Þröstur minn góður ...

Haustið er tími berjanna, ekki síður hjá ákveðnum fuglategundum en hjá okkur mannfólkinu. Eftir að hafa þrisvar á stuttum tíma rekist á skógarþresti sem hreyfa hvorki legg né lið þrátt fyrir að hafa nálgast þá mjög með símann að vopni veltir sá sem þetta skrifar fyrir sér hvort berin gætu átt þar hlut að máli, mögulega gerjuð og áfeng, þrestirnir orðið ölvaðir og ekki kunnað fótum sínum (né vængjum) forráð, eða hvort þrestirnir þrír hafi einfaldlega í ógáti flogið á gler, algáðir. Ekki gott að segja enda voru þrestirnir hvorki látnir blása né fara í blóðprufu.
Vankaður skógarþröstur sat á stétt fyrir utan heimili blaðamanns í lok ágúst, vissulega nærri stigahúsi sem alsett er stórum glerrúðum og auðvelt að fljúga villur vegar, ölvaður eða algáður. Myndataka angraði hann ekki þó svo síminn væri mjög nærgöngull.
Rúmri viku síðar flaug annar þröstur á rúðu og sat í dágóðan tíma vankaður á borði undir glugga. Hann lét sér myndatökur í léttu rúmi liggja, en flaug að lokum á brott nokkru eftir að myndatökum lauk og hann hafði aftur náð áttum. Eitthvað af fiðri sem losnaði við áreksturinn varð þó eftir á borðinu.
Þriðji skógarþrösturinn varð svo á vegi blaðamanns nálægt biðstöð SVA í Merkigili, skammt frá Kiðagili, núna í vikunni. Enn var síminn dreginn upp og myndatökur hafnar og lét fuglinn sér fátt um finnast. Hreyfði aðeins höfuð og augu eftir því hvar símanum var haldið á lofti, nánast ofan í andlitinu á honum.
Eftir nokkra stund fór hann þó greinilega að líta á myndasmiðinn sem verndara sinn því þegar bílar áttu leið framhjá hoppaði fuglinn nær og kom sér í skjól á milli fóta myndasmiðsins, óttasleginn vegna bílaumferðarinnar, en fann öryggi á óvæntum stað.
Um skógarþröstinn (Turdus iliacus) segir meðal annars á fuglavefnum:
„Hinn söngfagri fugl, skógarþröstur, er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og jafnframt algengur í görðum í þéttbýli. Hann er meðalstór spörfugl, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars er ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan.
Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlfuglinn að syngja og helga sér svæði. Hann er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í flokkum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri.“
Skógarþrösturinn er bæði dýra- og jurtaæta, étur skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæða unga sína á þeim, að því er fram kemur á Fuglavefnum. „Síðsumars leggjast þeir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag,“ segir einnig um fæðu val skógarþrasta.