkert skilja í sjálfri sér að hafa leyft þetta.“

Var þá settur maður til að vakta ykkur bræður?

„Nei, nei. Pabbi setti reglur. Úr brúnni gat hann bara séð fram á en ekkert aftur á. Við máttum því aldrei fara nema að stóru björgunarbátunum á bátadekkinu. Og við hlýddum enda ætluðum við sko ekki að missa af því að fá að fara aftur. En auðvitað höfðu karlarnir auga með okkur og þegar staðið var í aðgerð og við að flækjast frammi á dekki sá pabbi vel til okkar.“

En hvenær tók alvara lífsins við? Hvenær fékkstu ákveðið starf um borð?

„Ætli það hafi ekki verið á níunda eða tíunda ári. Þá byrjaði maður að fara í nálakörfuna og hjálpa til við að vinda í nálar þegar trollið kom rifið upp. Annars var þetta mest leikur. Ég gerði mikið af því að ná í lestarborð og búa til úr þeim skip sem ég dró með síðunni. Á þessum árum var alltaf farið frá gömlu olíubryggjunni á Oddeyrartanga en þar skammt frá voru stórir svartolíutankar. En svartolían var svo þykk að það var illmögulegt að dæla henni norður á Togarabryggjuna hjá ÚA. Það þurfti að hita olíuna til að koma einhverju flæði á hana. Þess vegna voru togararnir í innilegum alltaf færðir suður að olíubryggjunni þar sem svartolíunni var dælt um borð. Skipstjórinn eða stýrimaðurinn sáu um að færa skipið og þegar við röltum með pabba á milli var alltaf komið við í Skipasmíðastöð KEA en karlarnir þar voru okkur afskaplega góðir og sáu ekki eftir smá smíðaefni handa strákunum.

Steini 16 ára háseti á Harðbak.

Staðið í netabætningu á dekki. Styrmir Gunnarsson, 2. stýrimaður, skeri úr og Steini Villa bætir. Tryggvi Gunnarsson er í nálakörfunni. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson

 

Svo byrjaði maður ungur að gera sigin fisk. Og þegar við vorum á salti á sumrin var gellað og saltað. Gellurnar geymdi ég svo í körfum á brúarvængnum en körfurnar voru stundum orðnar æði margar þegar komið var í land. Þetta var maður svo að gefa kerlingunum í Ránargötu og ég held svei mér að ég hafi sjaldan verið vinsælli en þegar ég kom færandi hendi með bæði sigin fisk og gellur.“

En fyrstu launin?

„Þau tímamót urðu 1962. Ég var tíu ára þegar skall á heljarlangt togaraverkfall. Pabbi fór þá út í Hrísey þar sem hann hafði alist upp sem strákur. Var þar á síldarplani. Svo þegar verkfallið leystist loksins í lok sumars dreif hann sig af stað. En fyrsti túrinn varð alveg ónýtur. Aðeins 50 tonn. Þá var ákveðið að fara á salt. Og nú skipti heldur betur um. Lentum í rosalegu fiskiríi. Alveg mok. Þá ræsti pabbi mig til að aðstoða kallana. Og þarna var ég að sniglast í pontinu eða að tína upp fisk sem hafði dottið aftur fyrir. Maður gerði allavega nóg til að körlunum þótti ástæða til að greiða mér smálaun sem í mínum augum voru þó ekkert smáræði.“

„Það er stímvaktin“

En hvenær hófst hinn eiginlegi sjómannsferill. Hvenær varstu í fyrsta sinn munstraður með formlegum hætti?

„Í maí 1968 varð ég fyrst alvöruháseti. Mikið djöfull hlakkaði ég til að fara á sjóinn. Ég var þá í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Seinasta prófinu lauk í hádeginu og við vorum komnir út um kvöldið. Við vorum þrír guttarnir um borð, ég, Árni Bjarnason og Rúnar Jóhannsson. Pabbi Rúnars hafði verið yfirvélstjóri á Harðbak og hann sjálfsagt hugsað eins og ég að við yrðum að komast á Harðbak, annað kæmi ekki til greina.

