Þórsarar upp í Bestu deildina í dag?

Það ræðst í dag hvort Þórsarar sigra í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, og tryggja sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar, eða fara í fjögurra liða umspil um sæti í efstu deild.
Þór er í efsta sæti með 42 stig, Þróttur með 41 og Njarðvík 40. Svo skemmtilega vill til að Þór mætir Þrótti á AVIS vellinum, heimavelli Þróttar í Laugardalnum í Reykjavík. Sigurliðið í þeirri viðureign tryggir sér sæti í Bestu deildinni að ári en geri liðin jafntefli færu Njarðvíkingar upp fyrir bæði með sigri á nágrönnunum sínum í Grindavík og hreppti þar með efsta sætið. Þá yrðu Þór og Njarðvík reyndar jöfn að stigum en lið Njarðvíkur er með betra markahlutfall.
Þórsarar eiga harma að hefna í dag því þeir töpuðu fyrri deildarleik sumarsins 2:1 fyrir Þrótturum – mjög ósanngjarnt – í Boganum í byrjun júlí. Vikið er að þeim leik neðst í þessari frétt.
Heil umferð er á dagskrá í deildinni í dag, lokaumferðin, og er spennan á botninum ekki minni en á toppnum því fjögur lið eru enn í fallhættu. Fjölnir er fallinn úr Lengjudeildinni en ekki kemur í ljós fyrr en í dag hvort Selfoss, Leiknir, Fylkir eða Grindavík fellur einnig.
Ívar Orri Kristjánsson, sem talinn er einn besti dómari landsins flautar til leiks á AVIS velli Þróttar klukkan 14.00. Þá hefjast allir leikirnir sex.
- Staða efstu lið fyrir leiki dagsins er þessi. Smellið á myndina til að sjá stöðu allra liða i deildinni og hvaða leikir fara fram í dag.
Þór tapaði 2:1 fyrir Reykjavíkur-Þrótti í Boganum í júlí sem fyrr segir. Liðin höfðu liðin þá sætaskipti; Þróttur fór í 18 stig eftir 11 leiki og í fjórða sæti Lengjudeildarinnar en Þór seig niður í fimmta sæti. Hafði 17 stig að loknum 11 leikjum.
„Það var með ólíkindum að Þórsarar skyldu ekki fagna sigri gegn Þrótti. Þeir réðu í raun lögum og lofum lengst af í leiknum, fengu nokkur prýðileg færi til að skora en nýttu aðeins eitt,“ sagði í umfjöllun akureyri.net um leikinn. „Gestirnir fengu eitt gott færi í fyrri hálfleik og Aron Birkir varði vel skot utan af velli í tvígang en annars ógnuðu þeir ekki marki Þórsara fyrr en í blálokin. Náðu þá loks að halda boltanum í einhverja stund og leikmenn Þórs gáðu ekki að sér. Þróttarar skoruðu á 86. mín. og á annarri mínútu uppbótartíma.“
Umfjöllun akureyri.net um leik Þórs og Þróttar í Boganum má sjá hér: