Fara í efni
Mannlíf

Þórsvöllurinn opnaður – Þór mætir Keflavík

Þórsarar taka á móti liði Keflvíkinga á Þórsvelli, VÍS-vellinum, í fjórðu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í dag kl. 14.

Leikurinn í dag er sá fyrsti á árinu sem fer fram á grasinu, en heimaleikir Þórs og Þórs/KA í deilda- og bikarkeppnum í vor hafa fram til þessa verið spilaðir í Boganum. Þórsarar eru heppnir með veður, bjart og spáð 20 gráðu hita í dag enda hefur félagið boðað fólk á svæðið í upphitun frá kl. 12, en leikurinn hefst kl. 14.

Þórsarar hafa byrjað deildarkeppnina betur en gestirnir, sitja í 3. sætinu með fimm stig, hafa unnið einn leik og gert tvö jafntefli. Keflvíkingar hafa unnið einn af fyrstu þremur leikjum sínum, en tapað hinum tveimur og eru í 8. sæti deildarinnar. Þessi lið mættust síðast í næstefstu deild Íslandsmótsins árið 2020 og unnu Keflvíkingar þá báða leikina.


Þórsvöllurinn er fjarska grænn og fagur, en kunnugir segja að hann sé í raun ekki vel tilbúinn fyrir álag sem fylgir æfingum og leikjum enda hefur verið fremur kalt að undanförnu og gróandinn farið sér hægt.