Á þessum árum voru að verða tímamót í útgerðarsögu landsins. Síldin að hverfa og mannskapurinn að flykkjast aftur yfir á togarana. Og allt voru þetta reyndir netamenn. Þeir voru því margir við bætninguna þegar á þurfti að halda en viðvaningarnir um borð – við þrír – vorum settir í nálakörfuna og þá var eins gott að láta hendur standa fram úr ermum. Það var sko öskrað ef maður hafði ekki undan við að vinda í netanálarnar. Og nálunum iðulega hent í okkur með skipunum um einfalt, tvöfaldan þrí eða tvöfaldan fjór allt eftir því hvað bæta átti.“

Vinirnir og skipsfélagararnir, Sveinn Hjálmarsson og Steini Villa.

„Kristján bróðir fékk líka að fara 5 ára gamall.“ Myndin er að vísu tekin allöngu síðar eða 2. Janúar 1971. Félagararnir þrír hafa fengið að sigla með Harðbak. Myndin er tekin í Grimsby. Frá vinstri Þorsteinn Árelíusson, Kristján Vilhelmsson og Guðmundur Pétursson. Þeir tveir síðarnefndu báðir á sautjánda ári og orðnir fullgildir hásetar. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson

 

Þú hefur nú varla verið neinn nýgræðingur, búinn að þvælast um borð með föður þínum síðan þú varst fimm ára.

„Maður vissi jú hvernig allt gekk fyrir sig, ég þekkti skipið, en í raun kunni maður ekki neitt.“

Hvernig var svo „fyrsti“ túrinn?

„Afar minnisstæður svo ekki sé meira sagt. Þetta var 22. maí og fjörðurinn kjaftfullur af ís. Við vorum varla farnir frá Togarabryggjunni þegar við vorum komnir í ís og þetta var barningur vestur að Horni, allt í gegnum ís. Urðum að fara langt inn á Húnaflóa, milli skerja og lands, til að komast áfram. Siglingin að Horni tók á þriðja sólarhring og þá fyrst komumst við út úr ísnum. Allan þann tíma voru þeir á vaktinni til skiptis, skipstjórinn og stýrimaðurinn, uppi á brúarþaki, við radarmastrið, búnir að setja segl á smárekkverk sem var þar uppi.

Þótt væri logn allan tímann held ég að þeim hafi orðið helvíti kalt þarna uppi. Það hefur ábyggilega gnauðað um þá.

Mér er minnisstætt að fyrsta morguninn átti ég stímvakt frá hálf tíu til hálf eitt. Þá fyrstu á ævinni. Við vorum þrír í brúnni. Einn stóð við gúmmíslöngu sem hafði verið leidd frá radarnum og niður í brú en í hana kölluðu skipstjórinn og stýrimaðurinn skipanir um stefnubreytingar. Ég stóð við stýrið, hafði tekið við því skjálfandi á beinunum, enda kunni ég ekkert að stýra en það er vandasamt að breyta stefnu skips um einhverjar gráður ýmist á stjór eða bakborða. Og eitthvað hef ég stýrt illa því að stýrimaðurinn kallaði niður: Hver er eiginlega á stýrinu?

Þá svaraði Ólafur Hermannsson með þessari snilldarsetningu: Það er stímvaktin.

Hann var ekkert að segja nafnið og stýrimaðurinn spurði ekki aftur. Óla datt ekki í hug að nota sér að það væri Steini Villa. Og ég varð aldrei fyrir neinu þótt pabbi væri annar tveggja framkvæmdastjóra ÚA eins og ég hafði hálft í hvoru óttast.“

Og hvernig aflaðist?

„Við vorum með þetta sirka 215-220 tonn eftir 10 eða tólf daga. En þegar við ætluðum heim komumst við ekki einu sinni að Horni. Ísinn lokaði öllum leiðum og þetta var í byrjun júní. Þá var gripið til þess að landa á Ísafirði sem okkur strákunum þótti helvíti spennandi en karlarnir voru hundfúlir að komast ekki heim. Höfðu svo oft lent í því um veturinn en þessi ár var óhemju ís við landið. Hann lagðist meira að segja inn á firði fyrir austan land svo að víða varð afar erfitt um alla aðdrætti.

Áki Stefánsson skipstjóri skimar yfir miðin. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson

Annar ókostur sem köllunum þótti vera við að landa á Ísafirði – en okkur ekki – var að togarasögu Ísfirðinga var þá lokið. Þeir höfðu átt Ísborgu og Sólborgu en selt bæði, hinu fyrrnefnda var breytt í vöruflutningaskip en þetta sama sumar tók gamli Ægir Sólborgu í slef – og annað skip til – og dró til Englands þangað sem bæði skipin höfðu verið seld til niðurrifs. Og varðskipið raunar líka.

