Fara í efni
Mannlíf

Þrítugt Rokkland hyllt í Hofi – MYNDIR

Myndir: Þorgeir Baldursson

Mikið fjör var í óvenjulegu þrítugsafmæli í menningarhúsinu Hofi á laugardagskvöldið. Afmælisbarnið var útvarpsþátturinn Rokkland sem Ólafur Páll Gunnarsson hefur haft umsjón með á Rás 2 í Ríkisútvarpinu í 30 ár við miklar vinsældir, af því tilefni var slegið upp mikilli tónlistarveislu og troðfullt var út úr dyrum eins og vænta mátti.

Óli Palli, eins og útvarpsmaðurinn er jafnan kallaður, valdi lög í samstarfi við Þorvald Bjarna Þorvaldsson tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar og margar af perlum rokksögunnar hljómuðu; meðal hljómsveita og listamanna sem áttu lög á efnisskránni voru Bítlarnir, Björk, David Bowie, Neil Young, Led Zeppelin, ELO, U2, Iron Maiden, Sigur Rós og Queen,

  • Þorgeir Baldursson var í Hofi með myndavélina og hann býður hér til myndaveislu.

Ólafur Páll Gunnarsson – Óli Palli, sem stjórnað hefur Rokklandi á Rás í þrjátíu ár, á sviðinu í Hofi á laugardagskvöld.

Ólafur Páll var á sviðinu með tónlistarfólkinu og tengdi atriðin saman með stuttum kynningum og sögunum á bakvið lögin.

Fyrsti Rokklands-þátturinn fór í loftið í 7. október 1995 sem gerir hann að langlífasta þættinum á dagskrá Rásar 2 og að einum elsta þætti í sögu útvarps á Íslandi. Það er helst að Kvöldgestir Jónasar Jónassonar eða djassþáttur Jóns Múla geti skákað Rokklandi þegar kemur að langlífi,“ sagði í kynningu á þessari áhugaverðu afmælisveislu.

Á vef Menningarfélags Akureyrar segir í morgun:

Síðastliðinn laugardag fóru fram risastórir tónleikar í Hofi þegar SinfóniaNord sameinaðist Rokklandi á Rás 2 og hélt epíska tónleika þar sem sinfónískt rokk var leikið fyrir troðfullu húsi.

Árið 2024 hafði Óli Palli „forseti“ Rokklands samband við Þorvald Bjarna tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stakk upp á að 30 ára afmæli Rokklands yrði fagnað á Akureyri. Þorvaldur þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um og var lagt af stað í vegferð sem hefur verið tæplega ár í undibúningi.

Una Torfa, Sigríður Thorlacius, Stína Ágústsdóttir, Jónas Sig, Magni Ásgeirs, Eyþór Ingi, Jónína Björt og Andrea Gylfa skiptust á að flytja margar af helstu perlum tónlistarsögunnar með dyggri aðstoð frá SinfóniaNord, Todmobile bandinu, 50 manna kór og sönghópnum Rok frá Akureyri.

Uppsetning og framkvæmd var á heimsmælikvarða og var hver fermeter á sviðinu í Hofi nýttur fyrir listamenn, hljóðfæri og annan búnað. Var þetta enn ein sönnun þess hversu magnaður tónleikastaður Hof í raun er.

Upplifun listamanna sem og áhorfenda af viðburðinum var öll á sama veg, hreinlega stórkostleg upplifun!

Á vef Menningarfélagsins segir einnig í morgun:

Næstu verkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands eru tónlistin í Birtíng sem sett verður upp hjá Leikfélagi Akureyrar eftir áramót, tónleikar í mars þegar tónskáldið Jón Nordal verður heiðrað, Ljós í myrkri, þar sem verk Atla Örvarssonar verða flutt og svo Sirkustónar, sem ætlað er nemendum grunnskólanna. Samhliða því er svo nóg að gera hjá SinfóniaNord við upptökur á fjölbreyttum tónlistarverkefnum.