Fara í efni
Mannlíf

„Þú býrð ekki í Venesúela. Þú lifir af. Einn dag í einu“

Fjölskyldan fagnar jólahátíðinni, sameinuð á Íslandi. Mynd úr einkasafni Nazeh.

„Hér er ég öruggur og fjölskylda mín er örugg. Hér getum við verið við sjálf og okkur langar ekki að fara héðan. Við viljum vera Íslendingar.“

Þetta segir Nazeh, fjölskyldufaðir frá Venesúela sem flúði heimalandið, meðal annars í viðtali við Akureyri.netFyrri hluti viðtalsins birtist í gærkvöldi og seinni hlutinn nú.

Eins og fram kom í gær býr Nazeh ásamt fjölskyldu sinni; eiginkonu, tveimur börnum og frænda sínum, í Sómatúni á Akureyri. Hann kom fyrst einn en fjölskyldan hálfu ári síðar. Ferðalag þeirra á þann stað sem þau eru á í dag hefur verið langt og á köflum mjög erfitt, en þau eru flóttafólk á Íslandi vegna óbærilegra aðstæðna í heimalandinu.

Fjölskyldan loksins sameinuð

Þegar Nazeh hafði búið í sex mánuði á Akureyri og búinn að koma sér vel fyrir, gat hann loksins keypt flugmiða til Íslands fyrir fjölskylduna sína. „Þau komu hingað í júlí. Það hljómar eins og stuttur tími, en hann leið ofboðslega hægt,“ segir Nazeh við Akureyri.net. „Það var ótrúlegt að sjá þau aftur. Við grétum svo mikið. Mánuðirnir án þeirra voru eins og heil eilífð fyrir mér.“ 


Dóttirin Leila sem blómstrar í Giljaskóla, æfir fimleika og talar góða íslensku.
 

Nazeh tekur sér tíma til þess að segja frá á þessum tímapunkti í frásögninni. Það er erfitt fyrir hann að rifja upp tímann í íslenskum vetri, fjarri konu sinni og börnum. „Þau lentu í Keflavík og við keyrðum heim. Ég fylgdi þeim inn í litlu íbúðina okkar og við gátum loksins dregið andann. Upp á síðkastið hafði konan mín verið farin að fá hringingar úr ókunnugum símanúmerum og ég var orðinn ennþá hræddari um þau.“

Nazeh hafði fyrst um sinn áhyggjur af dóttur sinni Leilu sem var þá fimm ára. „Hún trúði ekki að við værum loksins saman aftur. Til dæmis, þá borðaði hún lítið sem ekkert. Það tók hana tíma til þess að treysta því að nú væri hún örugg.“ Sem betur fer fór henni að líða betur og nú blómstrar hún í Giljaskóla, æfir fimleika og talar góða íslensku.

Eitt af því fyrsta sem konan mín spurði að þegar þau voru komin hingað, var hvenær væru vatnsdagar

„Þegar við bjuggum í Venezuela, þó að dóttir mín væri bara lítil, þá skynjaði hún að það væri hættulegt að fara út,“ segir Nazeh. „Einu sinni, í desember, fór hún að gráta upp úr þurru. Við spurðum hana og þá kom í ljós að hún hafði áhyggjur af jólasveininum. Ef hann myndi koma til þeirra myndi hann verða rændur og þau fengju engar jólagjafir.“ Þarna var hún fimm ára gömul.

Nazeh segir að mjög margir búi við erfiðar aðstæður í heimalandinu. „Þú býrð ekki þarna. Þú lifir af. Einn dag í einu,“ segir hann með áherslu. Fyrir utan óöryggið sem fólkið býr við, eru innviðir af skornum skammti, eitthvað sem við á Íslandi höfum ekki þurft að búa við. „Eitt af því fyrsta sem konan mín spurði að þegar þau voru komin hingað, var hvenær væru vatnsdagar,“ segir Nazeh. Þar sem þau bjuggu í Venezuela var bara hægt að fá rennandi vatn tvisvar í viku. „Rafmagnið bilar á hverjum degi, stundum er það óvirkt svo dögum skiptir,“ bætir hann við.

Ofnar og grindur sem Nazeh smíðaði sjálfur áður en hann setti á stofn bakarí í heimalandinu, eins og hann sagði frá í fyrri hluta viðtalsins sem birtist í gær. Mynd úr einkasafni Nazeh. 

„Landið er kalt, en fólkið er hlýtt“

„Ég sé kraftaverk allsstaðar á Íslandi. Bara það að skrúfa frá krananum þegar mér sýnist og fá hreint vatn að drekka,“ segir Nazeh. „Loftið sem ég anda að mér er hreint. Göturnar eru hreinar. Landið er kalt, en fólkið er hlýtt.“ Frá því að Nazeh kom til Íslands segist hann ekki hafa upplifað annað en góðmennsku frá Íslendingum. „Þið eruð ekki fordómafull, þið eruð vinir vina ykkar. Ég upplifi mig jafnfætis öllum,“ segir hann.