Við urðum því að fara til Reykjavíkur eftir ís og svartolíu. Komum þar að morgni en fórum út að kvöldi. Í millitíðinni náðum við strákarnir að fara á sjávarútvegssýningu, þá fyrstu sem haldin hafði verið hérlendis, og okkur þótti helvíti gaman á sýningunni. Sáum meðal annars uppsett troll.“

Bítlahárið fyrir siglingu

Svo hefur þú orðið að fara í skólann aftur þegar haustaði?

„Já en þegar nálgaðist jólin tók maður að ókyrrast. Það var eftirsóknarvert að komast í jólatúrinn. Gaf svo góðar tekjur því að þá var yfirleitt siglt á jólum og fiskverð hátt í Bretlandi um jól og áramót. En það var heldur lágt á mér risið þegar við lögðum í hann 16. desember. Fimmtán stiga frost. Já, bylmingskuldi allan tímann. Þegar komið var vestur á Hala og við ætluðum að kasta fyrsta holinu var allt yfirísað, bæði troll og spil, og það tók okkur margar klukkustundir að þýða ísinn sem við gerðum með heitu vatni. Mikið djöfull var kalt. En mokveiði.

Okkur Árna – já Bjarnasyni núverandi formanni Félags skipstjórnarmanna – langaði að sigla. Við vissum að karlarnir sumir voru búnir að biðja um siglingafrí, vildu vera heima um áramótin, en Áki Stefánsson skipstjóri var ekki búinn að gefa svar. Að lokum tókst okkur að safna nægum kjarki til að fara upp í brú og þarna stóðum við skjálfandi fyrir aftan Áka og bárum upp erindið: Mættum við ef til vill fá að sigla?

Áki, sem sneri í okkur baki, sagði ekkert drjúga stund en starði út um brúargluggann. Svo sneri hann sér allt í einu við og sagði: En þið verðið þá að klippa ykkur.

Við þurftum ekki að hugsa okkur tvisvar um. Um leið og lagst var að rukum við beina leið til Hadda rakara og axlarsítt bítlahárið fékk að fjúka og það svo rækilega að við vorum nánast sköllóttir á eftir.

Við létum vita heima að við værum að fara í siglingu. Skipið var gert klárt, hluti af veiðarfærum og því sem fylgdi á dekki sett í land og gengið rosalega vel frá öllu eins og var siður hjá ÚA.

Við höfum kannski stoppað tvo eða þrjá tíma í landi svo voru landfestar leystar og siglt til Bretlands. En minningin um Áka þegar hann svaraði okkur situr afskaplega fast í mér.“

Sér ekkert nema nótaveiðar

Svo fórstu í Stýrimannaskólann?

„Fyrst varð ég að klára Gaggann sem ég gerði vorið eftir. Fór þá aftur á Harðbak uns ég byrjaði í Stýrimannaskólanum haustið 1970. Árni Bjarna fór þá líka í skólann og næstu þrjú árin sátum við í sama bekk og við sama skólaborð.

Þá var reglan sú að til þess að komast í skólann varð maður að vera búinn með 24 mánuði á sjó en því náðum við ekki. Okkur vantaði upp á eina sex eða átta mánuði. En Jónas heitinn Sigurðsson skólastjóri var ekki svínbundinn reglugerðarmaður, fjarri því.

Ætlið þið ekki að stunda sjóinn á milli bekkja, spurði hann.

Jú, svöruðum við.

Þá er málið leyst, sagði hann.

Harðbakur EA 3. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson.

Með þessum hætti tók Jónas margan manninn inn í skólann en ég er viss um að ófáir hefðu gefið skólann upp á bátinn hefðu þeir orðið að bíða ár eftir að komast inn. Þótt maður væri drullublankur öll þrjú árin í Stýrimannaskólanum fannst mér þessi tími afskaplega skemmtilegur. Skólinn var frábær.“

Svo hefur þú sótt aftur norður með fiskimannapróf upp á vasann?

„Jú ég fór norður en ekki til ÚA. En fyrst þarf ég að leiðrétta þig. Við Árni tókum aldrei fullgilt fiskimannapróf heldur farmannapróf sem þýddi að við vorum þrjá vetur en ekki tvo í Stýrimannaskólanum. Ástæðan fyrir þessu viðbótarnámsári held ég að hafi verið sú að mig langaði í meiri menntun og leið vel í skólanum sem hafði ekki alltaf verið raunin í Gaggganum.

En sem sagt, vinur minn, Arngrímur Brynjólfsson, – sem seinna var stýrimaður hjá mér á Akureyrinni og Baldvin en þegar þetta gerist var hann á Lofti Baldvinssyni frá Dalvík – lét mig vita að eftir loðnuvertíðina myndi losna pláss á bátnum. Ég fór niður á bryggju þar sem var verið að losa loðnu úr Lofti, talaði við Gunnar Arason skipstjóra og fékk plássið. Í framhaldinu fór ég svo á Lofti í Norðursjóinn þar sem við fiskuðum eins og andskotinn. Var alveg frábær tími. Það vildi líka svo skemmtilega til að Þorsteinn Gíslason, kennari minn í Stýrimannaskólanum, var með Loft í afleysingum. En þetta voru frábærir menn, Gunnar og Þorsteinn.

Svo var ég á loðnuvertíð árið eftir og var í þann veginn að fara aftur á Lofti í Norðursjóinn en þá voru skuttogararnir byrjaðir að flæða til landsins. Ég hafði verið á Sólbaki á milli bekkja sumarið 1972 með Áka en Sólbakur var fyrsti skuttogari ÚA, keyptur til félagsins þetta sama ár. Svo var ég þarna eitthvað að tala við föður minn og spyrja hann um Sólbak. Þá höfðu einhverjir verið að fara af Sólbaki yfir á Baldur á Dalvík og ég var eitthvað að grennslast fyrir um það hverjir yrðu stýrimenn. Þá sagði pabbi að Sigurður heitinn Jóhannsson hefði verið að spyrja um mig.

Það þýðir ekkert að tala við hann, sagðist pabbi hafa svarað. Hann sér ekkert nema þessar nótaveiðar.

En maður vildi koma sér eitthvað áfram. Á Lofti voru alltaf sömu mennirnir og ég sá ekki fram á að þar myndi losna stýrimannsstaða neitt í náinni framtíð.

Á ég ekki bara að fara og tala við Sigga, segi ég við pabba.

Jú endilega, svarar hann.

Og það varð úr að Siggi réði mig þarna í apríl 1974 sem 1. stýrimann en hann var þá tekinn við Sólbaki. Árið eftir tók Sigurður við nýjum Harðbaki, smíðuðum á Spáni og ég fór með honum yfir. Til gamans má geta þess að þetta sumar ´74 var Mái frændi 2. stýrimaður á Sólbaki.

Gamli tíminn kveður

„Þarna lauk ákveðnu skeiði í mínu lífi. Síðutogararnir voru að syngja sitt síðasta en síðutogaramennskan var afar lærdómsrík. Aðstaðan þá þætti vissulega ekki boðleg í dag, það veit ég, fimm og sex karlar saman í klefa og ein sturta og eitt klósett fyrir jafnvel 18 karla. En þarna var fullt af snillingum sem kenndu manni svo margt. Þeir voru engum líkir, Áki Stefánsson skipstjóri, Jón Pétursson fyrsti stýrimaður og Styrmir Gunnarsson 2. stýrimaður og svona get ég haldið áfram að telja daginn á enda. En það get ég sagt þér að á gamla Harðbak lærði ég undirstöðu sjómennskunnar, ég hefði hreinlega ekki getað byrjað minn sjómannsferil betur en á þessum gamla síðutogara.“

Og hvernig var svo byrjunin á nýjum Harðbak?

„Ekki góð. Í fyrsta túrnum skall á togaraverkfall sem stóð fram undir júnílok. Skipið lá bundið við bryggju í tvo og hálfan mánuð. Þetta var andskoti erfiður tími, já alveg ferlegur. Til að bæta gráu ofan á svart komu svo skattarnir, greiddir eftir á en á Lofti hafði ég rífandi tekjur en lagði auðvitað ekki krónu til hliðar. Gat það svo sem heldur ekki. Var að kaupa raðhúsaíbúð og við á nippinu með að missa hana, já þetta var ekki léttur tími fjárhagslega.“

Hvaða græjur höfðu þið í brúnni að styðjast við?