Vinaverkefni Rauða krossins hjálpaði mikið

Nazeh tók þátt í vinaverkefni hjá Rauða krossinum á Akureyri þegar hann var nýlega fluttur hingað. „Verkefnið er þannig að sjálfboðaliðar taka að sér að hitta flóttafólk á Akureyri og veita félagsskap, stuðning og hjálp við að kynnast nýju umhverfi,“ segir Nazeh. „Ég var svo heppinn að kynnast Arnari Arngrímssyni, sjálfboðaliða, í gegnum þetta verkefni, en við erum nánir vinir enn í dag og ég lít á hann sem hluta af fjölskyldunni.“ Fyrstu vikurnar á Akureyri voru erfiðar fyrir Nazeh, en hann gat ekki alltaf talað við fjölskylduna, þar sem netið og rafmagnið er óstöðugt í heimalandinu. „Það hjálpaði mér mikið að hafa Arnar til þess að mæla mér mót við og spjalla.“

Fyrir utan hið geysivinsæla bakarí sem Nazeh stofnaði og rak í heimalandinu og hann sagði frá í fyrri hluta viðtalsins í gær.

Ríkisstarfsmenn í Venezuela fá nánast ekkert borgað

Konan hans Nazeh heitir Analie. Hún vinnur í eldhúsinu í Giljaskóla. „Analie vann sem bókasafnsvörður í háskóla heima í Venezuela. Hún er með gráðu sem bókasafnsfræðingur,“ segir Nazeh. „Ríkisstarfsmenn í Venesúela fá nánast engin laun. Þau duga ekki einu sinni fyrir ferðakostnaði á vinnustaðinn.“ Nazeh segir frá því að hann þekki kennara sem hafa þurft að vinna á kvöldin til þess að lifa af, kennaralaunin eru álíka rýr. „Þú kennir ekki til þess að eignast peninga, þú kennir af hugsjón og vegna þess að þú elskar að kenna og vilt fræða ungt fólk.“ Það virðist vera margt í kerfinu í Venezuela sem er ómannúðlegt og það er erfitt að sjá fyrir sér að fólk geti lifað góðu lífi þegar grunnstoðir samfélagsins eru jafn veikbyggðar og Nazeh greinir frá.

Það eina sem ég bið um er að fólk sýni virðingu í umræðunni.

Heit umræða um málefni flóttafólks frá Venezuela

Útlendingastofnun á Íslandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að ástandið í Venezuela hafi batnað og vilja hætta að taka á móti hælisleitendum þaðan. Margir hverjir, sem ekki hafa fengið umsókn um alþjóðlega vernd staðfesta, hafa búið hérna svo mánuðum, jafnvel árum skiptir, og hafa aðlagast íslensku samfélagi. Nú er staða þeirra í mikilli óvissu. Nazeh segir að hann vilji ekki gagnrýna ákvörðun Útlendingastofnunar, en hann tekur nærri sér að fylgjast með umræðum á Alþingi um málefnið. „Ég hef verið að fylgjast vel með þessari umræðu, eins og gefur að skilja, og mér þykir erfitt að hlusta á reiðilegar umræður þar sem einhverjir reyna að draga upp neikvæða mynd af löndum mínum, eins og þeir séu vandamálið“ segir Nazeh. „Það eina sem ég bið um er að fólk sýni virðingu í umræðunni.“

Fjölskylda Nazeh. Frá vinstri: Analie, Nazeh, Leila, Zais og Daniel. Daniel er frændi Nazeh. Mynd: RH.

Hér er ég öruggur og fjölskylda mín er örugg. Hér höfum við frelsi til þess að vera við sjálf og okkur langar ekki að fara héðan. Við viljum vera Íslendingar.

Draumurinn að fá ríkisborgararétt

„Við erum með landvistarleyfi í fjögur ár frá því að ég kom til landsins,“ segir Nazeh. „Við þurfum að sækja um áframhaldandi leyfi eftir það. Fyrst þurfum við að uppfylla ákveðin skilyrði, til dæmis að hafa unnið ákveðið mikið, hafa farið í að minnsta kosti 180 íslenskutíma og eitthvað fleira.“ Nazeh hefur ákveðið að reyna fara aðra leið fyrst og sækja um ríkisborgararétt til Alþingis á næstunni. „Venjulega er ekki hægt að sækja um ríkisborgararétt fyrr en eftir 5 ára búsetu á landinu,“ segir Nazeh. „Stundum eru veittar undanþágur og það er hægt að senda sérstaka umsókn með rökstuðningi fyrir því af hverju undanþága ætti að vera veitt. Ég ætla að reyna það.“ Nazeh segir að ástæðan fyrir því að hann vilji fá ríkisborgararétt sé að hér líði honum loksins eins og hann sé heima. „Hér er ég öruggur og fjölskylda mín er örugg. Hér getum við verið við sjálf og okkur langar ekki að fara héðan. Við viljum vera Íslendingar.“