„Þegar ég byrjaði á Sólbaki vorum við aðeins með tvo radara og einn A-lóran sem virkaði ekki alstaðar í kringum landið og alls ekki á nóttunni. Ekki einu sinni norður á Hala. Svo kom C-lóraninn. Dóri á Svalbak - Halldór Hallgrímsson – fékk fyrstur okkar slíkt tæki. En með C-lóraninum gat maður staðsett sig miklu betur á kortinu og þurfti ekki lengur að nota ratsjána en til að hún nýttist til staðsetningar urðu að vera góð skilyrði. Og stundum sá maður andskotans ekki neitt út úr augum í hríð og vetrarveðri.

Svo kom plotterinn. C-lóraninn gaf þér upp staðsetningartölur sem þú barst saman við kortaborðið en þegar plotterinn kom fór maður að búa til sín eigin kort. Plotterinn gaf þér upp siglingaleiðina sem þú síðan færðir inn á þín eigin kort þegar þú varst orðinn sáttur við slóðina. Þessi tæki voru alger bylting.“

„Sumarið áður en við fórum í Stýrimannaskólann gerðist Árni [Bjarnason] „liðhlaupi“ og fór í Norðursjóinn á Súlunni en þar var líka Bjarni bróðir hans. Þegar Árni kom heim um haustið, orðinn moldríkur, sagði ég honum hvað til stæði, að ég ætlaði í Stýrimannaskólann. Daginn eftir hringdi Árni í skólann og fékk inni.“ Súlan kemur að landi á Akureyri. Útgerðarmaðurinn Sverrir Leósson tekur á móti sínum mönnum. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson

Þá fékk maður sting í hjartað

Hvenær var svo fyrsti skipstjóratúrinn?

„Það var jólatúr á Sólbaki 1974. Við komum heim á gamlársdagsmorgun. Veðrið var brjálað allan tímann, ég algerlega blautur á bak við eyrun og ekkert fiskirí. Það er sko erfitt fyrir skipstjóra að fá ekki neitt. Við vorum tólf daga á veiðum, eyddum olíu og vatni og vorum því léttir þegar lögðumst að, ekki með nema 69 tonn.

Á bryggjunni stóð vinur minn, Sveinn Hjálmarsson. Ég fylgdist með honum úr brúarglugganum þar sem hann horfði nokkrum sinnum upp á stefnið og niður í sjó. Ég vissi að hann var að stríða mér. Svenni var þá að fara yfir á nýjan Kaldbak sem ÚA hafði látið smíða á Spáni og ég sagði við hann: Ég ætla að vona að þið komið aldrei með þetta stóra skip að landi með svona lítinn afla.

Annars átti móðuramma mín seinasta orðið eftir þennan ömurlega túr þegar hún sagði: Þetta var góður túr.

Þá fékk maður sting í hjartað. Henni fannst þetta eitthvert merki um að svona myndi aldrei aftur ganga hjá mér. Hefur líklega hugsað fall er fararheill og ég sem var helst á því að skipstjóraferillinn yrði ekkert lengri.“

Svo verður þú fastráðinn skipstjóri?

Ég var á Harðbak með Sigurði frá því í febrúar 1975 þar til í október 1977. Og auðvitað leyst hann margoft af. Svo var ég þarna um haustið boðaður upp á skrifstofu til Gísla og pabba. Þeir voru þá að bjóða mér að taka við Kaldbak. Auðvitað var þetta draumurinn. Ég ætlaði alltaf að verða skipstjóri eins og pabbi. En ég var hikandi. Sumum fannst að aldursröð ætti að ráða um slíkar stöðuveitingar. Ég var ekki sammála því en hafði samt áhyggjur af umtalinu vegna pabba, að ég nyti hans. Ég heyrði líka út undan mér ýmsar dylgjur.

Ég sagði ekki strax já. Vildi fá að hugsa málið. Þeir hjá Ísbirninum höfðu hring í mig um sumarið og boðið mér pláss á nýjum togara sem þá var í smíðum í Noregi. Ég gaf þeim ekkert ákveðið svar sem betur fer. Því var ekkert afráðið þegar ég var boðaður á morgunfundinn hjá pabba og Gísla.

Auðvitað langaði mig að halda áfram hjá ÚA en hitt var spennandi líka.

Ég var þá svo heppinn að Áki, minn mentor, var í landi. Við spjölluðum saman. Ég sagði honum af áhyggjum mínum vegna pabba, þetta yrði kannski svolítið erfitt. Hann sem framkvæmdastjóri ÚA að bjóða syni sínum skipstjórastól.

Áki, sem var aldrei margmáll, horfði fast á mig og sagði svo: Þú ferð ekkert suður.

Hann var ekkert að hafa það flókið. Teningunum var kastað. Ég fór upp á skrifstofu, þakkaði boðið og sagðist þiggja starfið. Þó ekki skilmálalaust. Ef ekkert gengi hjá mér fengi ég engu að síður að klára árið. Ég yrði ekki rekinn. Þetta var munnlegt okkar á milli og var svo aldrei rætt neitt meira.

Þeir spurðu mig líka, pabbi og Gísli, hvort ég vildi að áhöfninni yrði sagt upp. Ég hélt nú ekki. Ætlaði ekki að láta segja upp fyrir mig enda þekkti ég vel til mannskapsins og vissi að hverju ég gekk. Þarna voru úrvalsmenn, til dæmis Sveinn vinur minn Hjálmarsson 1. stýrimaður. Við höfðum verið saman á gamla Harðbak og hann tók seinna við Kaldbak þegar ég hætti.

Féþúfa Hampiðjunnar

Var þér mikið stýrt úr landi?

Nei, aldrei. Þeir höfðu báðir þann eiginleika, pabbi og Gísli, að vera ekkert að stýra skipstjórunum. Eina var að vinnslunnar vegna urðum við að landa á ákveðnum tímum. Að öðru leyti engin stýring. Þetta var fyrir kvótakerfið. Málið var að koma sér út og afla eins og maður mögulega gat. Og þegar gekk illa fengum við klapp á bakið. Þetta kemur bara næst, sögðu þeir. Þannig fengum við fullan stuðning framkvæmdastjóranna, alltaf.

Okkur var heldur ekki stýrt í ákveðna tegund. Auðvitað vildu menn helst þorsk, gaf mesta verðmætið. En ekki alltaf tiltækur og þá var það karfi og ufsi og seinna grálúða sem varð okkur mjög mikilvæg.

Með tilkomu skuttogarana var farið að veiða djúpt vestur af Látrabjargi þar sem var kallað Torg hins himneska friðar sem voru sannkölluð öfugmæli því að þar var alltaf fast og rifið. Nú eða Hampiðjutorgið því að veiðarfæratjónið var sannkölluð féþúfa fyrir Hampiðjuna. Og þar kom grálúðan til sögunnar, svona fyrir alvöru.

Og mikið ógurlega var gaman að veiða þarna þegar maður hafði loksins náð tökum á því en það var erfitt fyrst, já djöfull erfitt. Stundum rifið í hverju einasta holi og undirbyrðið úr. Þá klóraði maður sér í hausnum.

En hvar vildir þú helst veiða?

Ég vildi helst ekki fara mikið suður fyrir land. Langt stím. Það kom þó fyrir að við fórum alla leið suður á Eldeyjarbanka og Selvogsbanka. Uppáhaldssvæðið voru Vestfjarðamið, frá Víkurál austur á Strandagrunn. Einnig norðaustur- og austfjarðamið. Þetta fór svolítið eftir árstíðum auðvitað.

 

Sólbakur EA 5 kemur að bryggju 8. febrúar 1972, þá stærsti skuttogari íslenska flotans, 54 metra langur. Fjölmenni tók á móti skipinu sem ÚA hafði keypt af frönsku útgerðarfélagi. Áka Stefánssyni var falin skipstjórn. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson

Á vorin vorum við í grálúðunni út af Víkurál, svona frá lokum apríl og fram í júní. En auðvitað vildi maður helst fiska þorsk þó aflinn yrði eitthvað minni í tonnum talið. Þá var hangið á Halanum sem var stundum erfitt á haustin. Reytingur dag eftir dag sem tók á taugarnar. En þá þurfti ekki nema kannski tvo ágæta daga til að redda túrnum, kannski 20-30 tonn í flottrollið hvorn dag og þá var þetta komið. Það var alltaf þessi spurning ef fiskiríið brást, að fara eða hanga kyrr aðeins lengur? Og hvert átti þá að fara? Alls ekki gott að fara úr engu í ekkert. Og langt stím tók á.

Auðvitað var maður stressaður, meira fyrst en þetta vandist en þó aldrei þannig að ég væri ekki smástressaður. Það þýddi ekkert annað en að vera vakandi yfir þessu hverja mínútu.

Svona gerir enginn að gamni sínu

Minnisstæðir túrar?

Ætli það séu ekki góðu túrarnir. Til dæmis jólatúrinn ´76. Þá leysti ég af sem skipstjóri á Harðbak. Allt á kafi í ís allan tímann og ekki mikið sofið enda við ungir og þurftum ekki mikið á svefni að halda. Þarna stóðum við kappklæddir í brúnni, ég og Birgir Sigurjónsson, stýrimaður úr Hrísey, í úlpu og bússum, en báðar brúarhurðirnar stóðu opnar upp á gátt og við sífellt að hlaupa út á brúarvænginn til að passa að togvírinn færi ekki upp á jaka. Samt lentum við í því nokkrum sinnum að fá hlerana og jafnvel trollið líka upp á ísinn. En við vorum með fullfermi eftir níu daga og það var ekki leiðinlegt að koma að á nýársdagsmorgni með smekkfullt skipið.

Og mikið rosalega var oft gaman á Kaldbak þegar maður var búinn að ná árangri í grálúðunni fyrir vestan. Mokveiði og frábærir túrar. Mér er mjög minnisstætt þegar úrvalsmaðurinn Kristinn Pálsson kom eitt sinn upp í brú og tilkynnti mér: Það eru farnir niður 1600 kassar á sólarhringnum.

Þetta voru tæp 100 tonn.

Ég held að það hafi verið ´81 frekar en ´82 að við vorum fyrir vestan og allt gekk upp hjá okkur. Sem var ekki alltaf tilfellið, stundum var allt í klessu. En í þetta skiptið gekk bókstaflega allt upp. Við rifum ekki neitt og mokafli og við búnir að kjaftfylla eftir aðeins sex daga.

Við erum þarna að klára túrinn. Eitt hol enn. Um kvöldmatarleytið hleyp ég niður að borða. Ég gleypi í mig matinn og svo upp aftur. Þá var kominn bræluskítur og allir búnir að gefast upp nema við. Biggi patró bátsmaður, sem hafði leyst mig af, er áhyggjufullur og segir: Ég held við séum hálffastir.

Ég lít á loggið og sé að það er komið niður í tvær mílur. Andskotinn, hugsa ég, er ég nú búinn að fylla af grjóti. Ætlar þetta að enda þannig að ég slíti frá mér pokann?

Ég hífi en þegar við byrjum að hífa í grandarana verður allt mjög þungt fyrir en skyndilega léttir á. Trollið kemur upp og ég sé að það stendur grálúða í hverjum einasta möskva fram allt troll en skverinn er sprunginn. Þar kom skýringin á þyngslunum við að hífa í grandarana en pokinn var stútfullur og mikið í belgnum. Þegar við svo hífum inn springur annar pokinn en við náðum samt 25 tonnum úr holinu. Og að landi komum við með 375 tonn, allar lestar troðnar og körin líka.

Eitt sinn vorum við fyrir austan. Þetta var ´81. Það var rosalegt fiskirí en fiskurinn smár og mikið af lokunum og því erfitt að eiga við þetta. Þarna voru aðallega Austfirðingar en flotinn annars að mestu fyrir vestan. Svo voru sífellt að koma tilkynningar um lokanir hér og lokanir þar. Hundleiðinlegt sem sagt.

Ætli sé þá ekki best að fara vestur líka, hugsa ég með mér. En þegar við vorum komnir suður í Seyðisfjarðardýpi leist mér ekkert á að halda áfram, sný við og ákveð síðan að fleygja mér í smástund. Og þarna lá ég, klóraði mér í hausnum og gat ekki sofnað. Sagði svo við sjálfan mig: Nei, þú ferð ekkert að keyra í sólarhring vestur. Þú lætur slag standa hérna.

Ég fer upp með það sama og held áfram suður eftir. Það stefndi fljótlega í fínan túr en ekkert meira. Við áttum í bölvuðu brasi með annað botntrollið sem safnaði í sig grjóti og við gátum ekki fundið neitt út úr því.

Þennan morgun höfðum við séð svolítið af lóðningum uppi í sjó sem við héldum að hlyti að vera loðna. Svo þegar við erum í þessu brasi með trollið segi ég við Svein stýrimann: Eigum við ekki bara að kasta flottrollinu og sjá hvað skeður. Strákarnir fá þá tíma til að vinna í botntrollinu á meðan.

Við köstum svo flottrollinu. Þetta var um hádegisbil. Strákarnir eru að vinna á dekkinu og ég sé að það er stöðugt eitthvað að koma í trollið. Ég sá þó illa innkomuna því að höfuðlínustykkið var eitthvað skakkt. En eitthvað var að reytast inn. Svo ég asnast til að snúa við og enn aftur. Svo er farið að kalda og styttast í myrkur. Þegar loks var híft sá ég hvaða djöfuls dellu ég hafði gert. Trollið var gjörsamlega kjaftfullt af þorski. Þar sem við erum að brasa við að slá á belginn alltof framarlega kemur Svenni askvaðandi og segir: Skerum á, skerum á, minnkum þetta.

Nei, ég tími því ekki, svara ég.

Jú, við verðum að minnka þetta.

Í staðinn fyrir að hlusta á Svenna og skera á belginn og hleypa út, reyndi ég að taka allt holið inn. Það bætti ekki úr skák að það var kominn svolítill kaldi sem gerði okkur erfitt um vik. Til að gera langa sögu stutta þá misstum við allt í sjóinn. Þetta var rosalegt hol, það stærsta sem ég hef séð. Já, ég var ekki stoltur af sjálfum mér, svo ég segi það alveg eins og er. En svona gerir enginn að gamni sínu og þetta hefði aldrei komið fyrir ef við hefðum haft græjurnar sem eru í dag.

Ég var alveg miður mín um kvöldið, já leið helvíti illa. Um tíuleytið fór ég niður að sofa en sagði við Svenna: Við köstum ekkert botntrollinu í nótt. Tökum sjensinn og bíðum til morguns. Þú kastar bara í fyrramálið. Strákarnir geta þá unnið í flottrollinu og gert það klárt og farið í botntrollið.

Þegar ég kem upp um morguninn var Svenni búinn að kasta. Þennan dag vorum við að veiðum í tíu klukkustundir en sex daginn eftir og aflinn 150 tonn á ekki lengri tíma. En alls komum við með 360 tonn að landi og skipstjórinn þá orðinn heldur upplitsdjarfari.

Sáttur við ferilinn

Hvernig myndir þú lýsa þér sem skipstjóra?

Til þess eru nú aðrir hæfari en ég. Örugglega hefur ekki öllum líkað við mig, maður gat svo sem látið í sér heyra. En ég var heppinn með áhöfn. Margir karlanna fylgdu mér af Kaldbak yfir á Akureyrina og þaðan yfir á Baldvin Þorsteinsson.

Mikilvægast finnst mér þó eftir svona starf að hafa aldrei misst mann í sjóinn. Einu sinni munaði þó litlu. Ég var að leysa af á Harðbak, þetta hefur sennilega verið í september ´76. Við höfðum verið á flottrolli og vorum að skipta yfir á botntroll. Þá dettur botnstrollhlerinn skyndilega niður en þar hjá stóðu tveir strákar. Og þarna horfði ég á eftir öðrum þeirra hverfa í stórum boga út fyrir borðstokkinn og við á tólf sjómílna hraða. Ég öskra niður í borðsal og strákarnir á dekkinu hlaupa til. Ég næ að snúa skipinu á punktinum og við sáum hann strax í ljóskastaranum. Ég man að ég hugsaði með mér, ef við náum honum ekki fer ég aldrei aftur á sjó. Það fór þó ekki svo illa en ekki leist mér á annan fótinn á honum, það get ég sagt þér. Ég kallaði því eftir þyrlu en fékk neitun úr landi. Þá var keyrt í botni inn á Ísafjörð, um annað var ekki að ræða en því miður missti hann fótinn um hnéð. Já, nú eru sannarlega breyttir tímar, sem betur fer. Þyrlan kemur við fyrsta kall í flest öllum tilfellum

Það varð ekki til að lina sálarangist mína að Villi sonur minn var með, þá fimm ára og varð vitni að þessu. En það vita allir sem reynt hafa að það reynir rosalega á alla áhöfnina að missa mann fyrir borð. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa aldrei þurft að upplifa slíka raun og er afskaplega sáttur við ferilinn.“

Eigum við að ræða eitthvað um Samherja?

„Er þetta ekki að verða gott hjá okkur. Ég hætti á Kaldbak um miðjan júlí '83 og kvaddi ÚA. En það var allt í góðu. Pabbi og Gísli sögðust að vísu ekki vilja missa mig. En við því var ekkert að gera og ég hélt áfram að fara niður á skrifstofu að heimsækja þá. Þar var ég alltaf velkominn og ég er þeim báðum ævarandi þakklátur fyrir að bera það traust til mín að bjóða mér skipstjórn á Kaldbak EA-1.